Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Haraldur Hreinsson og Sigurjón Árni Eyjólfsson

Trú, mannréttindi og forræðishyggja

Mannréttindi hjálpræðið

Í umræðu hversdagsins virðist það stundum svo að mannréttindi og mannréttindahugsjónin hafi verið sett á stall trúarbragða. Áður höfum við séð hvernig veraldlegar hjálpræðiskenningar á borð við marxisma, nýfrjálshyggju og þjóðernishyggju hafa verið hafnar upp með svipuðum hætti. Þegar mannréttindi eru rædd með slíkum formerkjum er ekki aðeins horft til mannréttindahugsjónarinnar – sem birtist í sinni skýrustu mynd í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna – sem ramma um mannlegt samfélag heldur sem altæks leiðarvísis um inntak og form mannlegs lífs. Slíkan þankagang er nauðsynlegt að taka til alvarlegrar umhugsunar, sér í lagi ef horft er til eðlis og uppruna mannréttinda. Ólíkt trúarbrögðum og öðrum lífskoðunum veita mannréttindi nefnilega ekkert svar við spurningunni um tilgang mannlegs lífs, grundvöll veraldarinnar, leiðina að innihaldsríku lífi, uppruna illskunnar og möguleikana til að yfirvinna hana, um stað mannsins í tilverunni eða eilíft líf. Mannréttindi geta ekki þjónað hlutverki lífsafstöðu, hvað þá hjálpræðiskenningar.

Það skiptir höfuðmáli að átta sig á að með mannréttindum eru ekki settar fram umgengnisreglur fyrir einstaklinga og samfélag nema í takmörkuðum mæli. Þar eru einungis að finna réttarfarslegar lágmarkskröfur fyrir mannsæmandi líf og samskipti í mannlegu samfélagi. Mannréttindi tilheyra nefnilega réttarríkinu og snúa að lagalegri umgjörð samskipta í samfélagi og heiminum öllum.

Í þessu ljósi birtist það skýrt hversu miklu það varðar að mannréttindi tilheyra ekki einhverri einni tiltekinni menningarlegri arfleifð heldur ná til allra. Það útilokar þó auðvitað ekki að fólk úr hinum ýmsu menningarheimum geti fundið í sinni arfleifð þætti sem styðja við mannréttindahugsunina. Og um það er ekkert nema gott að segja. Þannig geta kristnir einstaklingar fundið beina samsvörun milli mannréttinda og manngildishugmyndarinnar og hinnar biblíulegu sýnar á manninn sem skapaðan í Guðs mynd, múslimar geta gert hið sama á grundvelli sýnar kóransins á manninn sem ráðsmanns Guðs á jörðu, búddistar geta tengt mannréttindahugsjónirnar við þá sýn að í manninum komist margbreytileiki lífsins til meðvitundar um sjálfan sig. Og hin ýmsu lífskoðunarfélög og hugmyndakerfi geta fundið sambærilega tengifleti í kenningum sínum og hugmyndafræði. En það breytir því þó ekki að enginn einn menningarheimur, trúararfleifð eða hugmyndastefna getur gert mannréttindahugtakið að sínu og tekið sér túlkunarvaldið yfir því.

Mannréttindi: Sjálfstæð og óháð

Mannréttindi og inntak þeirra urðu til smám saman og á löngum tíma en sú þróun tók kipp á því tímabili mannkynssögunar sem við köllum nútíma og teygir sig u.þ.b. 300 ár aftur í tímann til upplýsingar og iðnvæðingar. Á þessum 300 árum hefur samfélag manna tekið gríðarlegum breytingum. Um leið hefur það fengist við uppgjör, krísur og átök sem aftur hafa framkallað ótal málamiðlanir í stöðugri viðleitni fólks til að gera samfélög sín starfhæf, réttlát og skilvirk. Það er mikilvægt að gleyma ekki þessu sögulega samhengi sem mannréttindi hafa tekið á sig mynd í. Saga mannréttinda er sagan af lærdómsferli sem enn stendur yfir og er langt frá því að vera lokið eins og sjá má af samfélagsumræðu og fréttatímum.

Þó stór hluti þessa lærdómsferlis hafi farið fram á Vesturlöndum þá fer því fjarri að að mannréttindahugsjónin sé sér-evrópsk eða með einhverjum hætti einskorðuð við vestræna menningu. Slík tilhneiging er þó áberandi meðal Vesturlandabúa og ástæðan er augljós. Nægir að minna á að fyrir 800 árum voru stjórnvöld í fyrsta sinn sett undir lög með Magna Carta. Síðar sjáum við frönsku byltinguna brjótast fram og stjórnarskrá Bandaríkjanna koma fram á sjónarsviðið. Lengi mætti telja áfram. Saga Vesturlanda hefur verið áberandi vettvangur þessarar þróunar og drifkraftur þar vissulega verið vissir þættir úr grísk-kristinni menningararfleifð.

Margir Vesturlandabúar eru – réttilega upp að vissu marki – hreyknir af þessum atburðum og nýta þau tækifæri sem gefast til að minnast þeirra og færa þá í tal, og telja þá grísk-kristinni arfleifð til vegsauka. En hér verður að forðast ýmsar hættur: fyrir það fyrsta er hér ekki verið að tala um þróun sem ryður sér sjálfkrafa fram í átt til einhvers konar fullkomnunar. Í annan stað er að finna margt innan grísk-kristinnar arfleifðar sem er í andstöðu við mannréttindahugsjónina. Loks ber að geta þess að þegar fjallað er um söguna og sögulega þróun er það alltaf gert út frá sjónarhóli samtímans og út frá hagsmunum þess samtíma.

Því ber að hafna að mannréttindi þurfi að aðlaga hinum ýmsu menningarheimum. Þau snúa fyrst og fremst að réttindum einstaklinga innan allra samfélaga gagnvart heildinni. Mannréttindi byggja ekki á útþenslustefnu vetrænna gilda heldur á sannfæringunni um réttindi einstaklingsins sem umgjörð og grundvöll fyrir réttlátt samfélag sem stendur undir væntingum og kröfum nútímans.

Trú og mannréttindi

Að okkar mati er þessi skilningur á mannréttindahugtakinu mikilvægur fyrir umræðu um samspil trúar og mannréttinda. Fjölmenningarleg og þ.a.l. fjöltrúarleg samfélög þarfnast mannréttinda til þess að þrífast en hér ber að hafa í huga að mannréttindi snúa ekki að því að tryggja trúarlega sannfæringu, hefðir eða menningarlegan lífsmáta. Mannréttindi snúa ekki að hefð, trú, eða venjum mannlegs samfélags heldur að einstaklingum, sjálfræði þeirra og rétti til þess að móta líf sitt. Það er einungis óbeint – og þá í samhengi við sjálfræði einstaklingsins – sem trúarleg sannfæring, siðir, menningarleg umgjörð og hefðir verða viðfangsefni mannréttinda. Þannig er það réttur einstaklingsins að fá að bera sýnileg tákn um trú eða sannfæringu en trúarsamfélög geta ekki gert sambærilega kröfu til einstaklinga og samfélags.

Mannréttindi – og þ.m.t. trúfrelsi – má ekki nota til þess að koma í veg fyrir gagnrýni á trú og trúarbrögð, lífskoðanir sama í hvaða formi hún birtist. Hvort fólk síðan tileinkar sér eða tileinkar sér ekki almenna kurteisi og vinsemd gagnvart viðmælendum sínum er svo önnur umræða. Þess vegna er mjög mikilvægt að halda því til haga að trúfrelsi þýðir ekki friðhelgi fyrir trúarbrögð, trúarlegar hefðir eða trúarlega sjálfsmynd heldur tryggir frelsi einstaklingsins til að velja, móta og útfæra sjálfur afstöðu sína gagnvart spurningum er snúa að trú, tilvist og lífsskoðun. Á sömu forsendum eru það mannréttindi einstaklinga að skipta um trú eða hafna henni – eða hafna trúleysi og taka trú – án þess að réttindi þeirra skerðist að nokkru leyti. Sá sem grípur til trúfrelsis til að koma á ritskoðun – hvers kyns sem hún kann að vera – og beitir henni gegn tjáningarfrelsinu áttar sig ekki á því fyrir hvað það stendur.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3093.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar