Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gunnar Kristjánsson

Hver voru áhrif Lúthers á íslenskt samfélag?

Marteinn Lúther

Áhrif siðbótarinnar á íslenskt samfélag eru augljós þegar horft er til einstakra tímabila sögunnar, til séra Hallgríms Péturssonar, Jóns Vídalíns og annarra mótenda íslenskrar menningar. En hvað um nútímann, hvað um líðandi stund? Má greina þar mótandi áhrif Lúthers? Er eitthvað í fari þjóðarinnar, í inntaki samfélagssáttmálans, í mannlegum samskiptum, sem rekja má til ágústínamunksins frá Saxlandi í upphafi sextándi aldar? Við skulum nálgast svörin með því að heyra stutta frásögn.

Fyrir nokkrum misserum var ég á flugvellinum í Frankfurt, ég var á heimferð. Við hlið mér settist ungur maður og tókum við strax tal saman. En varla vorum við búnir að festa sætisólarnar þegar öllum var sagt að fara aftur inn í flugstöðina, einhver bilun hafði komið í ljós. Við sessunautarnir fylgjumst að og fáum okkur kaffisopa. Hann segist vera starfsmaður Evrópusambandsins í Brüssel á leið til ráðstefnu á Íslandi um norðurleiðirnar. Ég segi honum hins vegar að ég sé á heimleið eftir vinnulotu að bók um siðbótarmanninn Martein Lúther. En ljóst var að farg hvíldi á starfsmönnum Evrópusambandsins, skuldir og fjármálaóreiða um alla sunnanverða Evrópu. Það var rætt fram og aftur.

Þá spyr ég hann hvort hann þekki kenningar Max Webers (1864-1920) félagsheimspekings við háskólann í Heidelberg sem mótaði skoðanir um evrópsk samfélög og setti fram fyrir því sem næst einni öld (Die Prot. Ethik og der Geist des Kapitalismus, 1905). Hann heldur það nú og rekur meginkjarnann í kenningum hans því til sönnunar. Kenningar Webers ganga út á að skilgreina muninn á samfélögum sem mótuð eru af siðbót Lúthers og Kalvíns annars vegar en hins vegar af hinni kaþólsku hefð. Sessunautur minn segir að norður-evrópsk samfélög standi á traustum grunni, þar sé allt undir kontról – en Spánn, Ítalía, Grikkland, hinn kaþólski heimur! Hvar ætlar öngþveitið á þeim bæjum að enda, þar stenst ekkert, hver hugsar um sig, enginn virðist ábyrgur fyrir neinu, mafían lifir góðu lífi. Hvernig er hægt að stjórna þessum þjóðum? Munurinn er sem sagt eindreginn og afgerandi, það hljóta þeir að vita sem lesa skýrslur og sitja fundi og ráðstefnur með fulltrúum þjóðanna. Í spjalli okkar skein kaffistofuspjallið í Brüssel í gegn, ég var að tala við heimamann.
Hin eindregna staðfesting sessunautar míns á kenningum Webers kom mér satt að segja á óvart en skemmtilega á óvart: á þeim vettvangi voru menn sem sagt ekki aðeins að finna leiðir til að klekkja á Íslending-um og ná af þeim fiskimiðunum heldur voru menn í hugmyndafræði-legum pælingum. Með öðrum orðum: þarna voru menn að horfa undir yfirborðið, til mótunar samfélaganna, til hinna djúpu róta hins daglega samfélags. Hvað mótar einstaklinga og samfélög eftir allt saman, hvað fylgir kynslóðunum af lífsgildum án þess að mikið beri á?

Áhrif siðbótarinnar, þá hef ég bæði Lúther og Kalvín í huga en áhrif þess síðarnefnda voru hér á landi nánast engin. Hér eru systurhreyfingar sem hafa ávallt átt samleið. Áhrif Kalvíns vestanhafs voru reyndar til umfjöllunar í New York Times í síðustu viku, fyrir þá sem hafa áhuga. Áhrif Kalvíns á enska heiminn voru mjög mikil og þess vegna einnig á ensku nýlendurnar í Norður-Ameríku, á norð-austur hluta Bandaríkjanna þar sem púrítanar settust að og mótuðu samfélagið með afar merkilegum hætti, þeirra mótunar gætir enn í dag.

Hvað var það þá sem siðbót Lúthers lagði áherslu á sem skilaði sér í þessari þróun norrænna þjóða? Svarið við þeirri spurningu er að finna í þeim frægu orðum sem Lúther mælti á ríkisþinginu í Worms í apríl 1521 frammi fyrir keisara, furstum og fulltrúum páfa, þá sagði hann þessi orð sem við könnumst öll við enda ein frægasta klausa úr sögu Evrópu:

Sé ekki unnt að sannfæra mig með vitnisburði Ritninganna eða skynseminnar— og ég treysti hvorki páfa né kirkjuþingum því að augljóst er að þeim hefur iðulega skjátlast og hafa orðið tvísaga – þá er samviska mín bundin af þeim orðum Ritningarinnar sem ég hef tilfært. Þess vegna get ég ekki og ætla ekki að taka neitt aftur, því að það er hvorki ráðlegt né hollt að breyta gegn samvisku sinni.

Það sem starfsmaður Evrópusambandsins var að tala um var mótun hugarfars hvorki meira né minna, að því búa norður evrópskar þjóðir, þar sem siðbótin mótaði mannlíf og menningu um aldir. Lúther hafði kjark til að vísa til samvisku sinnar og sannfæringar, til röklegrar niðurstöðu af eigin hugsunum og standa stöðugur frammi fyrir valdsins mönnum. En vel að merkja: samvisku sem er mótuð af Ritningunni og skynseminni. Þannig stígur hann fram á leiksvið sögunnar.

Lúther höfðar hér með öðrum orðum endanlega og afar skýrt til samvisku sinnar. Í okkar trúarhefð er samviskan þess vegna eins konar lykilhugtak. Svo var ekki áður. Þá fólst trú manna í því að trúa því sem kirkjan trúði. En þeir töldu óþarft að bera málefni trúarinnar og sinnar innstu sannfæringar undir samvisku sína – því að trúin var ekki spurning um samvisku heldur um atferli, um rétt atferli.

Lúther setur samviskuna á dagskrá. Það merkir að við getum ekki skotið okkur á bak við það sem aðrir segja eða það sem aðrir trúa, ekki einu sinni á bak við það sem trúarstofunin trúir, hvað þá á bak við það sem valdhafarnir trúar. Við verðum að standa frammi fyrir okkar eigin samvisku.

Þar sem samviskan skiptir máli í samfélaginu og þar sem uppeldi og mótun einstaklinganna frá blautu barnsbeini miðast við samvisku mannsins, þá verður til samfélag einstaklinga sem taka sjálfa sig alvarlega og einnig aðra.

Siðbótin gaf ekki mikið fyrir siði og venjur kirkjunnar sem trúarstofnunar, hún beindi augum að samvisku mannsins og mótun hennar. Ekki var nóg að vinna verk gegn samvisku sinni og fara síðan til prestsins og skrifta – og fara síðan aftur út í lífið og vinna sömu verk, fara síðan aftur til skrifta eða kaupa sé frið í samviskuna með því að láta fé af hendi rakna, annað hvort til kirkjunnar eða til dýrlinganna. Þannig var samviskan hreinsuð eftir því sem þörf var á. Siðbótarmenn litu svo á að kirkjukerfið eins og það lagði sig væru mannanna verk en ættu ekki heima á vettvangi trúarinnar. Í trúnni stendur maðurinn berkjaldaður frammi fyrir Guði, fyrirgefningin ein hreinsar samvisku hans. Hann getur ekki leyst sig undan ábyrgðinni.

Sumir telja að samfélagið byggist upp af lögum og reglum eingöngu, aðrir að það lúti engu nema duttlungum líðandi stundar. En við þurfum ekki að hugsa okkur lengi um til að sjá í hendi okkar að þannig verður ekkert samfélag til, heldur byggist það á óskrifuðum lífsviðhorfum sem börnin fá með móðurmjólkinni, við köllum það lífsgildi eða grundvallargildi lífsins, eitt lífsgildanna – og kannski það mikilvægasta – er samviskan. Samviska mannsins er þungavigtarhugtak í trúarhefð siðbótarinnar. Hún vísar til einstaklingsins. Annað hugtak af sama meiði vísar hins vegar til samfélagsins. Einnig það hugtak skiptir máli þegar spurt er um áhrif siðbótarinnar. Kirkjan er ekki stofnun að skilningi siðbótarmanna heldur samfélag. Og það samfélag lýtur ekki fyrirskipunum ofanfrá heldur er kennivaldið í samfélaginu sjálfu, það á sér rætur í upplýstum einstaklingum. Trúarmenning siðbótarinnar birtist í sterkri áherslu á samfélag manna, bæði innan kirkju og utan, þar sem vel er fyrir öllum séð, ungum sem öldnum, sjúkum og þurfandi. Hér er annað þungavigtarhugtak siðbótarinnar.

Annar flötur á þessu efni er umboð leikmannsins í þessu nýja samfélagi. Við getum kallað það rökræðuhefð siðbótarinnar. Lúther gagnrýndi tilhneigingu páfakirkjunnar á sínum tíma fyrir að senda skilaboð efst af pýramídanum niður til fjöldans um að svona ætti að trúa og svona ætti að skilja Biblíuna, svona ættu prestar að prédika og svona ættu leikmenn að bera sig að í kirkjunni. Allt slíkt lögboð kirkjulegra og guðfræðilegra yfirvalda féll í grýtta jörð meðal siðbótarmanna. Í staðinn áttu leikmenn að lesa Biblíuna á móðurmáli sínu ekki síður en prestarnir, mynda sér skoðun og læra að trúa.

Sannleikurinn liggur ekki ljós fyrir, hann kemur ekki frá kirkjulegum yfirvöldum og Lúther hikaði ekki við að halda því fram að „kirkjuþingum hefði oft skjátlast“, það þótti jaðra við guðlast. Sannleikurinn verður til í rökræðunni. Trúin tekur breytingum, skilningurinn breytist, túlkunin breytist og trúarmenningin öll breytist hægt og sígandi. Rökræðan má aldrei þagna, hún er lífæð þeirrar kirkju sem er grasrótarsamfélag í sínu innsta eðli.

Tvennt til viðbótar einkennir upphafssögu siðbótarmannsins, annað er frelsið sem einkennir ágústínamunkinn frammi fyrir keisaranum og hitt er réttlætið sem gaf honum kraftinn til að standa á sínu. Án þessara tveggja hugtaka er siðbótin óskiljanleg hreyfing.

Í ritinu Um frelsi kristins manns sem hann sendi Leó páfa X. glóðvolgt úr prentsmiðju í nóvember 1520 fjallar hann um frelsið sem eitt grundvallarhugtak trúarinnar.

Hvað réttlætishugtakið varðar hefur það alla tíð verið hátt skrifað í lútherskri trúarmenningu, m.a. vegna þess að guðfræði siðbótartímans hefur tilhneigingu til að leita í farveg lögfræðilegra hugtaka. En réttlætið er samt ekki lögfræðilegs eðlis þegar betur er að gáð. Það er öllu heldur ástand í samfélaginu þar sem réttur hins smæsta er ekki fyrir borð borinn heldur varinn. Þar sem réttur umkomulausra er varinn er samfélagið á réttri leið og þar þrífst mannúð, menntun og menning, þrenning sem fylgir siðbótinni frá upphafi. Jón Vídalín kom oft inn á málefni þjóðfélagslegs réttlætis í húslestrum sínum. Í textum hans er réttlætið grundvallarþema kristins samfélags. Þeir sem nóg eiga og vel það bera hér þyngri ábyrgð en aðrir að hans dómi. Mesta ábyrgð bera stjórnmálamenn og embættismenn, sem treyst er fyrir því að allir sitji við sama borð í réttlátu samfélagi og réttlætis sé gætt í hvívetna.

Eitt brýnasta verkefni siðbótarmanna var að endurskipuleggja stofnanir samfélagsins þegar klaustranna naut ekki lengur við. Ábyrgð þeirra á menntun, menningu og almennt á málefnum þjóðfélagsins verður snemma þungavigtarefni. Þeir hvöttu veraldleg yfirvöld til að stofna og reka skóla, þeir sinntu sjálfir félagsmálaþjónustu fyrir fátæka, sjúka og aldraða, og settu á fót stofnanir í þeim tilgangi. Reyndar mætti líta svo á að áhrif trúarinnar hafi runnið inn í þjóðarsálina og verið þar mótandi í uppbyggingu þjóðfélagslegra stofnana, einkum á sviði menntunar, heilbrigðisþjónustu og félagslegrar þjónustu. Margir hafa litið svo á að þar sé grunninn að hinu norræna velferðarsamfélagi að finna.

Annað sjónarhorn er þarna einnig áhugavert, það er skipulagshugsun siðbótarmanna. Hún beinist ekki að hinni risastóru trúarstofnun í líkingu við Vatikanið heldur að litlu sókninni heima í þorpinu. Á siðbótartímanum beindist uppbygging kirkjulífsins að sókninni. Sú þróun snéri við þeirri tilhneigingu sem áberandi var hjá síðfornaldar- og miðaldakirkjunnar. Kirkjusóknin merkir svæðið þar sem fólkið á heima, upphaflega þorpið þar sem það býr og starfar, seinna meir hverfið þar sem það á heima. Andstætt fjölbreytileika miðaldakirkjunnar, með reglu- og pílagrímakirkjum, stiftum, klaustrum, heilögum stöðum og heilögu rými af ýmsum toga, boðaði Lúther þegar árið 1520 að einn staður stæði til boða þegar stefnumót við hjálpræðið í orði og sakramentum væri annars vegar, það væri svæðið þar sem fólkið byggi, þar væri sóknarkirkjan. Í skipulagssögulegu tilliti hafði þung og eindregin áhersla siðbótartímans á sóknarkirkjuna tímamótagildi. Játningin til sóknarkirkjunnar var í samræmi við tiltölulega einfalt kirkjustjórnarkerfi mótmælenda og hefur mótað kirkjusögu mótmælenda að verulegu leyti.

Áhrif siðbótarinnar verða seint rakin eða metin, þau eru samofin vestrænni menningu og hafa borist með henni um víða veröld. Þar eru margir milliliðir frá Lúther, sterkar kristnar hreyfingar fylltar eldmóði siðbótarmannsins hafa þar gegnt lykilhlutverki. Ofarlega í því sambandi eru hreyfingar píetismans (heitttrúarstefnunnar) sem lögðu áherslu á áhrif trúarinnar á kristið samfélag. Þeirra saga var mótandi fyrir norður-evrópsk samfélög allt frá lokum sautjándu aldar og fram á þá nítjándu, þar með á íslenskt samfélag.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2282.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar