Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Haraldur Hreinsson og Sigurjón Árni Eyjólfsson

Trú og samviskufrelsi

Að undanförnu hefur hugtakið „samviskufrelsi“ verið býsna fyrirferðamikið í umræðunni. Endrum og sinnum hefur það meira að segja ratað í fjölmiðla. Þessari grein er ætlað að vera guðfræðilegt innlegg í þá umræðu. Hér er ætlunin að fara ofan í saumana á þeirri guðfræðihugsun sem hinn evangelísk-lútherski skilningur á samviskunni og samviskufrelsi grundvallast á. Tekið skal fram í upphafi að þessi grein fjallar ekki um hjónavígslu fólks af sama kyni nema óbeint að því leyti sem það tiltekna álitaefni hefur vakið upp spurningar sem okkur þykir brýnt að tekist sé á við með ígrunduðum, upplýstum og yfirveguðum hætti.

Hvað er samviskufrelsi?

Hugtakið samviskufrelsi á sér langa sögu. Í dag er það að finna í mannréttindasáttmálum og stjórnarskrám fjölmargra ríkja. Eftirfarandi yfirliti er ekki ætlað að gefa neina tæmandi mynd af sögu hugtaksins eða fjölbreytilegum birtingarmyndum þess – pólitískum, samfélagslegum, lagalegum, heimspekilegum o.s.frv. Það er aðeins byrjunarreitur fyrir hina guðfræðilegu umfjöllun sem er þungamiðja þessara skrifa.

Í ljósi ríkulegrar sögu hugtaksins kemur ekki á óvart að það hefur verið skilgreint á ýmsa vegu.[1] Með allnokkurri einföldun mætti segja að samviskufrelsi sé frelsi til að mynda sér og hafa skoðun án hvers kyns utanaðkomandi þvingunar. Því er ætlað að standa vörð um innri veruleika einstaklingsins, forum internum. Samviskufrelsi vísar þó ekki einungis til réttar einstaklingsins til að velja og móta þau viðmið og gildi sem liggja lífi hans eða hennar til grundvallar. Það felur líka í sér réttinn til að breyta í samræmi við þá grundvallarafstöðu sem fólk hefur valið að byggja líf sitt á, í hvaða aðstæðum sem er.[2]

Undir slíkar aðstæður fellur „neitun af samviskuástæðum“ (e. conscientious objection) sem hefur býsna flókna lagalega skírskotun sem verður ekki gerð tæmandi skil hér. Með því er átt við það þegar einstaklingur neitar á grundvelli samvisku sinnar að samþykkja atferli sem lög eða samningar studdir lagabókstaf krefjast. Hér skal haft í huga að neitunin er ekki „réttur“ í sjálfri sér heldur aðstæður sem koma upp þegar ófrávíkjanleg gildi einstaklingsins, grundvölluð á samvisku og sannfæringu – sem varin eru af samvisku- og skoðanafrelsisákvæðum – stangast á við lagalega skyldu.[3]

Slíkar aðstæður geta oft komið upp. Algengasta tilvikið er þegar einstaklingar neita að gegna herþjónustu. Af samviskuástæðum hefur fólk einnig neitað að taka þátt í fóstureyðingaraðgerðum og líknardrápi. Eins hafa fjölmargir neitað að undirgangast tilteknar læknismeðferðir, starfa á trúarlegum hvíldardögum, greiða til almannaheilbrigðistryggingakerfis, fjarlægja trúarleg tákn (s.s. slæður (hijab), höfuðföt (jarmúlkur/kippur) eða rýtinga (kirpan)), sverja fána hollustueið, taka þátt í tilteknum kennslustundum eða dagskrá í skóla, eða gefa saman fólk af sama kyni. Tilvikin þar sem reynir á samviskufrelsisákvæði laga eru fjölbreytt og kemur einungis til með að fjölga eftir því sem vestræn samfélög verða fjölmenningarlegri.

Hugmyndin um samviskufrelsi á sér djúpar rætur í kristinni hefð og hefur mótast í tímans rás í ljósi spennuþrungins sambands kristins fólks og veraldlegra yfirvalda. Um það verður fjallað í því sem á eftir fer. Neitun af samviskuástæðum eru aðstæður sem koma upp á grundvelli samvisku- og skoðanafrelsisákvæða laga og mannréttindasáttmála. „Afnám samviskufrelsis“ er næsta óraunhæfur möguleiki. Því verður aldrei tekið fyrir það að neitun af samviskuástæðum geti komið upp. Það krefst þess aftur á móti að farið sé ofan í saumana á réttmæti hvers tilviks fyrir sig, þegar og ef þau koma upp.

Hlýðni við yfirvöld og gagnrýni á þau

Þegar samband kristinna manna við ríkisvaldið er skoðað er óhjákvæmilegt að hugtakið hlýðni komi upp í hugann. Í gegnum tíðina hefur þung áhersla legið á því hvernig útfæra skyldi hlýðni við ríkisvaldið.[4] Það hafði það í för með sér að gagnrýni á það var minna sinnt. Áherslan á syndina og hlutverk ríkisvaldsins að halda aftur af óreiðu í mannlegu lífi varð ofan á. Litið var svo á að mikilvægi ríkisvaldsins fælist í því að tryggja rammann utan um mannlegt samfélag, þ.e. að tryggja friðinn í samfélaginu öllu.

Í Nýja testamentinu er dregin upp mynd af sambandi milli valdsviða hins veraldlega valds og hins andlega sem spennuhlöðnu. Mikilvægt er að guðfræðileg umræða glati ekki hinum gagnrýna tóni sem hún sækir til þeirrar biblíulegu hefðar sem birtist skýrast í orðum Jesú í Matt 22.21: „Gjaldið þá keisaranum það sem keisarans er og Guði það sem Guðs er.“ Sami tónn kemur fram í hinni svokölluðu klausu Péturs (lat. clausula Petri): „Æðstipresturinn sagði: stranglega bönnum vér yður að kenna í þessu nafni. Pétur og hinir postularnir svöruðu: Fremur ber að hlýða Guði en mönnum“ (Post 5.29).[5]

Á grundvelli þessara texta hefur alltaf mátt finna gagnrýni meðal kristinna á hið veraldlega vald, hvort sem það birtist sem fursti eða kirkjuleg yfirvöld. Við þekkjum kunn dæmi úr fornkirkjunni þegar hin kristnu neituðu að taka þátt í keisaradýrkuninni. Einnig frá miðöldum þrátt fyrir mjög flókna sögu þeirra tíma um átök um valdsvið ríkis og kirkju. Á tímum siðbótarinnar finnur þessi gagnrýni sér farveg í kröfunni um að ekki megi neyða fólk til trúar og loks í hugmyndinni um samviskufrelsið (þ. Gewissensfreiheit) – hugmynd sem á sér djúpar rætur í enduruppgötvun forvígismanna siðbótarinnar á vægi hins kristna frelsis eins og birtist skýrt í ræðu Lúthers fyrir ríkisþinginu í Worms. [6]

Frelsi hinnar kristnu manneskju

Seint verður of lítið gert úr mikilvægi umfjöllunar Lúthers um eðli hins kristna frelsis fyrir evangelísk-lútherska guðfræði. Samkvæmt honum er hinn kristni fyrir trúna frjáls drottinn yfir öllum hlutum og er engum háður, en vegna kærleikans er hinn kristni líka þjónn allra og öllum undirgefinn í góðum hlutum. Frelsi hinnar kristnu manneskju byggist ekki á gjörðum heldur á sambandinu við Guð í trúnni. Guð er sá sem réttlætir manninn óháð verkum og verðleikum hans. Frelsi sitt á maðurinn alfarið í þeirri náð sem hann á í Kristi. Í þessum veruleika réttlætingarinnar er að finna tenginguna við Guð og frelsið frá heiminum, til þess að geta þjónað í heiminum.

Báðir þessir þættir – trúin og þjónustan, eða trú og verk – eru þannig tengd saman órjúfanlegum böndum. Tengslin við Guð eru tryggð með því að hlusta á orð hans og endurnýjast í trúnni við það. Frelsið í heiminum og gagnvart heiminum raungerist í þjónustu við náungann, þ.e.a.s. í hinni frjálsu hlýðni við það sem þjónar náunganum til góðs. Þessi grundvallarstrúktúr mótar skilning Lúthers á samviskunni og hlutverki hennar. Í samviskunni er manneskjan ávörpuð af Guði og í samviskunni kemur sjálfsmynd mannsins hvað skýrast fram. Hún mótast af tveimur meginþáttum, annars vegar af þrældómi undir valdi syndarinnar sem lögmálið minnir stöðugt á og maðurinn reynir í farvegi verkaréttlætingarinnar, og hins vegar af frelsi hins kristna manns sem meðtekur réttlætingu sína í trúnni á Krist sem veitir honum náð sína í fagnaðarerindinu.[7]

Hvar liggja mörkin?

Í samviskunni kristallast spurningin um hvar mörk hlýðninnar við yfirvöld liggja.  Samviskan er nú grundvöllur hlýðninnar; inn á við er hún bundin fagnaðarerindinu sem skilgreinir og ber uppi persónu mannsins, út á við er lögmálið nú farvegur þjónustu mannsins við náungann. Þessi hlýðni er ekki grundvölluð á neinu öðru en þessum tveimur þáttum, lögmáli og fagnaðarerindi sem bæði lúta Guði. Í þessu sambandi varpar lögmálið ekki einungis ljósi á firringarstöðu mannsins heldur á það sektarferli sem maðurinn er hluti af og þörfina fyrir það að ríkið setji manninum mörk. Þ.a.l. er hlýðni við ríkisvaldið nauðsynleg til þess að setja samfélaginu ramma og skapa farvegi fyrir einstaklinga innan þess og til þess þarf ríkisvaldið að geta beitt sektum og refsingum til þess að viðhalda friðnum. Þetta er hlutverk ríkisvaldsins – að tryggja hinn ytri frið í samfélaginu og ytri ramma þess og vegna þessa hlutverks ber manninum að sýna hlýðni. Um leið og ríkisvaldið stígur út fyrir þetta hlutverk sitt og fer að skilgreina innri veruleika mannsins, t.d. með því að neyða fólk til þess að játast tiltekinni hugmyndafræði, trúarstefnu eða lífsafstöðu, þá er það komið út fyrir mörk sín og leysir samviskuna frá skyldu sinni við sig. Alræðistilhneigingar svipta t.d. ríkisvaldið lögmæti hlýðniskröfu sinnar. Þegar yfirvaldið heldur út á slíkar brautir þá ber fólki að standa á frelsi samviskunnar.

Kjarni persónunnar

Þessar áherslur Lúthers má ekki misskilja á þann veg að tengslin milli Guðs og samviskunnar dragi úr sjálfræði mannsins. Ekki skal gera lítið úr því vægi sem manneskjan hefur sem einstaklingur og sjálfstæð persóna. Þrátt fyrir þá staðreynd að innan kristinnar siðfræði sé oft fjallað um samband einstaklingsins og ríkisins í samhengi hlýðninnar má það ekki leiða til þess að lítið sé gert úr gildi einstaklinga sem borgara í samfélaginu, hvað þá að aðeins sé litið á þá sem þegna. Hugtakið hlýðni eitt og sér nægir ekki til þess að skilgreina stöðu einstaklinga og frelsi samviskunar. Slíkt myndi birta einstaklinginn sem óvirkan á meðan hann í raun á að koma fram sem virkur þátttakandi sem tekur réttindi sín og skyldur sem almennur borgari alvarlega.

Í lýðræðislegu samfélagi nútímans er nefnilega ekki einungis krafist hlýðni af borgurunum heldur virkrar þátttöku í samfélagsumræðu. Því hlýtur það að teljast stórt skref aftur á bak ef menn einblína einungis á hlýðni borgaranna gagnvart lögum og reglum sem ríkið setur í stað virkrar umræðu og gagnrýni og hvað þá að svipta fólk samviskufrelsi til að tryggja hlýðni við lög. Lýðræðislegt samfélag þarfnast gagnrýninnar og opinnar umræðu sem virðir samviskufrelsi fólks og tryggir þá umgjörð sem umræðan fer fram í. Þegar vegið er að samviskufrelsi fólks er ekki einungis vegið að lýðræðisbundnum réttindum heldur að kjarna persónu þess. Að lútherskum skilningi er „búið að rugla saman regimentunum“.[8]

Stofnanir, embætti og persónur

Sum lög eru þess eðlis að framkvæmd þeirra er bundin við stofnanir sem tryggja að þeim sé framfylgt. Þannig sér lögreglan um löggæslu og dómstólar um að dæma í málum o.s.frv. Þetta felur t.d. í sér að borgarar geta krafist þess að dæmt sé í þeirra málum en þeir geta ekki gert kröfu um að ákveðnir einstaklingar geri það. Hér er kirkjan sem ein af stofnunum samfélagsins engin undantekning. Næsta auðvelt er að tryggja að lögum og stefnumörkun kirkjunnar sé framfylgt innan hennar án þess að grípa þurfi til þess að neyða einstaklinga til að vinna verk sem stangast á við samvisku þeirra og sannfæringu – e.t.v. að viðurlögðum áminningum, sektum eða jafnvel brottvikningu úr starfi. Bent hefur verið á að um presta íslensku þjóðkirkjunnar gildi sömu lög og um aðra opinbera starfsmenn.[9] Satt er það, en varast ber í lengstu lög að leggja að jöfnu persónu og embætti. Manneskjan er annað og meira en það embætti sem hún sinnir. Í öllum stéttum geta komið upp siðferðileg álitamál þar sem ólíkir einstaklingar geta komist að mismunandi niðurstöðu og þó fært gild rök fyrir máli sínu. Slík mál verða ekki leyst með „afnámi samviskufrelsis“, sama hversu góður málstaðurinn er. Sýnt er að með því er of miklu til fórnað.


[1] Sjá yfirlit hjá Anders Schinkel, Conscience and Conscientious Objections (Amsterdam: Amsterdam University Press, 2007), 383 o.áfr.
[2] Þetta kallaði þýski félagsfræðingurinn Niklas Luhmann hinn almenna eða landlæga skilning á samviskufrelsi (Gewissensfreiheit im landläufigen Sinne). Niklas Luhmann, “Die Gewissensfreiheit und das Gewissen,” Archiv des öffentlichen Rechts 90 (1965): 270. Sjálfur skilgreindi Luhmann hugtakið með áhugaverðum hætti sem ekki verður fjallað nánar um hér.
[3] Javier Martínes-Torrón, „Conscientious objections: Protecting freedom of conscience beyond prejudice”, í Routledge Handbook of Law and Religion (London: Routledge, 2015), 191.
[4] Í rómversk-kaþólskri guðfræði er þessari hlýðni sett viss mörk með því að tengja hlýðnina við hið kirkjulega kennivald. Innan evangelísk-lúthersku kirkjunnar er hlýðnihugtakið eðlilega tengt umfjöllun Marteins Lúthers við hið veraldlega vald sem framhald eða útfærslu á valdi foreldra yfir börnum sínum eða ábyrgð og skyldu foreldra gagnvart börnum sínum. Hjá Lúther er það tengt umfjöllun Páls um hlutverk hins veraldlega valds eins og hann setur það fram í Róm 13.
[5] Sjá umfjöllun í Trú, von og þjóð: sjálfsmyndir og staðleysur (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag, 2014), 145-205.
[6] Sbr. yfirlýsingu Lúthers fyrir ríkisþinginu í Worms 18. apríl 1521.
[7] Sjá umræðu í Sigurjón Árni Eyjólfsson, Guðfræði Marteins Lúthers í ljósi túlkunar hans á Jóhannesarguðspjalli 1535-1540 (Reykjavík: Hið íslenska bókmenntafélag), 87-103.
[8] Wolfgang Huber, Gerechtigkeit und Recht: Grundlinien christlicher Rechtsethik (Gütersloh: Gütersloher Verlagshaus, 2006). Hans Richard Reuter, „Grundlagen und Methoden der Ethik“ í Handbuch der Evangelischen Ethik ritstj. Wolfgang Huber, Torsten Meireis, Hans-Richard Reuter (München: C. H. Beck, 2015), 75-82.
[9] Sjá t.d. hæstaréttardóm nr. 109/2007. Aðgengilegur á http://www.haestirettur.is/domar?nr=4775

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3334.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar