Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Sigurjón Árni Eyjólfsson

Óttinn og trúin

„Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi. Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar. Einum fékk hann fimm talentur, öðrum tvær og þeim þriðja eina, hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi. Sá sem fékk fimm talentur fór þegar, ávaxtaði þær og græddi aðrar fimm. Eins gerði sá er tvær fékk. Hann græddi aðrar tvær. En sá sem fékk eina fór og gróf fé húsbónda síns í jörð og faldi það.

Löngu síðar kom húsbóndi þessara þjóna og lét þá gera skil. Sá með fimm talenturnar gekk þá fram, færði honum aðrar fimm og sagði: Herra, fimm talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar fimm. Húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn. Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.

Þá gekk fram sá með tvær talenturnar og mælti: Herra, tvær talentur seldir þú mér í hendur, hér hef ég grætt aðrar tvær. Og húsbóndi hans sagði við hann: Gott, þú góði og trúi þjónn, yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.

Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.

Og húsbóndi hans sagði við hann: Illi og lati þjónn, þú vissir að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki. Þú áttir því að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim. Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða og hann mun hafa gnægð en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða, jafnvel það sem hann hefur. Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna“ (Matt 25.14-30).

Inngangur

Þegar við heyrum dæmisöguna, Talentur (Mt 25.14-30) sem er guðspjallstexti fyrsta sunnudags í níuviknaföstu, eigum við erfitt með að sætta okkur við örlög þriðja þjónsins. Okkur finnst húsbóndi hans, hreint út sagt, vera lítið annað en óréttlátur og grimmur stórkapítalisti. Að Jesús, í Matteusarguðspjalli, líki himmnaríki við slíkan aðila vekur margar spurningar. Þess vegna er nauðsynlegt að athuga dæmisöguna nánar og það lið fyrir lið.

Að eiga mikið og vilja meira

Rétt er að geta þess ein talenta, upphæðin sem þriðja þjóninum var falið að ávaxta – og hann afhenti óskerta, – var engin smá upphæð. Þannig voru heildartekjur af skattheimtu Rómverja í Palestínu 200 talentur á ári. Og ef við framreiknun upphæðina og yfirfærum á okkar aðstæður eru þjóninum faldir verulegir fjármunir eða nokkur hundruð milljónir. Húsbóndi hans er greinilega stóreignamaður, en um hann segir:

v.15 „Hann kallaði á þjóna sína og fól þeim eigur sínar.“

Okkur finnst einkennilegt að hann skuli fela aumum þrælum að sýsla með svo mikið fé. En í samtíma Jesú kom fyrir – alveg eins og í dag – að stóreignamenn létu þjóna sína sjá um auð sinn og ávaxta hann. Þetta var mikið og erfitt ábyrgðarstarf, enda voru þrælarnir sem sáu um það jafnan fagmenn á fjármálasviðinu og oft vel menntaðir „enduskoðendur og viðskiptafræðingar“. Í mörgum tilfellum hafði húsbóndinn markvisst fjárfest í menntun þeirra til að þeir gætu sinnt slíkri afgerandi stöðu. Í nútímanum rekumst við á svipaðar áherslur þegar fyrirtæki kosta eða senda starfsfólk sitt á ýmis námskeið til að gera það hæfara í starfi. Stjórnendur stórfyrirtækja sækja auk þess oft sérmenntað fólk, beint inn í menntastofnanir, til að taka að sér erfið ábyrgðarstörf sem yfirleitt tengjast vörslu og ávöxtun peninga. Slíkir starfskraftar eru fyrirtækjum dýrmætir og er það mikill missir fyrir fyrirtæki ef þeir fara annað. Dagblöðin eru full af frásögnum um slíkt. Rekstralega þykir því skynsamlegt að gera vel við starfsfólk sitt, einfaldlega til að halda því. Hið sama er uppi á teningnum í dæmisögu Jesú, þó að húsbóndinn eigi þjóna sína, þá gerir hann vel við þá enda segir húsbóndinn við fyrstu tvo þegar hann kom til baka:

v. 21 „Yfir litlu varstu trúr, yfir mikið mun ég setja þig. Gakk inn í fögnuð herra þíns.“

Takið eftir að kaup beggja miðast ekki við afköst, heldur trúmennsku og launin sem þeir hljóta eru aukið traust húsbóndans. Og annað, að upphæðin sem þeim var falin, er lítil í augum húsbóndans miðað við það sem þeir fá nú. Bæði trú húsbóndans á þjónunum og það sem hann treystir þeim fyrir, sprengir ramma þess sem við getum ímyndað okkur.

Gróðinn og óttinn

Af ofangreindu er ljóst, að húsbóndinn kallar ekki á einhverja þrjá þjóna, heldur á þá aðila sem hann vænti mikils af og voru hæfir til að leysa þetta verkefni. Við getum sem sé gengið út frá því að þjónarnir hafi verið vanir fésýslumenn. Og húsbóndinn virðist þekkja þjóna sína því í textanum segir: „hann fól þeim eigur sínar […] hverjum eftir hæfni. Síðan fór hann úr landi.“ Hann lætur eigur sínar í þeirra hendur og hver og einn ber ábyrgð á sínum hlut. Ekkert bendir til að einn sé yfir annan settur, þó að upphæðirnar séu mismunandi. Þeir njóta allir sama trausts. Þrátt fyrir það, getum við vel skilið hræðslu síðasta þjónsins við að þurfa að sýsla með svo mikið fé. Um hann segir í textanum:

v. 24, 25 „Loks kom sá er fékk eina talentu og sagði: Herra, ég vissi að þú ert maður harður sem uppsker þar sem þú sáðir ekki og safnar þar sem þú stráðir ekki. Ég var hræddur og fól talentu þína í jörð. Hér hefur þú þitt.“

Þjónninn vildi ekki að taka neina áhættu og gróf því féð í jörðu. Í samtíma Jesú töldu rabbíar hyggilegt að gera slíkt, ef varðveita ætti peninga gegn þjófnaði og á stríðstímum. Féð, falið í jörðu, var öruggt þótt það bæri engan ávöxt. Mætti ætla að húsbóndinn myndi vel skilja þetta, en hann segir:

v. 26 „Illi og lati þjónn, þú vissir, að ég uppsker þar sem ég sáði ekki og safna þar sem ég stráði ekki.“ Þessi orð eru hörð og virðast benda til að þess að húsbóndinn sé miskunnarlaus og jafnvel yfirgangssamur fjármálamaður, því hvað er það annað en græðgi og stjórnlaus gróðafíkn að eigna sér það sem annarra er. Við álítum sem svo að í raun geti húsbóndinn, þessi „stórkapítalisti“ ekki kvartað, þar sem hann fékk það óskert til baka sem hann hafði falið þjóninum. En slíkt virðist greinilega ekki nægja þessum óvægna auðhyggjumanni. Í ljósi þessa eru rök hans eru mjög skiljanleg:

v. 27. „Þú áttir […] að leggja fé mitt í banka. Þá hefði ég fengið það með vöxtum þegar ég kom heim.“

Húsbóndinn bendir þjóninum á, að hann hafi alfarið misskilið það sem ætlast var til af honum. Honum var falið féð – ekki til að vernda það fyrir þjófum eða koma því undan vegna stríðs, – heldur fékk hann það til að nota og ávaxta. Í samtíð Jesú var fjármálaheimurinn og bankakerfið í eðli sínu ekki svo ólíkt því sem við þekkjum í dag. Allt Rómarríki var ofið þéttu neti banka sem tryggðu viðskipti og stöðuleika í efnahagslífinu. Vextir af lánum voru líka svipaðir og hér á Íslandi í dag, allt frá 2%-15%, eða háir og algeng voru skammtímalán með allt að 20% vöxtum. Það sem hinir þjónarnir gerðu var í raun mjög einfallt, þeir fóru með talenturnar í banka og bankinn sá um að ávaxta féð.

Í guðspjallinu segir: „Löngu síðar kom húsbóndinn“, þ.e.a.s. hann var mörg ár í burtu jafnvel tugi ára. Við vitum að á slíkum tíma ber fé í banka – sem er á verðtryggðum reikningi – margfalda ávöxtun. Og þetta voru engar smáupphæðir. Það þarf ekki mikinn fjármálamann til að átta sig á, að ef bankinn hefur lánað þetta fé með háum vöxtum, þá hafa þeir ávaxtast jafnt og þétt og að lokum tvöfaldað upprunalega upphæð. Þjónarnir gerðu ef til vill ekkert sérstaklega mikið, ef þeir lögðu féð bara inn. Í þessu samhengi hefur húsbóndinn rétt fyrir sér. Síðasti þjónninn hefði alveg getað hugsað og starfað án þess að taka svo mikla áhættu. Húsbóndinn tapaði því þó að hann héldi fénu, þjóninn – sem var valin sem fjármálamaður – brást.

En okkur finnst samt vera óréttlátt hvernig húsbóndinn rústar lífi þjónsins og hneykslumst á hvernig hann rökstyður mál sitt:

Óréttlætið og náðin

v. 28-29 „Takið af honum talentuna og fáið þeim sem hefur tíu talenturnar. Því að hverjum sem hefur mun gefið verða, […] en frá þeim sem eigi hefur mun tekið verða jafnvel það sem hann hefur.“ Hér er raunveruleika auðhyggjunnar eða markaðshyggjunnar vel lýst, peningar virðast ætíð leita þangað þar sem þeir eru fyrir og stöðugt er tekið af þeim sem hafa lítið fyrir. Við erum hér agndofa vagna orða Jesú. Er hann ekki kominn í hreina andstöðu við boðun sína og verk? Og er ekki réttlætisvitund okkar misboðið þegar Jesú Kristur lætur húsbóndan segja: „Rekið þennan ónýta þjón út í ystu myrkur. Þar verður grátur og gnístran tanna.“

Þjónninn brást vissulega sem fjármálamaður og því trausti sem honum var sýnt eða réttara sagt: Hann virti það ekki. Þjóninn sinnti ekki þeirri ábyrgð sem honum var falin þegar hann lét féð liggja óhreyft í jörðu. Heila mannsævi nýtti hann ekki féð, heldur skilaði því ónotuðu. Dómurinn sem hann fær er algjör höfnun og hann er lokaður úti í ysta myrkri, en hinir ganga inn í fögnuð herra síns. Og við spyrjum: Hvar er hér fyrirgefning og náð?

Þegar við spyrjum svona erum við þá ekki komin út fyrir ramma sögunnar, því í heimi fjármála er lítið spurt um slíkt? En hvernig eigum við þá að skilja dæmisöguna? Það er okkur sagt í fyrstu orðum guðspjallsins: „Svo er um himnaríki sem mann er ætlaði úr landi.“ Jesús er að fjalla um hvernig við eigum að takast á við lífið þar til hann kemur í mætti og dýrð. Frá þessu sjónarhorni fær sagan aðra vídd. Tíminn sem húsbóndinn er í burtu táknar ævi hvers manns. Guð skilur okkur ekki eftir allslaus heldur felur okkur, þjónum hans, eigur sínar sem við eigum að sýsla með alla okkar ævi. Og nú spyrjum við, fyrir hvað standa talenturnar?

Talenta og talent

Menn hafa löngum tengt þær við eðlislæga hæfileika mannsins, enda er uppruna orðisins „talent“ að finna í þessari frásögu. Þannig verður úr talentu, talent, sem sé, maðurinn á ekki að grafa hæfileika sína í jörðu, sama hverjir þeir eru, heldur nýta þá í viðskiptum sínum við heiminn og þá munu þeir njóta sín og verða til góðs. Takið eftir að hinir þjónarnir tvöfölduðu upprunalega upphæð. Illi þjónninn fær svo slæman dóm vegna þess að hann nýtti ekki gáfur sínar sem gjafir Guðs, heldur gróf þær niður í jörð afskiptaleysis og hræðslu við lífið. Og hann uppskar því eins og hann sáði, ótta, bæði gagnvart eigin lífi, heiminum og Guði.

Þessi túlkun stenst nú ekki alveg því fyrir það fyrsta er upphæðin, sem skilin er eftir, ekki einungis svo há að enginn á samsvarandi hæfileika. Auk þess eru talenturnar húsbóndans en ekki þjónanna.

Talentan og náðin

Og við spyrjum: Hvaða óendanlega auð skilur Kristur eftir hjá okkur sem eyðist ekki en við eigum að sýsla með alla okkar ævi? Svarið er: Fagnaðarerindið um Guð sem er okkar fyrirgefandi faðir. Kristur felur okkur orð sitt, sem fyrir trúna setst að í hjörtum okkar. Takið eftir að Jesús lætur okkur öllum það eftir, hver þjónn fékk talentu sem hver fyrir sig átti að ávaxta. Við eigum hvert og eitt okkar trú sem nærist á orði Guðs. Það á að móta allt líf okkar og það ber að ávaxa með lestri þess, íhugun og í reynslu okkar af lífinu með því. Við eigum ekki að taka Guðs orð og grafa það í jörðu einsemdar eða fela það á bakvið misskilda barnatrú sem við erum hrædd við að nota og rækta. Trúin á Krist er ekki slíkt einkamál að hún komi engum við og þá ekki einu sinni okkur sjálfum. Við megum ekki líða eigið áhugaleysi um efni trúarinnar, sem kemur svo oft átaklega í ljós þegar við teljum okkur trú um að það þurfi ekki að huga að efni Ritningarinnar eða trúaruppeldi; því við álítum allt sem þurfum að vita um Krist og trúna sé tekið svo að segja inn með móðurmjólkinni. Orðið er vissulega þar, en það ber einungis ávöxt í lífi okkar, fái það að vera hluti af því.

Óttinn og trúin

En þrátt fyrir oft litla þekkingu á kristinni trú teljum við okkur fær um að dæma um innihald hennar. Ég hugsa bara hér til þeirrar gagnrýni sem við mætum oft, þegar menn álíta trúna svo mikinn barnaskap að þeir geti svipt grundvellinum undan henni með fáranlegum spurningum eins og: Getur Guð skapað svo stóran stein að hann geti ekki lyft honum o.s.frv. Í þessu sambandi segir þýskur guðfræðingur, Gerhard Ebeling: „Við tölum alltaf um píslarvættið í fornkirkjunni […] En það er til annað hulið píslarvætti í nútímanum, píslarvætti [fólks eins og] presta og fræðara kirkjunnar, sem líða fyrir óendalegt skeytingarleysi, fáfræði og hroka samtímans varðandi málefni Kristindómsins.“[1] Að við sjálf látum slíkt viðgangast, með því að rækta ekki trú okkar, er að grafa okkar talentu í jörð óttans. Og það er heigulsháttur að bregða hér stöðugt barnatrúnni fyrir sig, því börn þarfnast líka næringar.
Við gröfum okkar talentu eða trúna líka í jörðu, ef við geymum orð Guðs innan veggja kirkjunnar og gleymum því þar. Við erum öll flytjendur fyrirgefningar orðs Krist og eigum að láta orð hans hugga og styrkja okkur og aðra. Lesum það og fylgjum því. Tökum hér fyrir einn dag í einu með því að leggja líf okkur í hendur Guðs og leyfum orði hans að hafa áhrif til góðs.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2073.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar