Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Hildur Eir Bolladóttir

Andlát á Facebook

„Gömul“ skólasystir úr menntaskóla sem búsett er í Danmörku og leggur þar stund á nám sem kallast „Digital design and Communication“ hafði samband við mig á dögunum og lagði fyrir mig áhugaverða spurningu sem ég fékk leyfi til að þróa yfir í pistil sem ég hygg að varði okkur öll. Spurningin varðaði m.a. hlutverk samfélagsmiðla eins og Facebook þegar andlát verður. Þá var hún ekki að hugsa um það sem mest hefur verið í umræðunni og varðar ótímabærar andlátstilkynningar heldur það sem á eftir kemur þ.e. sorgarferlið og hvort Facebook sé í raun heppilegur vettvangur til úrvinnslu sorgar. Þessi ágæta skólasystir mín er að skoða fleiri en eitt sjónarhorn sem ég ætla ekki að upplýsa um hér en mig langar hins vegar að skoða fyrirbærið Facebook sem hugsanlegt stuðningsnet í kjölfar andláts. Þá tvinnast saman reynsla mín úr prestskap og reynslan af því að vera aðstandandi og vinur. Í fyrsta lagi vil ég taka fram að andlátstilkynningar á Facebook eru mjög vandmeðfarið mál og mikilvægt að stíga þar varlega til jarðar, það segi ég og skrifa vegna þess að ég veit að það situr mjög fast í syrgjendum ef hin válegu tíðindi hafa ekki farið rétta leið og borist þeim með beinum hætti af vörum ættingja eða fagfólks. Þannig ætti fólk í fyrsta lagi að fullvissa sig um að andlátið sé orðið opinbert áður en það tjáir sig á Facebook og síðan ætti hver og einn líka að spyrja sig hvort tengsl hans við hinn látna og fjölskylduna sé þess eðlis að hann eigi að setja inn status sem fjallar um málið. En þetta er auðvitað kapítuli út af fyrir sig sem ég ætla ekki að fjalla um hér.

Hins vegar gegnir öðru máli um þá samhygð og samstöðu sem getur myndast með ástvinum hins látna á Facebook. Þar held ég að við séum farin að fjalla um veruleika sem er í raun ekki eins vandmeðfarin og hinn og það sem meira er bara býsna gagnlegur.
Vissulega kemur ekkert í stað nærveru á sorgarstundum, hins vegar gæti það orðið pínulítið yfirdrifið að fá alla Facebookvinina heim til sín í húsvitjun. Facebook getur engu að síður orðið mjög þakklát leið til að nálgast syrgjendur og ekki síður fyrir syrgjendur að finna að það er margt fólk með hugann við þá þó ekki sé það allt í beinum daglegum tengslum. Einsemdin er nefnilega einhver þekktasta tilfinning sorgar jafnvel þó viðkomandi sé raunverulega ekki mikið einn, þá er  einsemdin frekar þessi spurning af hverju lífið haldi áfram fyrir utan gluggann og fréttirnar séu á sínum stað? Af hverju fólk haldi áfram að tala um Icesave þegar ástvinur minn er látinn? Þá getur manni einmitt hlýnað mjög við það að skoða kveðjur frá fólki sem hefur í sjálfu sér engar skyldur gagnvart manni en er bara samferðarfólk í þessu lífi. Það getur líka verið mikil huggun fyrir þá sem þekktu hinn látna en ekki fólkið hans/hennar að fá að minnast viðkomandi í hópi vina sem deila minningum og tilfinningum en vegalengdir og aðstæður skilja að. Þá má heldur ekki gleyma að nánasta fjölskylda er oft mjög dugleg að setja inn myndir, tónlist, minningarorð og ljóð sem er alltaf hluti af úrvinnslu sorgar. Þannig myndast ákveðin gagnkvæmi á milli hópsins og nánustu ættingja. En nú gæti einhver spurt „er ekki meiri hætta á að fólk skrifi eitthvað klaufalegt á síðuna sem særir eða jafnvel vanvirðir minningu hins látna?“ Svarið við því er að fólk mun alltaf halda áfram að segja klaufalega hluti á viðkvæmum stundum, það er hluti af því að vera manneskja, það gerðist fyrir tíma Internetsins og það mun halda áfram að gerast á meðan fólk er í einhverskonar tengslum. Það er ekki þar með sagt að við eigum ekkert að læra, því við erum að því og að mörgu leyti erum við þroskaðari í dag en í gær þegar kemur að viðbrögðum við missi og sorg. Það getur vel verið að það sé búið að stofnanavæða dauðann frá því á dögum gamla bændasamfélagsins en hins vegar verður það ekki frá nútímanum tekið að hann kann betur að styðja við börn sín í allri sorgarvinnu og margt sem ekki mátti þá má nú eins og að leyfa börnum að vera þátttakendur og tala beint við þau um dauðann og sorgina og tilfinningarnar fjölskrúðugu sem fylgja. Sú var tíðin að stálpuð börn fengu ekki að fylgja foreldrum sínum til grafar og kveðja eins og aðrir.

En nú vitum við að dauðinn er ekki feimnismál ekki frekar en fæðing barns því hvort tveggja er jú það eins sem er öruggt í þessu lífi. Og kannski það að við vinnum aldrei Júróvisjón.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2736.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar