Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Haraldur Hreinsson og Sigurjón Árni Eyjólfsson

Val á presti: Kenningarlegur grundvöllur: 2. hluti

2. Söfnuðurinn og val á presti

Samkvæmt Lúther og játningarritum evangelísk-lútherskrar kirkju er mælikvarðinn við val á presti að fagnaðarerindið sé boðað hreint og sakramentunum veitt rétt þjónusta.[1] Í samhengi hins almenna prestsdóms er kennt að söfnuðurinn velji sér prest eða kalli þann til starfa sem hefur öðlast tilskilin réttindi til þess að sinna þeim. Sé brugðið frá þessum mælikvarða á einhverjum tímapunkti, hvort sem það er hjá kirkjustjórn eða söfnuði ber öðrum hvorum aðilanum að leiðrétta hinn. Í þessu samhengi á biskup t.d. að koma í veg fyrir að sérhagsmunir þröngs hóps innan safnaðarins virði ekki mælikvarðann og á sama hátt getur söfnuður hafnað afskiptum biskups sé hann leiddur af tilfallandi kirkjupólitískum hagsmunum sem gera lítið úr áðurnefndum mælikvarða og rétti safnaðarins.

2.1 Almennur prestsdómur að skilningi Lúthers

Að mati Lúthers veitist öllum kristnum hlutdeild í starfi heilags anda fyrir trúna á Krist. Þeir eru útvalinn lýður Guðs og konunglegt prestasamfélag. Sá sem er skírður getur með stolti sagt að hann sé nú þegar prestur, biskup og páfi.[2] Að þessu leyti hafa allir sömu andlegu stöðuna og enginn einn getur hafið sig yfir annan í nafni sérstaks prestsembættis. Hinir skírðu eru jafnir frammi fyrir Guði og falla kenningar sem gera ráð fyrir slíkri aðgreiningu því um sjálfar sig. Vegna réttlætingar mannsins í Kristi eiga trúaðir milliliðalaust samband við Guð og hlutdeild í prestsembætti Krists. Af því leiðir að ekki er mögulegt að greina á milli almenns prestsdóms og sérstaks prestsdóms.[3] Þar með táknar almennur prestsdómur ekki virðingarstöðu frammi fyrir Guði og mönnum, heldur felst fyrst og fremst í honum skyldan við þjónustu orðsins eða fagnaðarerindisins. Guð stofnaði prestsembættið til þess að fagnaðarerindið yrði boðað í samræmi við köllun hvers og eins, þ.e.a.s. á þeim stað þar sem hver er og starfar. Að mati Lúthers getur hver kristinn maður boðað fagnaðarerindið, skírt, veitt altarissakramenti og beðið fyrir meðbræðrum sínum og systrum.[4] Þessi þjónusta hvílir ekki á mannlegri skipan og stofnunum, heldur á boði Guðs.[5]

Spurningin sem vaknar er þessi: Hvert er þá hlutverk prestsembættisins í söfnuðinum og kirkjunni? Í þessu samhengi leiðir Lúther nauðsyn sérstaks prestsembættis af almennum prestsdómi. Þegar hinn almenni prestsdómur er bundinn við visst embætti (eða starfstétt) er um að ræða sérhæfingu innan hins almenna prestsdóms.[6] Hlutverk embættisins er að boða, veita sakramentisþjónustu og sinna sálgæslu fyrir söfnuðinn. Það gerir presturinn í umboði safnaðarins og fyrir hann.[7]

Söfnuðurinn og kirkjan eru mögnuð samfélagsleg fyrirbrigði sem þrífast ekki án fasts ytra forms og skipulags. Sé það ekki virt er hætt við að þeir frekustu og framsæknustu myndu rífa til sín öll völd og áhrif innan safnaðarins. Slíkur yfirgangur veldur óánægju og réttur hinna hógværu er fótum troðinn. Prestsembættið er því nauðsynlegt vegna skipulags og friðar. Prestinum er falið embætti í samræmi við menntun og hæfni, en ekki vegna meðfæddra og/eða persónulegra eiginleika, hvað þá heilagleika eða réttinda.[8] Þar með hefur presturinn ekki vald yfir söfnuðinum. Hann er kallaður til þjónustu við orð fagnaðarerindisins sem hann og söfnuðurinn lúta. Hlutverk prestsins er útlagning orðsins inn í viðkomandi söfnuð og samtíma.[9] Presturinn er kallaður til að sinna þessari skyldu sinni og á ekki að víkja frá henni, hvort sem það er í boðun, veitingu sakramenta eða sálgæslu.[10]

Þungamiðja prestsembættisins er ekki einstaklingurinn sem gegnir því, presturinn er ekki til fyrir sjálfan sig og gengur ekki fram í eigin krafti og rétti, þ.e. character indelebilis. Hann er til vegna safnaðarins og þjónustu innan kirkjunnar. Mannlegt samfélag krefst sérhæfingar og hlutverkaskiptingar vegna margbreytileika síns og flókinnar félagslegrar samsetningar. Innan samfélagsins er því tilteknum aðilum falin sérhæfð hlutverk. Þess vegna kallar söfnuður prest til starfa. Í krafti menntunar og að vissu leyti starfsþjálfunar sem henni tengist öðlast einstaklingar hæfi til þess að verða kallaðir til starfa. Áherslan er skýr hjá Lúther sem byggir hér á vitnisburði Ritningarinnar eins og fjallað var um hér að framan. Valið er safnaðarins. Kirkjan sem stofnun getur aldrei yfirtekið það þó hún geti og eigi að styðja við og leiðbeina í því vali.

2.2 Söfnuður velur prest

Lúther var sér alltaf meðvitaður um að kirkjan er samfélag trúaðra sem afmarkast ekki við staðarkirkjuna heldur miðar við kirkjuna í heild. Í ritum hans kemur skýrt fram að söfnuðurinn er samfélag trúaðra og það er orð fagnaðarerindisins sem gerir hann að veruleika. Af því leiðir að hann afmarkast ekki af stað eða stund og getur tekið á sig ýmsar myndir. Í riti Lúthers Um rétt safnaðarins til að velja sér prest frá 1523,[11] kemur fram að söfnuðinn á ekki endilega að leggja að jöfnu við sókn þó að á þeim tíma hafi sókn og söfnuður alla jafna fallið saman. Köllunarrétturinn er ekki bara bundinn við staðarsöfnuði, þ.e.a.s. sóknir, sem myndi gera sóknarfyrirkomulagið allsráðandi. Að mati Lúthers ber að skilgreina söfnuðinn sem samfélag trúaðra eða samkomu kristinna einstaklinga um orðið. Slíkur söfnuður hefur leyfi til að kalla prest til starfa til að þjóna prestsembættinu er tryggir útleggingu á orðinu og veitingu á sakramentinu.

Í þessu samhengi er rétt að geta vel þekkts dæmis úr riti Lúthers, Til hins kristna aðals. Gefum siðbótarmanninum orðið:

Setjum svo að dálítill hópur guðhræddra kristinna leikmanna væri fangaður og settur út í eyðimörkina og i  þessum hópi væri enginn, sem hlotið hefði biskupsvígslu. Þessi hópur yrði sammála um að velja einn úr hópnum, hvort sem hann væri giftur eða ekki, til þess að skíra, messa, veita iðrunarsakramenti, predika og stjórna. Þessi maður væri vissulega jafngóður og gagnheill prestur eins þótt allir biskupar og páfar hefðu vígt hann. Þess vegna er það nú svo að þegar í nauðirnar rekur getur hver og einn skírt og veitt aflausn. Það væri ekki hægt ef við værum ekki öll prestar.[12]

Í þessu dæmi kristallast afstaða Lúthers þó hann geri ekki undantekningatilvik sem þessi að almennum reglum. Þó hann gangi út frá víðum safnaðarskilningi leggur hann ríka áherslu á að nýta þá uppbyggingu og þau kerfi sem eru til staðar í samfélaginu og í kirkjunni sem stofnun. Þannig er það hlutverk háskólanna eða guðfræðideilda að mennta einstaklinga og gera þá hæfa til þess að geta svarað köllun safnaðarins til prestsembættis. Það er aftur á móti hlutverk biskups að vígja presta og setja þá inn í embætti og tengja þá kirkjunni sem heild. Þannig mætti segja að köllunarréttur safnaðarins geti vel raungerst í því fyrirkomulagi sem er fyrir hendi með þeim hætti að stofnanirnar og kerfin sem fyrir eru þjóna og styðja við köllunarréttinn án þess að yfirtaka hann.

Þegar ráða á prest í stöðu verður söfnuðurinn eða fulltrúar hans að sameinast um aðila sem á að sinna embættinu og slík eining fæst með vali eða kosningu.[13] Í valferlinu hefur biskup tilsjónarhlutverk, hann getur staðfest valið og tryggt að sá aðili sem valinn er standist þær kröfur sem gerðar eru um boðun fagnaðarerindis og veitingu sakramenta. Tilstjónarhlutverkið birtist táknrænt í því þegar biskup vígir prest til embættis og þegar prestur er settur inn í embætti af biskupi sjálfum eða fulltrúa hans.[14]

2.3 Prestsembættið samkvæmt Ágsborgarjátningunni

Í Ágsborgarjátningunni, sem sker úr um séreinkenni evangelísk-lúthersku kirkjunnar, er þessi skilningur settur fram.[15] Þar er leitast við að sporna gegn tveimur öfgum í umræðu um prestsembættið. Annars vegar þeirri hugsun að binda embættið stigveldi kirkjunnar og skilgreina það í samhengi þess, t.d. með því að leggja áherslu á réttindi og skyldur prestsins sem starfsmanns kirkjunnar sem veraldlegrar stofnunar. Hér er vægi embættisins ekki einungis metið með tilliti til kennivaldsins heldur stöðu innan stigveldisins. Að baki býr kirkjuskilningur þar sem náð Guðs er bundin við kirkjuna sem stofnun frekar en beint við orðið, predikunina og sakramentin. Hér er embættið sett yfir söfnuðinn og er óháð honum.[16] Gegn þessari afstöðu segir danski guðfræðingurinn Leif Grane: „Fullyrðingin um að vígslan veiti einhverjum character indelebilis er einfaldlega tilbúningur. Sá sem ekki þjónar orðinu er eins og hver annar leikmaður. Hér er lögð áhersla á að það að vera prestur er að […] sinna vissu hlutverki.“[17]

Í hinum öfgunum er embættið metið út frá spámannlegri virkni. Þar er karismatískur aðili settur yfir söfnuðinn sem er ekki endilega bundinn af orðinu og sakramentunum. Slík áhersla kom skýrt fram hjá Zwingli og síðar hjá Kalvín.[18] Í kirkjuskilningi þeirra er áberandi að báðir binda hinn kristna söfnuð við hina ósýnilegu kirkju eða samfélag útvaldra. Söfnuðurinn verður þannig bundinn við þá sem Guð hefur útvalið frá upphafi og því ekki skilgreindur sem söfnuður eða samfélag um orð og trú.[19]

Að evangelísk-lútherskum skilningi byggir embættið ekki á stigveldinu eða kennivaldi sem bundið er við það, hvað þá meðfæddum hæfileikum þeirra sem boða. Þessi hugsun kemur mjög skýrt fram í 5. grein Ágsborgarjátningarinnar sem segir:

Til þess að vér öðlumst þessa trú, er stofnað embætti til að kenna fagnaðarerindið og úthluta sakramentunum, því að fyrir orðið og sakramentin eins og tæki er gefinn heilagur andi, sem kemur til leiðar trúnni, þar sem og þegar Guði þóknast, í þeim sem heyra fagnaðarerindið, sem fjallar um að Guð, ekki vegna vorra verðleika, heldur vegna Krists, réttlæti þá sem trúa, að þeir séu teknir til náðar vegna Krists…Þeir fordæma […] þá sem álíta, að heilagur andi veitist mönnum án hins ytra orðs fyrir undirbúning sjálfra þeirra og verk. [20]

Í samhengi þessa hefur söfnuðurinn leyfi til þess að kalla prest til starfa og setja hann af ef hann flytur ekki fagnaðarerindið og veitir sakramentunum ekki rétta þjónustu.[21]

Greinilegt er af framsetningunni hjá Lúther og í Ágsborgarjátningunni að höfðað er til þeirrar einstaklingshyggju og þeirrar fjölbreytni og frelsi í safnaðarstarfi sem sjá má í ritum Páls. Vissulega hefur hver samtíð sína sérstöðu sem þarf að taka tillit til og boðun og þjónusta safnaðarins í sínum víðasta skilningi verður að taka mið af. Þessa sérstöðu verður að virða en hún má aldrei yfirtaka og hvað þá koma í staðinn fyrir hinn algilda mælikvarða boðunar orðsins og þjónustu við sakramenti. Þannig er það áskorun hvers tíma í boðunarstarfi kirkjunnar að greina á milli orþódoxíu (réttrar kenningar og réttrar boðunar) og orþópraxis (réttrar hegðunar og breytni). Af þessu leiðir að viss siðferðileg gildi eða samfélagsleg sýn geta aldrei fengið vægi játningar innan kirkjunnar. Það er trúin á Krist sem endurleysir manninn en ekki breytni hans. Ef sjónarhornið er þrengt og tengt vali á presti, þá er ljóst að oft verður að taka tillit til félagslegra, efnahagslegra og samfélagslegra aðstæðna í söfnuðinum sem og hæfni umsækjenda á ýmsum sviðum, t.d. í stjórnun, leiðtogafærni, tónlist o.s.frv. Slíkt getur aftur á móti aldrei orðið hinn endanlegi mælikvarði eins og margítrekað hefur verið.

Niðurstaða

Þegar rit Nýja testamentisins og þá sérstaklega bréf Páls eru skoðuð með þá spurningu í huga hvernig velja eigi prest, má sjá að Páll og söfnuðurinn lúta sama fagnaðarerindi og standa jafnfætis gagnvart því. Störf bæði Páls og safnaðarins eru þannig undir sama mælikvarða sett. Þó að söfnuðirnir hafi vafalaust leitast við að starfa í anda stofnanda síns og að Páll hafi með bréfaskriftum sínum reynt að halda þeim við þær línur sem hann hafði lagt í upphafi þá var enga miðstýringu eða yfirstjórn að finna í kirkjunni á þessum tíma. Söfnuðirnir réðu sér sjálfir og þurftu að ráða fram úr málum sínum á eigin spýtur. Athyglisvert er að gengið er út frá sjálfræði safnaðanna og myndugleika safnaðarmeðlima. Þessa áherslu er líka að finna hjá Lúther og í játningarritunum þar sem hugmyndin um að bæði söfnuður og leiðtogar lúta sama fagnaðarerindi eða sömu játningu er að sama skapi höfð í heiðri. Á þeim forsendum sóttu báðir aðilar rétt til þess að gagnrýna og leiðbeina varðandi boðun og safnaðaruppbyggingu. Niðurstaðan er skýr, það er söfnuðurinn sem velur sér prest en ekki prestur söfnuð, hvort sem það er í krafti eigin ágætis eða skilgreininga sem kirkjustjórnin hefur sett.

Þegar fjallað er um reglur og reglugerðir varðandi val á presti verður að taka alvarlega að nútímafólk er myndugir, sjálfstæðir borgarar. Það er ekki lengur þegnar sem hægt er að ráðskast með heldur fullgildir meðlimir í samfélagi sem það tekur fullan þátt í að móta. Þess vegna ber að forðast alla forræðishyggju sem gengur framhjá játningabundnu frelsi safnaðarins í klæðum þarfagreiningar, sérfræðinganefnda og hvers kyns hagsmunagæslu. Ef kirkjan virðir ekki myndugleika borgaranna og gerir minna úr þeim en á tímum frumkirkjunnar eða á siðbótartímanum þá talar hún sannarlega ekki inn í nútímann. Í þessu samhengi má ljóst vera að allt tal um „sóknarbörn“ sem gefur til kynna að söfnuðurinn sé skör lægri en prestarnir, ætti að heyra sögunni til.

Stundum heyrist sú rödd, m.a. úr röðum presta, að safnaðarmeðlimir séu óöruggir um hvernig þeir eigi að bera sig að í stjórnun safnaða og jafnvel gagnvart því sem boða á. Hér er sameiginlegt hlutverk hlutverk kirkjunnar, þ.e. presta, guðfræðinga og allra trúaðra að hjálpa safnaðarmeðlimum að orða trúna og efla þá til þess að takast á við þau verkefni sem þeir þurfa að sinna innan safnaðarins. Þetta kemur meira að segja þegar skýrt fram, ekki einungis í 7. grein Ágsborgarjátningarinnar,[22] heldur einnig í ritum Nýja testamentisins. Hið sama á að gilda þegar kemur að vali á presti, þá skulu allir leggjast á eitt í því að styðja söfnuðinn er hann tekst á við það verkefni.

Almennt er litið svo á að almennar prestskosningar séu visst neyðarúrræði þó vel megi færa rök fyrir því að þar komi köllunarvald safnaðarins skýrt fram og lýðræðislegt fyrirkomulag fái að njóta sín. Reynslan hefur þó sýnt að slíkt fyrirkomulag reynist oft umsækjendum erfitt, m.a. fjárhagslega, og geti valdið ósætti innan safnaðarins, eins og á raunar alltaf við um lýðræðislegar kosningar. Í því samhengi er skiljanlegt að hugmyndir um fulltrúalýðræði sem tekur á sig mynd í valnefndum safnaðarins eigi breiðan hljómgrunn. Valnefndarmenn eru fulltrúar safnaðarins. Í dag er það svo að valnefndin mælir með vissum aðila sem biskup skipar.  Betra væri að valnefndin kæmist að bindandi, lýðræðislegri niðurstöðu með kosningu sem biskup staðfestir með vígslu og/eða innsetningu í embætti. Breytingin fælist í því að söfnuðurinn velur sjálfur prest og ber ábyrgð á vali hans á meðan kirkjustjórnin tryggir lýðræðislega umgjörð þessa valds og stuðlar að upplýstri ákvörðun þeirra sem hana taka.

Þannig myndu þær reglur og viðmið sem kirkjan hefur sett valnefndum nýtast vel þegar meta á umsækjendur um tiltekin embætti. Hið sama má segja um ferli á borð við þarfagreiningu sem verður þó alltaf að lúta söfnuðinum á staðnum en ekki miðstýrðu kirkjuvaldi. Til þess að tryggja að hinir frekustu og framsæknustu í söfnuðinum taki ekki til sín öll völd á meðan ferlinu stendur er ofureðlilegt að þær reglur sem kirkjan hefur sett sér og hefur verið að þróa séu notaðar á valnefndarfundum og að þeir séu leiddir af aðilum sem kirkjustjórnin tilnefnir en í dag er það prófastur og lögfræðingur.

Starfsreglur við val á presti og þær viðmiðunarreglur sem liggja til grundvallar eru vissulega til gagns, en þær ættu ekki að vera ákvarðandi eða leiðandi heldur ættu þær að þjóna þeim tilgangi að stuðla að upplýstri ákvörðun valnefndarfólks. Um leið er  nauðsynlegt að tryggja það, sem er afar mikilvægt í ljósi þess hver þróunin hefur verið á umliðnum árum, að kerfið þjóni því hlutverki að styðja við köllun safnaðarins en vinni ekki gegn henni.


[1] Í Einar Sigurbjörnsson, Kirkjan játar (2. útg., Reykjavík 1991), gr. 5, 183, gr. 7, 188-189, gr. 14, 206.
[2] „Því sá, sem tekið hefur skírn, hann getur miklast af því að vera þá þegar vígður til prests, biskups og páfa, jafnvel þótt ekki fari öllum vel að gegna þvílíkum embættum.“ Marteinn Lúther, Til hins kristna aðals (Reykjavík, 2012), 53 [Weimarer Ausgabe (WA) 6, 408].
[3] „Allir kristnir eru prestar […] Embættisskyldurnar eru þær sömu að prédika Guðs orð, skíra, halda kvöldmáltíð, binda og leysa syndir, biðja fyrir, fórna, dæma hverja kenningar og anda […] eins og það er ekki til önnur boðun en þjónusta orðsins, sem allir deila og inniheldur velgerðir Guðs, þá er ekki til annar prestsdómur en sá áðurnefndi andlegur og öllum sameiginlegur.“ WA 12, 180–181.
[4] Marteinn Lúther, De instituendis ministris ecclesiae, WA 12, 182–184. Lúther tekur hér sérstaklega fram að konur geti einmitt vegna almenns prestsdóms tekið að sér þessa þjónustu eins og karlar. WA 12, 182.
[5] Harald Goetz, Allgemeines Priestertum und ordiniertes Amt bei Luther (Marburg, 1997), 192–194.
[6] Isolde Karle, Der Pfarrberuf als Profession (3. útg. Freiburg/Breisgau, 2008), 148. Jan Hermelink, Kirchliche Organisation und das Jenseits des Glaubens  (Gütersloh, 2011), 253, 255–256.
[7] Isolde Karle, Der Pfarrberuf als Profession, 147. Philipp Melanchthon dregur þetta skýrt fram, Philipp Melanchthon Loci communes 1521 – Lateinisch-Deutsch (þýðing Hans Georg Pöhlmann 2. útg., Gütersloh, 1997), 157 [3 191–192].
[8] Isolde Karle, Der Pfarrberuf als Profession, 150.
[9] „Þau sem við köllum presta, eru af okkur valdir þjónar, sem gera allt í okkar nafni. Prestsdómur er ekkert annað en þjónusta […] Af þessu leiðir, að sá sem predikar ekki orðið [..] er alls enginn prestur. […] Embætti prestsins er að predika.“ Marteinn Lúther, De captiva Babylonica ecclesiae praeludium, WA 6, 564–566.
[10] Isolde Karle, Der Pfarrberuf als Profession, 151. WA 11.174; WA 30/3 518. Vígsla af hendi biskups staðfestir í raun ekkert annað en köllun safnaðarins til þeirrar prestsþjónustu sem viðkomandi á að sinna í þessu samhengi almenns prestsdóms. Isolde Karle, Der Pfarrberuf als Profession, 152, nmgr. 67.
[11] Á þýsku hljóðar titillinn svo í fullri lengd: Dass eine christliche Versammlung oder Gemeinde Recht und Macht habe, alle Lehre zu beurteilen und Lehrer zu berufen, ein- und abzusetzen: Grund und Ursache aus der Schrift, WA 11, 408-415.
[12] Bls. 52 WA 6, 407
[13] WA 401-416; WA 12,1-30. Sjá nánar Martin Brecht, Martin Luther. II. Ordnung und Abgrenzung der Reformation (Stuttgart, 1986), 73-78.
[14] Smalkaldengreinarnar, Die Bekenntnisschriften der evangelisch-lutherischen Kirche (8. útg., Göttingen 1979),  457.
[15] Kirkjan játar, gr. 5, 183, gr. 7, 188-189, gr. 14, 206.
[16] Sjá nánar um þetta, Sigurjón Árni Eyjólfsson, „Prestsembættið að evangelísk-lútherskum skilningi“, 152-183, hér 154-156.
[17] Leif Grane, Die Confessio Augustana (Göttingen 1986), 124.
[18] Sama rit, 62-64.
[19] Sama rit, 63.
[20] Kirkjan játar, 183
[21] WA 6, 564.
[22] Hún hljóðar svo: „Ennfremur kenna þeir: ein, heilög kirkja mun ávallt vera til, en kirkjan er söfnuður allra trúaðra, þar sem fagnaðarerindið er kennt hreint og sakramentunum er veitt rétt þjónusta. Til þess að sönn eining ríki í kirkjunni er nóg, að menn séu sammála um kenningu fagnaðarerindisins og um þjónustu sakramentanna. En ekki er nauðsynlegt, að alls staðar séu sömu mannasetningar eða helgisiðir eða kirkjusiðir sem menn hafa sett, eins og Páll postuli segir: Ein trú, ein skírn, einn Guð og faðir allra o.s.frv. (Ef. 4.5-6).“ Kirkjan játar, 188-189.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2800.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar