Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Svavar A. Jónsson

Klækir ómyndugra leiðtoga

Um klukkan ellefu að kvöldi 20. febrúar árið 2010 sáu lögreglumenn í borginni Hannover í Þýskalandi bíl ekið yfir gatnamót á rauðu ljósi. Þeir brugðust snart við og stöðvuðu bílinn. Anganin sem lék um nasir laganna varða þegar bílstjórinn renndi niður rúðu vakti grun þeirra um að neysla áfengra drykkja gæti hafa átt sinn þátt í umferðarlagabrotinu. Nánari athugun þeirra leiddi í ljós að þær grunsemdir áttu við rök að styðjast.

Nú eru svona uppákomur því miður alltof algengar og þarf ekki stórborgir til en þetta tiltekna atvik rataði án umsvifa í þýska fjölmiðla og vakti þjóðarathygli. Bílstjórinn drukkni reyndist nefnilega vera Margot Kaessmann, lútherskur biskup. Ekki stóð á vandlætingum og heldur ekki á stuðningsyfirlýsingum, m. a. frá æðstu yfirstjórn kirkjunnar, sem hét því að styðja Margot ákvæði hún að sitja áfram í embætti.

Aðrir, þeirra á meðal þeir sem áttu erfitt með að sætta sig við konu sem biskup, sáu í stöðunni möguleika á að þeirri byrði yrði af þeim létt.

Margot Kaessmann var ekki lengi að ákveða sig og þann 23. febrúar sagði hún af sér, bæði sem biskup og formaður kirkjuráðs. Ástæðuna fyrir afsögninni sagði hún þá að þetta lögbrot hennar hefði skaðað hana sem leiðtoga og vegna þess gæti hún ekki gegnt trúnaðastörfum sínum af myndugleika.

Ákvörðun Kaessmann var umdeild. Ég sá viðtal við hana á þýskri sjónvarpsstöð. Þar sagði hún að þetta hefði verið mikið áfall og fall úr mannvirðingarstiganum, bæði hinn hættulegi ölvunarakstur og afsögnin í kjölfar hans.

Kaessmann kvaðst á hinn bóginn trúa því að ekki væri hægt að detta lengra en niður í faðm Guðs.

Nú kennir Kaessmann við háskóla, bæði í heimalandi sínu og í Bandaríkjunum. Árið 2012 var hún valin sérstakur sendiherra kirkjunnar vegna siðbótarafmælisins 2017.

Uppi á Íslandi er ekki venja að fólk í ábyrgðarstöðum segi af sér. Þar eins og í útlöndum er stunduð klækjapólitík. Ráðherrar hafa í kringum sig hirð spunameistara sem hafa það hlutverk að afvegaleiða umræðuna, slá ryki í augu fólks og blekkja það, oft með aðstoð og fulltingi þeirra fjölmiðla sem eiga um leið að afhjúpa þetta samsæri stjórnmála- og embættismanna gegn almenningi.

Eitt af því sem okkur hefur mistekist í uppgjörinu við bankahrunið er að bæta stjórnmálamenninguna. Þegar þjóðin varð fyrir þessu eina mesta áfalli og höggi sem hún hefur orðið fyrir þurfti hún umfram allt trúverðuga leiðtoga sem sögðu henni sannleikann - líka þótt hann væri óþægilegur og ekki það sem fólk vildi helst heyra - nutu trausts til að grípa til óþægilegra en nauðsynlegra aðgerða og höfðu lag á að tala við fólk og þjappa þjóðinni saman.

Þegar vanhæfir leiðtogar bregða á það ráð að fá sér spunameistara eru það sömu úrræðin og þegar bjarga átti vonlausum íslenskum bönkum á sínum tíma með því að beita blekkingum og tala þá upp.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1530.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar