Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Arna Ýrr Sigurðardóttir

Örugg borg - Engar afsakanir!

Finnst þér þú vera örugg? Alls staðar? Alltaf? Eða kemur það fyrir þegar þú ert ein á ferð, t.d. á kvöldin, að þér finnist þú ekki geta verið viss um öryggi þitt? Ég held að flestar konur á Íslandi geti nokkurn veginn fullyrt að þær upplifa sig ekki óöruggar þótt þær séu einar á ferð um hábjartan dag. Við þurfum ekki að búa við það að það sé kallað á eftir okkur, hrópað, flautað, og jafnvel komið við okkur á óviðeigandi hátt úti á götu. Við þurfum ekki að óttast það að ef við erum einar í strætó, að við séum kynferðislega áreittar. Og við getum flestar treyst því að í vinnunni okkar fáum við að vera í friði, ég held að rassaklip við ljósritunarvélina sé ekki lengur áberandi vandamál.
En ég sagði flestar. Ennþá eru til hópar kvenna, t.d. ákveðnar starfsstéttir, sem þurfa að búa við grófa kynferðislega áreitni í vinnunni. Flugfreyjur, þjónar og konur í veitingageiranum, jafnvel konur í heilbrigðisstörfum, mega enn eiga von á því að vera áreittar og jafnvel beittar ofbeldi við störf sín. Og í ákveðnum aðstæðum er líkast því að það hafi verið gefið veiðileyfi á konur. T.d. í skemmtanalífinu. Að ganga ein niður Laugaveginn að nóttu til um helgi er ekki það sama og að ganga ein niður Laugaveginn á þriðjudagseftirmiðdegi.
Og ennþá er stór hópur kvenna og barna sem ekki geta sagst búa við öryggi á sínu eigin heimili. Sem á að vera sjálft vígi öryggisins. Heimilið á að vera hverri einustu manneskju sá staður þar sem hún upplifir öryggi og frið. En því miður er grófasta ofbeldið oft falið á bak við friðsæla ásýnd hamingjusams fjölskyldulífs.
Og jafnvel í kirkjunni, sem á að vera höfuðvígi friðar, kærleika og …. öruggur staður að vera á… hefur það brugðist að konur geti upplifað sig öruggar. Jafnvel þar hafa ofbeldismenn stundum náð að hreiðra um sig og misnota aðstöðu sína.

Finnst þér þú vera örugg? Alls staðar? Alltaf? Ef þér finnst það ekki, mundu þá að þú ert ekki ein. Það eru margar konur í sömu stöðu og þú. Og saman getum við breytt ýmsu. Gert heiminn okkar öruggari fyrir bæði konur og börn. Og karla líka. Því að þeir upplifa líka mikið óöryggi, oft í sömu aðstæðum og við konurnar. Bara á annan hátt.
Nú eru í gangi tvö átaksverkefni gegn kynbundnu ofbeldi. Þjóðkirkjan er aðili að verkefninu NoXcuses sem er sextán daga átaksverkefni á vegum Lútherska heimssambandsins, Heimsráðs kirkna og Heimsráðs KFUK. Og Reykjavíkurborg tekur þátt í verkefni UN Women, Örugg borg, sem miðar að því að gera Reykjavíkurborg öruggari fyrir konur. Þar er að finna ýmsar upplýsingar um hvað við getum lagt af mörkum til að gera borgina okkar og landið okkar að öruggari stað. Við þurfum öll að hjálpast að.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1932.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar