Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Bjarni Karlsson

Hvernig á að verja trúna?

Mig langar að setja fram nokkrar hugsanir hér á þessum vettvangi í framhaldi viðbrögðum sem ég hef fengið frá ýmsu trúuðu fólki í tilefni af grein minni „Trúin á hagsmunina” sem birtist í Fréttablaðinu fimmtudaginn 11. sept sl. og fjallar um bænir og guðsorð í ríkisútvarpinu. Í greininni lagði ég áherslu á að við sem trúum á Jesú Krist getum ekki skilgreint okkur eða látið skilgreina okkur sem hagsmunahóp. Ég fullyrti að kristnin í veröldinni hljóti að halda almannahag á lofti en geti ekki tekið þátt í hagsmunahópavæðingu tíðarandans sem hugar ekki að réttlæti og rökum en leggur áherslu á málafylgju. Í stað þess að krefjast bænahalds og guðsorðalesturs á Rúv sem hagsmunahópur eða sem neytendur legg ég til að rök okkar séu á forsendum almannahags. Ekki sem krafa, heldur sem ósk eða þrá.

Ýmsir hafa gagnrýnt þessa afstöðu og þykir þetta vera afsláttur af sjálfsögðum réttindum kristins fólks til þess að tjá sig á hinu opinbera sviði og að nóg sé komið af undanslætti og málamiðlunum við öfl sem virði kristna menningu einskis.

Flest á sömu blaðsíðu

Sannleikurinn er sá að ég deili áhyggjum margra sem gagnrýna skrif mín með neikvæðum formerkjum. Ég hef þungar áhyggjur af þeirri þróun sem orðið hefur í landi okkar hvernig kristnum sið er ýtt til hliðar með margvíslegum hætti. Það sem áður var sjálfsagt er nú tortryggt, bænir og Biblíusögur sem aldrei hafa þótt vafasamt fóður eru settar undir afstætt ljós og það dregið í efa að kristin trúariðkun sé af hinu góða, einkum ef börn eiga í hlut. Og þetta gerist á sama tíma og börn eru útsettari en nokkru sinni fyrir neikvæðum skilaboðum og áróðri í gegnum margvíslega miðla. Það hefur verið blessun fyrir þjóð okkar að vera kristin, eiga krossinn í fánanum, sálm fyrir þjóðsöng og almenna sátt um það að gera ekki trú og trúmál að pólitísku deiluefni.

Þessi staða er hins vegar breytt. Þar kemur til sú staðreynd að samfélagið er orðið flóknara í gerð sinni og margbreytileiki trúarbragða og menningar meiri. Þó álít ég, og það er ástæða skrifa minna, að megin vandinn liggi í þeirri höfnun á gildismati og lífsskoðunum sem orðin er í menningu okkar um leið og hafin hefur verið til vegs hugmyndin um sérhagsmuni einstaklinga og hópa. Í stað þess að ræðast við eru iðkaðar kappræður, í stað samtals sem byggir á rökum og leiðir til aukins skilnings eru flest málefni skilgreind í ljósi sérhagsmuna í stað þess að hyggja að almennu réttlæti. Þetta á ekki bara við Ísland heldur er þetta einkenni á allri okkar vestrænu menningu og það veldur því að þau sem ekki eiga sér sterka málsvara fara halloka, ójöfnuður vex ár frá ári og tilfinning almennings fyrir því að vera bara peð í tafli framandi afla er orðin þrúgandi. Við upplifum okkur flest sett út á jaðar með einum eða öðrum hætti.

Átökin um guðsorð og bænamál hjá Rúv eru hluti af þessari þróun. Þess vegna er okkur líka brugðið þótt okkur sem þekkjum ritninguna ætti ekkert að bregða þegar við sjáum lögleysi magnast og kærleika alls þorra manna kólna’. Við erum ekki bara að tala um ríkisútvarpið heldur er okkur brugðið vegna þess að við sjáum enn eitt vígi kristninnar riða til falls. Enn eitt tapið sem hófst e.t.v. í okkar huga með því þegar Gídeonmönnum var úthýst úr skólum og skorður settar við farsælu samstarfi kirkju og skóla. Og jafn vel þótt hér hafi verið bakkað með stærstu breytingarnar þá finnum við sem trúum og þekkjum blessunaráhrif bænarinnar og ritningarinnar verulega fyrir þessu. Ekki bara þau sem reglulega hlusta á morgun- og kvöldbænir heldur líka við hin sem annað slagið dettum inn til að vera með en þykir mikils virði fyrir almannahag að bænir og guðsorð ómi taktfast í útvarpinu.

Ég held í sannleika að við séum öll á sömu blaðsíðu hvað þetta varðar. Það sem við erum ekki sammála um er hvernig best sé að bregðast við.

Göngulag Jesú

Hvernig á kristin kirkja að bregðast við? Hvernig á að verja trúna?

Auðveldast og um leið áhrifaríkast til skamms tíma væri að við sem erum kristin skilgreindum okkur sem hagsmunahóp við hlið annarra hagsmunahópa í samfélaginu og berðumst að hætti heimsins. Það er í rauninn mjög einfalt að gera það vegna þess að hér er svo mikil reiði kraumandi undir. Við skynjum það öll. Einmitt núna þegar við finnum að kólfurinn sem slegið hefur kristnina og skaðað er að byrja að sveiflast í hina áttina og venjulegir Íslendingar eru hættir að nenna þessari sífelldu tortryggni í garð kirkju og kristni í anda hins pólitíska réttrúnaðar þá væri freistandi að reka flóttann og endurvinna landið með svolitlu taktísku áhlaupi þar sem við skiluðum til baka öllum svívirðingunum, andúðinni og reiðinni sem við erum sannarlega búin að þurfa að þola fyrir það eitt að tilheyra kristinni kirkju umliðin ár. Einmitt núna þegar svo margir eru argir yfir síðasta lagi fyrir fréttir væri lag að sameinast í réttlátri reiði, vera loksins „main stream”. Hversu hvílandi væri það eftir allt saman? Gallinn er bara sá að reiði manns ávinnur ekki það sem rétt er fyrir Guði, eins og postulinn segir. Ljóðurinn á þessu ráði væri sá að Jesús hefur ekki þetta göngulag í veröldinni.

Það er alveg rétt sem bent er á að það er almannahagur að bænir og Guðsorð fái rými í útvarpinu, það vitum við sem trúum þótt ekki skorti andúðarraddir sem segi hið gagnstæða. En jafn vel þótt við vitum að svo sé þá getum við ekki krafist þess í Jesú nafni. „Sælir eru þeir sem hungrar og þyrstir eftir réttlætinu” mælti frelsarinn í fjallræðunni. Heimurinn á að sjá að okkur hungri og þyrsti. Hann á ekki að sjá okkur þvinga fram réttlætið því réttlæti sem þvingað hefur verið fram er annarar gerðar en réttlæti Guðs.

Í sömu ræðu útskýrði Jesús fyrir vinum sínum hlutverk þeirra og líkti þeim við saltið sem verndar frá skemmd og við ljósið sem lýsir öllum í húsinu. (Matt. 5) Ljósið á stjakanum er ekki ljóskastari heldur ratljós, það bendir ekki í eina átt heldur skapar aðstæður svo að fólk geti ratað um húsið af eigin rammleik. Þannig ljós eigum við sem viljum vera lærisveinar Jesú að vera í heiminum.

Heimurinn er fulltíða og kirkjan segir honum ekki fyrir verkum. En þótt kirkja Jesú sé ekki og eigi ekki að vera sterk í sjálfri sér þá hefur hún sterka sjálfmynd. Hún veit að hún er móðir.

Ekki heimska, bara mennska

Hvernig bregst öldruð móðir við þegar börnin hennar hafna henni eða ráðast að henni með ásökunum? Hún getur ákveðið að verja sig, en geri hún það er silfurþráðurinn sem tengir móður og börn slitinn. Sannleikurinn er sá að aldrað foreldri er og getur ekki með réttu verið neitt annað en varnarlaust andspænis börnum sínum. Þannig er kristin kirkja varnarlaus í veröldinni þótt hún viti ofurvel hver hún er. Aldrað foreldri sem grípur til varna fyrir sjálft sig mun í besta falli fá kurteisisheimsóknir en ef það tekur við og hlýðir á, ef það samþykkir reiði barna sinna þegar hún brýst fram, íhugar vonbrigði þeirra, gleðst yfir sigrum þeirra og lætur þau finna að einu hagsmunirnir sem það hefur eru þeirra hagsmunir, þá verður húsið að höll og matborðið að veislu. Slík móðir er kristin kirkja. Hún hefur ekki hagsmuni, er vanmáttug á svo margan máta og veit að börnin þekkja alla hennar galla og gera óspart grín að henni á góðum stundum. En hún kann að elska og skilja og þegar upp er staðið er hún límið í fjölskyldunni.

Fólk er ekki heimskt en það er mennskt. Reiðin sem snúið hefur að kirkju og kristni á þær skýringar sem allir sálgætar þekkja, að við snúum gjarnan reiði okkar að þeim sem við treystum að muni ekki yfirgefa okkur eða refsa okkur. Kristnin í landinu hefur ekki fengið alla þessa andúð frá samfélaginu af því að hún eigi það skilið heldur vegna þess að undir niðri er henni treyst.

Við erum löngu hætt að bera í bætifláka fyrir þau mistök sem kirkjan hefur gert í samfélaginu. Við erum búin að læra að slaka á í þeim efnum. Bregðumst heldur ekki trúnaði þjóðarinnar með því að verja okkur sjálf, trúarsiði okkar og venjur. Leyfum íslenskri þjóð að eiga kirkju sem er vitur og máttug í vanmætti sínum. Þá mun þjóðin vilja koma að borði hennar, heyra sögur hennar, staðnæmast í kyrrðinni í stofu hennar og skynja að við erum öll systur og bræður.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2848.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar