Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Hildur Björk Hörpudóttur og Jóhanna Gísladóttir

Hvað er vinur?

Í fermingarfræðslu verður til samfélag. Börn í fermingarfræðslu fatlaðra eru átta núna í vetur. Þau koma saman einn laugardagsmorgun í mánuði og eiga saman notalega stund. Allir leggja eitthvað á borðið og foreldrar og systkini fermingarbarnanna koma með og taka þátt. Þau hlæja, syngja og njóta þess að eyða tíma með fólkinu sínu og prestinum.

Umræðan snýst gjarnan um eitthvert þema, það sem fermingarbörnin hafa unnið með þá vikuna í fræðslunni sinni og í fermingarfræðslu er talað um allt. Allt hversdagslegt. Allt sem er yfirnáttúrulegt. Og allt mannlegt. Í þetta sinn var viðfangsefnið vináttan. „Hvað er vinur? Hvernig hegðum við okkur gagnvart náunga okkar? Hvernig sýnum við væntumþykju í verki?”

Jú! Við brosum. Við hrósum. Við hjálpumst að. Við horfum í augun hvort á öðru. Við hlæjum saman, hvíslumst á, leikum og lifum. Boðskapurinn í Nýja testamentinu í bæði kærleiksboðorðinu sem og gullnu reglunni getur vel vísað til vináttunnar og gefið vísbendingu um á hverju kærleiksríkt vináttusamband ætti að byggja á..

Vináttan er nefnilega samband sem byggist á frelsi til þess að þroskast og hún er leið til þess að boða og fanga kærleikann sem felst í sköpun Guðs. Hún er raunveruleg ást.

Vináttan er svo merkileg og hún er svo góð því hún er stöðug áminning um von og það góða í lífinu. Og það merkilega er að andstæðan við vin og vináttu er ekki óvinur eða óvild, heldur ókunnugur og það ókunnuga. Því útilokar vináttan ekki það ókunnuga heldur tekur það að sér og snýr því upp í hið gagnstæða.

Allt samtal um kristna trú fléttast saman við okkar eigin lífsreynslu, þekkingu og menningu. Lífsleikni. Guð birtist okkur í öllum kærleik sem við upplifum og framkvæmum sjálf.

Og Guð er bæði vinur og vinkona. Náungakærleikurinn sem Jesús sjálfur sýndi samferðafólki sínu er enn í dag áþreifanlegur.

Í fermingarfræðslu eru allir velkomnir og fræðslan ætíð kennd á forsendum nemandans sjálfs. Komið og verið með í samfélagi, samfélagi vináttu.

Hildur Björk og Jóhanna blogga um fermingarfræðsluna á ferming.is. Fylgstu með þar.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1903.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar