Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Farvegur friðar

Farvegur friðar

Um þessa helgi, falla saman þrjár mikilvægar hátíðir í þremur trúarhefðum sem allar kenna sig við Abraham. Gyðingar halda upp á Yom Kippur (friðþægingarhátíðina), múslimar halda upp á Eid ul Adha (fórn Abrahams) og kristnar kirkjur minnast heilags Frans frá Assissi - sem vinsælasti páfi allra tíma kennir sig við!

Allar vísa þessar hátíðir í friðinn sem Guð gefur og okkur er falið að vinna að meðal systra okkar og bræðra.

Yom Kippur er heilagasti dagur ársins í gyðingtrú, svona eins og jólin hjá kristnum mönnum. Jafnvel gyðingar sem telja sig ekki trúaða, halda upp á daginn. Þemu hans eru iðrun og friðþæging. Hefðbundinn leið til að minnast Yom kippur er heill dagur af föstu og bænahaldi þar sem samfélagið játar syndir sínar og biður Guð um fyrirgefningu til að geta þjónað honum betur.

Eid ul Adha er af múslimum haldin til að minnast fórnarinnar sem Guð leggur fyrir Abraham, og gefur honum hrút til að fórna í stað fyrir son sinn, sem við þekkjum sem Ísak úr Biblíunni en Kóraninn nefnir Ishmael. Á hátíðinni er borinn fram hrútur en til að geta notið hans þarftu fyrst að sættast við bræður þína og systur. Þema hátíðarinnar er þakklæti fyrir gjafir Guðs.

Heilagur Frans frá Assisi á merkilega sögu, hann ólst upp við mikinn auð og mikil forréttindi en gaf það upp til að geta þjónað Guði óskiptur og boðað kærleika hans til allra manna og allrar sköpunarinnar. Frans hittir í mark í dag, þegar við erum farin að hugsa um sköpunina meira sem eina heild og hvernig við erum öll tengd afkomu hvers annars, bæði manneskjur og restin af náttúrunni.

Rauði þráðurinn í þessum hátíðum er friður. Yom kippur minnir á að friðurinn er frá Guði. Eid ul Adha minnir á að vera þakklát fyrir friðinn og gjafir Guðs. Frans frá Assisi minnir á að friðurinn á að ganga frá okkur og til náunga okkar. Þannig tökum við höndum saman við trúsystkin okkar og bræður og systur í Islam og gyðingdóm og verðum verkfæri friðar Guðs.

Við skulum því sameinast í bæn fyrir almenningi í borgarastyrjöldunum í Sýrlandi og Írak, og minnast þeirra sem líða fyrir trú sína, hvort sem þau eru kristin, múslimar eða annarrar trúar.

Drottinn, lát mig vera verkfæri friðar þíns.

Hjálpa mér til að leiða inn kærleika,
þar sem hatur ríkir,

trú, þar sem efinn ræður,

von, þar sem örvæntingin drottnar

.
Hjálpa mér að fyrirgefa, þar sem rangsleitni er höfð í frammi,

að skapa eindrægni þar sem sundrung ríkir

að dreifa ljósi þar sem myrkur grúfir

og flytja fögnuð þar sem sorgin býr.


Meistari, hjálpa mér að kappkosta ekki

svo mjög að vera huggaður sem að hugga,

ekki svo mjög að vera skilinn sem að skilja,

ekki svo mjög að vera elskaður sem að elska.


Því að það er með því að gefa að vér þiggjum

með því að fyrirgefa að oss verður fyrirgefið
með því að týna lífi voru að vér vinnum það.

Það er með því að deyja að vér upprísum til eilífs lífs
Amen.

(Bæn hl. Frans fra Assisi, þýðing sr. Sigurjóns Guðjónssonar)

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1597.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar