Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gísli Gunnarsson

Eldurinn í Hvanndölum

“Sú þjóð, sem í myrkri gengur, sér mikið ljós. Yfir þá sem búa í landi náttmyrkranna skín ljós.”

Með þessum orðum hefst 9. kaflinn í spádóms-bók Jesaja, sem segir til um fæðingu frelsarans og síðar í kaflanum segir: “Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla. Hann skal nefndur: Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.”

Þennan texta syngjum við í jólamessunum við tónlag sem er eftir sr. Bjarna Þorsteinsson og er þá yfirleitt talað um hátíðasöngvana.

Sr. Bjarni Þorsteinsson var prestur á Siglufirði og var einn af máttarstólpum samfélagsins þar. Hann er stundum kallaður faðir Siglufjarðar því hann teiknaði bæinn upp og skipulagði. Hann er einnig kunnugur fyrir þjóðlagarannsóknir sínar og gaf út bókina Íslensk þjóðlög sem er merk heimild um þjóðlagaarf okkar Íslendinga.

Um tíma (1888-1891) sinnti sr. Bjarni auka-þjónustu í Kvíabekkjarprestakalli í Ólafsfirði og þurfti þá að ganga um hættulegar fjallaslóðir á milli fjarða og byggðarlaga, og gátu þær ferðir verið viðsjárverðar, einkum á veturna.

Fylgdarmaður Bjarna í þessum ferðum var maður að nafni Erlendur Stefánssons sem bjó að Ámá í Héðinsfirði.

Erlendur var dugnaðarmaður þrátt fyrir að hann væri fatlaður frá þriggja ára aldri. Hann tyllti aldrei niður í annan fótinn nema með táberginu.

Samt var hann göngugarpur og sr. Bjarni sagði að sá sem hefði Erlend með til fylgdar þyrfti ekki að kvíða því að liggja úti.

Dóttir Erlends hét Helga. Hún var fædd og uppalin í Héðinsfirði og bjó þar í tæp fimmtíu ár, en fluttist þaðan til Siglufjarðar.

Í viðtali sem birtist upphaflega í dagblaðinu Vísi árið 1963 sagði hún frá ævi sinni og uppruna.

Afi hennar og amma bjuggu í Hvanndölum, sem var afar afskekktur bær, en Hvanndalir eru örlítil hvos eða dalskvompa norðaustan í þverhníptum hamra-björgum milli Ólafsfjarðar og Héðinsfjarðar.

Aðalleiðin á landi þaðan til Héðinsfjarðar var eftir Hvanndalsskriðum sem er hættuleg leið og erfið.

Síðan segir Helga: “Næstsíðasta vorið sem afi og amma bjuggu í Hvanndölum fór afi á hákarlaveiðar eins og þá var venja, en amma var ein heima með barnahópinn.

Yngst barnanna var Guðlaug, móðir mín, sem þá var aðeins 9 mánaða gömul. Eina nóttina þetta vor slokknaði eldurinn á Hvanndalaheimilinu. Engin ráð voru að kveikja eld nema sækja hann til næsta bæjar. Engin matbjörg til nema hrár matur.

Ómögulegt að segja hvenær Einar bóndi kæmi heim úr veiðiferðinni. Líf barnanna lá við að náð væri í eld og það hið skjótasta.

En hver átti að sækja eldinn? Börnin öll kornung og enginn fullorðinn á heimilinu nema húsfreyja. Hún átti ekki um neitt að velja – hún varð að fara sjálf hvað sem tautaði. Eina leiðin sem til greina kom voru Hvanndalaskriðurnar undir hrikaháu hengiflugi og um lífshættulega forvaða að fara.

Þá tók hún yngsta barnið – móður mína – og bar það í pilsi til Héðinsfjarðar. Hin börnin skildi hún eftir. Um annað var ekki að ræða.

Tvívegis varð hún að vaða fyrir forvaða og sjórinn náði henni í brjóst. Þá batt hún pilsið um háls sér til að það blotnaði ekki. Og heilu og höldnu komst hún til Víkur í Héðinsfirði.

Þar fekk hún eld og Björn, bóndinn þar flutti ömmu og eldinn á báti til Hvanndala og lífi allra var borgið. Vorið næsta á eftir fluttu afi og amma að Ámá í Héðinsfirði og þar bjuggu þau í mörg ár.”

Saga Helgu Erlendsdóttur og hennar fólks er saga þeirra kynslóða sem byggt hafa Ísland í blíðu og stríðu, saga um sigra fólks og ósigra. Hvernig fólk hjálpaðist að í lífsbaráttunni og studdi hvert annað. Hvernig mæður björguðu börnum sínum.

-Forledrar mínir voru lengi svo fátæk að þau höfðu ekki efni á að setja trégólf í baðstofuna fyrr en löngu seinna, sagði Helga einnig, en samt komu allir sem áttu leið um Hólsskarð við að Ámá, öllum var veittur beini eftir því sem föng voru á og margir gistu.-

Fátækt fólk á ferð sem þurfti á gistingu að halda. Það er ekki bara jólaguðspjallið sem segir frá þannig ferðalöngum. Segir frá fólki sem er hjálpar-þurfi og hversu gott það er einmitt þá að finna hjálpsemi og vinsemd og kærleika.

Fá húsaskjól, fá að nærast og hvílast.

Lífið fór ekki mjúkum höndum um Helga Erlendsdóttur sem hér hefur verið vitnað til. Hún var ung þegar hún giftist Páli Þorsteinssyni og þau hófu búskap á Ytri-Vík í Héðinsfirði. Þremur árum síðar fórst Páll í snjóflóði þegar hann var á heimleið úr beitarhúsunum. Það var árið 1919 og Helga orðin ekkja 22 ára að aldri.

Hún var ein heima með dóttur sína á þriðja aldursári og komin að því að ala barn. Þetta voru erfiðar aðstæður sagði hún í viðtalinu.

“Helsta lausnin fannst mér sú að senda eftir Ásgrími bróður mínum inn að Ámá. Við vorum mjög samrýmd og ég vissi að hann myndi koma mér til hjálpar.”

En skömmu síðar fékk hún þær ótrúlegu fréttir að Ásgrímur bróðir hennar hafi einnig farist í snjóflóði daginn áður en hún missti manninn sinn.

Þeir voru jarðsungnir saman Páll og Ásgrímur. Þá var enn ofstopa norðan hríð og þann sama dag ól Helga sveinbarn og var hann látinn heita í höfuðið á þeim báðum, Páll Ásgrímur.

“Var ekki erfitt að ná í yfirsetukonu í þvílíku veðri” var Helga spurð. “Það var ekki nein yfirsetu-kona í Héðinsfirði,” svaraði hún, - “en hjá mér var gömul kona. “Hún hafði tekið á móti börnum áður í neyðartilfellum og farnast vel. Og ef ég stend í þakkarskuld við einhverja manneskju í lífi mínu þá er það hún. Halldóra var góð kona.”

Það er erfitt að setja sig í spor þessara kvenna sem voru þarna innilokaðar út við ysta haf að taka við nýju lífi sem var að koma í þennan heim.

Úti geysaði norðan hríðin og ljóst var að enga hjálp var að fá ef á þyrfti að halda og ef eitthvað færi úrskeiðis. En sem betur fór gekk allt vel.

Enda nóg komið af mótlæti og sorg og neyð. Nú var komið að því að horfa fram til bjartari daga.
Og af hverju eru slíkar sögur rifjaðar upp í nánd jóla? Sögur sem fjalla um baráttu fólks við náttúruöflin og þær aðstæður sem því er búið hverju sinni. Af hverju er ekki bara sagt frá gleði og hamingju?

Það er vegna þess að jólaguðspjallið rúmar allar víddir hins mannlega veruleika. “Yður er í dag frelsari fæddir, sem er Kristur Drottinn.”

Hann er hjá okkur með sérstökum hætti á jólahátíð. Hann er hjá okkur í hamingju okkar, - en einnig í erfiðleikum, hjá þeim sem eru hræddir, einmanna og hjálparvana.

Þess vegna eru svona sögur sagðar á aðventu og jólum. Hann er með í för. Hann er með í þeirri baráttu sem þessar sögur lýsa. Sögur sem segja frá lífi fólks í landinu okkar, fyrri kynslóða sem lifðu af ótrúlegar raunir.

Og sögurnar í dag voru kallaðar fram vegna þess að þær tengjast hátíðasöng jólanna sem við syngjum í jólamessunni.

Vegna þess að bæklaður maður fylgdi höfundi þeirra um hættulega fjallaslóða. Erlendur var tengdasonur Guðrúnar í Hvanndölum sem sótti eldinn, eiginmaður Guðlaugar sem borin var í svuntunni og faðir Helgu sem missti manninn sinn og bróður í snjóflóðunum í Héðinsfirði.

Og þegar við hlýðum á og syngjum hátíðasöngvana, dýrðarsönginn og heilagur, þá er gott að hafa í huga hvaðan hann er sprottinn.

Annars vegar frá þeim heimi sem höfundurinn þekkti hér á jörðu með öllum þeim margbreytileika sem sá heimur á og rúmar.

Hins vegar frá þeim himneska boðskap sem við heyrum á helgri jólahátíð, um frelsarann sem fæddur er og dýrðarsöng englanna.

Saman skapa þessar víddir heim hins kristna manns, veröld sem rúmar trú, von og kærleika. Það er sá heimur sem jólin skapa og byggja upp.

Því að sá sem í jötunni lá á jólanóttu, fylgir okkur. Fylgir mannkyni í blíðu og stríðu.

“Í myrkrum ljómar lífsins sól.”

(Ræða flutt í Skt. Páls kirkju Kaupmannahöfn 1. sunnudag í aðventu 2014)

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1626.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar