Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Svana Helen Björnsdóttir

Bæn

Nýverið kynntu stjórnendur RÚV þá fyrirætlan sína, sem reyndar hefur nú að hluta verið horfið frá, að fella morgunbænir, morgunandakt og orð kvöldsins úr dagskrá Rásar 1. Ástæðan er sögð vera sú að bænir séu „barn síns tíma“. Ennfremur er tilgangurinn sagður sá að endurheimta fyrri stöðu Rásar 1 hjá RÚV. Látið er að því liggja að svo fáir hlusti á þetta útvarpsefni að ekki taki því lengur að sinna þeim hlustendahópi.

Hverjir skyldu það nú vera sem hlusta á bænir og Guðs orð í útvarpi? Margir gætu haldið að það væri aðeins eldra fólk og einstæðingar, fólk sem glímir við erfiðleika og hefur fá önnur úrræði en að ákalla skapara himins og jarðar. Það er hins vegar ekki svo. Margt fleira fólk á öllum aldri hefur kynnst mætti bænarinnar og notar hana bæði til að leita sér styrks á tímum mótlætis í lífinu, en einnig til að þakka fyrir lífið. Að biðja í einrúmi getur verið gott, að biðja með öðrum þ. á m. eins og gerist í gegnum útvarpið finnst mörgum enn betra.
Bænin er grundvallaratriði í lífi kristins fólks og vert er að hafa í huga að tæp 90% landsmanna tilheyra kristnum söfnuðum. Bænin er einnig mikilvæg fjölmörgum sem kjósa að standa utan trúfélaga, enda ekki hægt að setja samasemmerki milli trúar og aðildar að trúfélagi. Flestir sem komnir eru til vits og ára þekkja það að fólk notar bænina á tímum erfiðleika í lífinu. Bæninni hefur verið líkt við andardrátt trúarinnar og Passíusálmar sr. Hallgrímur Pétursson endurspegla vel, enn þann dag í dag, hve mikilvæg bænin er – og á að vera – fyrir fólk. „Bænin má ekki bresta þig, búin er freisting ýmislig. Þá líf og sál er lúð og þjáð, lykill er hún að Drottins náð,“ orti sr. Hallgrímur.

Í raun er það fámennur hópur fólks sem afneitar kirkju og kristni. Í þeim hópi er fólk sem flaggar fallegum hugtökum eins og mannréttindum, umburðarlyndi og fjölbreytileika. Alltof oft virðist látið sem þetta eigi við alla aðra en kristið fólk og söfnuði. Þegar fréttir bárust um fyrirætlan stjórnenda RÚV höfðu margir samband við mig til að láta í ljós vonbrigði sín og áhyggjur. Elskuleg tengdamóðir mín er þeirra á meðal, 82 ára ekkja, búsett í fjölbýlishúsi í vesturbæ Reykjavíkur án lyftu. Hún er slæm til heilsunnar og kemst aðeins út úr íbúð sinni með aðstoð ættingja. Útvarp og sjónvarp eru helsta dægrastytting hennar. Hún bað mig um að koma þeim skilaboðum til stjórnenda RÚV að ekki mætti koma svona fram við eldra fólk. Fólk sem hvorki kemst í kirkju eða á önnur mannamót. Hennar vinir hlusta margir, eins og hún sjálf, mest á Rás 1, finnur styrk í bænagjörð og hlustun á útvarpsguðsþjónustur – en einnig á léttmeti til dægrastyttingar í sjónvarpi sem einnig mun verða fellt niður.

Nú hefur útvarpsstjóri ákveðið að morgunbæn og –andakt haldi áfram en kvöldbæn verði aflögð. Þetta þykir mörgum slæmt, þeim er kyrra vilja hug sinn fyrir svefninn. Þetta sýnir að enn skortir skilning á viðhorfum margra tryggra hlustenda Rásar 1. Ég hvet útvarpsstjóra til að setja sig í samband við einhverja þeirra tryggu hlustenda Rásar 1 sem eru alveg tilbúnir til að styðja starfsmenn RÚV til allra góðra verka og hafa e.t.v. góðar hugmyndir um nýsköpunarverkefni hjá RÚV – án þess að fórna þeim góðu og mikilvægu útvarpsmínútum sem skipta marga svo miklu máli.

Svana Helen Björnsdóttir, verkfræðingur og hlustandi Rásar 1

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2238.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar