Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Haraldur Hreinsson og Sigurjón Árni Eyjólfsson og Haraldur Hreinsson

Val á presti: Kenningarlegur grundvöllur: 1. hluti

11. júlí 2014

Inngangur

Óhætt er að segja að alla síðustu öld og það sem af er þessari hafi umræða um hvernig velja eigi prest verið mjög áberandi innan þjóðkirkjunnar.[1] Í grundvallaratriðum virðist tekist á um hvar ákvörðunarvaldið eigi að liggja þegar velja skal prest. Á það að vera hjá kirkjustjórninni eða hjá söfnuðinum? Guðfræðilega séð þá byggir síðari áherslan á evangelísk-lútherskri kirkjuarfleifð á meðan hin fyrri er henni frekar framandi og á meira skylt við fyrirkomulag biskupakirkna. Samkvæmt evangelísk-lútherskum skilningi, eins og rakið verður síðar í þessari grein, er það söfnuðurinn sem kallar prest til starfa, velur hann úr hópi hæfra umsækjenda sem biskup getur síðan sett í embætti. Af því leiðir að það er ekki kirkjustjórnin sem velur söfnuð fyrir prest eða að prestur eigi rétt eða kröfu til þess að þjóna í tilteknum söfnuði.

Prestsembættið hefur lengi vel verið í nánum tengslum við ríkisvaldið og presturinn hefur notið réttinda og þurft að sinna skyldum eins og aðrir opinberir starfsmenn. Eins og gefur að skilja hafa þessi tengsl haft mikil áhrif á hugmyndir presta um hlutverk sitt og verksvið. Þrátt fyrir þann aðskilnað sem átti sér m.a. stað með nýjum lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78 frá 1997 líta margir svo á enn þann dag í dag að prestar séu opinberir starfsmenn sem þarf reyndar ekki að koma á óvart þar sem kirkjan styðst við lög og reglur þar að lútandi. Þrátt fyrir að aðskilnaður hafi átt sér stað verður það þó að teljast eðlilegt að kirkjan styðjist við þær reglur og löggjöf sem til staðar eru í landinu, líkt og tíðkast á Norðurlöndum og í Þýskalandi, varðandi uppbyggingu sína og rekstur, auk þess þegar kemur að því að skilgreina réttindi og skyldur presta. Það gefur því að skilja að tekið sé mið af þeim hefðum og venjum sem gilda við ráðningu opinberra starfsmanna, jafnt þegar menn eru valdir starfa eða hljóta störf á grundvelli lýðræðislegra kosninga.

En þó kirkjan nýti sér þau lög og reglur sem fyrir eru verður ekki framhjá því horft að evangelísk-lútherskur kirkjuskilningur setur fyrirkomulaginu skorður. Þessar skorður eru guðfræðilega undirbyggðar með ritningarrökum og eru m.a. settar fram í játningaritum hinnar evangelísk-lúthersku kirkju. Þar eru ríkisvaldinu dregin skýr mörk sem m.a. hin svokallaða tveggjaríkjakenning fjallar um.[2] Að mörgu leyti er það hlutverk biskupsins að fylgja því eftir að þessi mörk séu virt. Við val á presti er full ástæða til að tryggja að ekki sé gengið á rétt safnaðarins til þess að kalla prest og velja til starfa vegna þess að valferlið er ekki lengur bundið við almennar prestskosningar heldur við fulltrúalýðræði sem tekur á sig mynd í valnefndum.

Spennan á milli áðurnefndra tveggja sjónarmiða gagnvart því hvernig velja eigi prest kom mjög skýrt fram í vor þegar velja átti sóknarprest í Seljasókn í Reykjavík. Mikill meirihluti valnefndar mælti með því að biskup skipaði tiltekinn umsækjanda í embættið. Í ljósi þeirra starfsreglna og viðmiðana, auk jafnréttisákvæðisins, sem kirkjustjórnin ætlast til að stuðst sé við, mátti aftur á móti færa fyrir því skýr rök að aðrir umsækjendur ættu meiri rétt til embættisins. Þarna rákust á vilji safnaðar sem fulltrúar valnefndar endurspegluðu og regluverk kirkjunnar. Biskup þjóðkirkjunnar, Agnes M. Sigurðardóttir, ákvað því að auglýsa embættið við Seljakirkju aftur, sem má túlka á þann veg að hún hafi opnað fyrir þann möguleika að leggja ákvörðunarvaldið í hendur safnaðarins sem kæmi fram í almennum prestskosningum. Þannig má segja að biskup hafi framfylgt hirðishlutverki sínu og varið rétt safnaðarins til þess að velja sér prest með lýðræðislegri, almennri kosningu sem fram fer þann 16. ágúst 2014.

Í samhengi þessarar áralöngu umræðu sem og nýliðinna atburða þykir okkur ástæða til að rifja upp og huga að þeim grunni sem þessi réttur safnaðarins byggir á. Hann er bæði að finna í Biblíunni og er útfærður frekar í ritum Marteins Lúthers og játningarritunum.

  1. Hinir fyrstu kristnu söfnuðir

Í gegnum tíðina hefur því ótal sinnum verið haldið fram að eitthvað sé gert að frumkristinni fyrirmynd. Í umræðu um hin margvíslegustu kirkjumál – allt frá kirkjuskipan niður í messuklæði – er sagt að hlutirnir hafi verið gerðir svona eða hinsegin á tímum Nýja testamentisins og þannig er leitast við að ljá tilteknum málstað vægi. Þetta kallast að beita fyrir sig sögulegum rökum – sem verða stundum að hefðarrökum – sem eru ágæt út af fyrir sig svo langt sem þau ná. En þegar vísað er aftur til hins frumkristna tímabils, sérstaklega þegar það á að vera fordæmisgefandi, er nauðsynlegt að huga að því að hið trúarlega landslag frumkristninnar var ekki einsleitt eða einfalt heldur margslungið og flókið. Þar gat verið um að ræða mjög óformlega hópa sem voru enn hluti gyðingdóms og hittust á laun en líka talsvert formlegri „söfnuði“ sem hittust alltaf á sama stað og höfðu formlegan stofnanda.  Raunin er sú að strax eftir dauða Jesú frá Nasaret tóku að myndast hópar víða fyrir botni Miðjarðarhafs þar sem boðskapur hans lá til grundvallar. Fyrstu hóparnir komu fram á heimaslóðum Jesú, í rómverska skattlandinu Palestínu, bæði í þeim hluta þess sem kallaðist Galílea en auðvitað líka í Júdeu í kringum Jerúsalem. Síðan dreifðust hin nýju kristnu trúarbrögð víða um svæðið, áfram um Palestínu og Sýrland, suður til Egyptalands og norður og vestur til Litlu-Asíu, Makedóníu, Grikklands og Rómar.

Þessi fjölbreytni gerir það að verkum að það er alls ekki einfalt að draga upp afgerandi mynd af því sem kalla mætti frumkristna afstöðu sem byggja skal á. Og við bætist að umræðunni eru alltaf settar skorður af þeim heimildum sem varðveittar eru. Af  þessu má ljóst vera hversu mikilvægt það er að sá sem túlkar geri grein fyrir nálgun sinni. Í því tilliti er afstaða höfunda þessarar greinar tvímælalaus. Í anda evangelísk-lútherskrar guðfræði verður kosið að einskorða umræðuna við elstu heildstæðu heimildirnar sem varðveittar eru um kristin samfélög, þ.e. bréf Páls postula. Slíka nálgun er einnig að finna í játningarritunum og skrifum siðbótarmannanna. Það merkilega við þessa söfnuði er að þar er að finna ýmsar áhugaverðar tilhneigingar í átt til lýðræðis og jafnréttis, þrátt fyrir að vera fram komnir í samfélagsgerð sem mótaðist af skýrri stéttaskiptingu og þrælahaldi. Þessar tilhneigingar voru siðbótarmönnunum innblástur í ritskýringu og kirkjuumbótum og ættu sannarlega að geta þjónað sama hlutverki fyrir kristna söfnuði í dag.

1.1 Söfnuðir Páls postula

Hugtakið sem Páll notar í bréfum sínum yfir „söfnuðina“ sem hann stofnaði er ekklesía. Í orðsins fyllstu merkingu á hugtakið sér pólitískar rætur, þ.e. í grísku borgríkjunum (gr. poleis) þar sem það vísaði til samkundu allra kosningabærra manna þar sem ráðslagast var um hagi ríkisins og ákvarðanir teknar því til gagns. Þeir sem tilheyrðu ekklesíunni voru ekkletoi, þeir voru kallaðir til starfa fyrir borgríkið. Það verður að teljast athyglisvert að safnaðarhugtak Páls postula eigi rætur í lýðræðishefð klassískrar fornaldar án þess þó að gera of mikið úr því. Ástæðurnar fyrir því að þetta tiltekna hugtak varð fyrir valinu eru óljósar enda leikur margt á huldu um uppbyggingu hinna fyrstu kristnu safnaða.

Í bréfum Páls er ekki að finna neina nákvæma útlistun á safnaðarskipulagi, hvað þá á því hvernig velja eigi safnaðarleiðtoga. Vissulega má sjá vísi að skipulagi á byrjunarstigi, t.a.m. í embættisheitum á borð postula og djákna, en svo virðist sem söfnuðurinn á hverjum stað hafi ráðið málum sínum að miklu leyti sjálfur. Einu má þó slá á fast um fyrirkomulagið á hinum frumkristnu söfnuðum miðað við þá innsýn sem við fáum úr bréfum Páls. Þar hafði andinn (gr. pnevma) mikið rými eins og ljóst er af eftirfarandi versum úr  Fyrra Korintubréfi:

Þannig birtist andinn sérhverjum manni til þess að hann geri öðrum gagn. Einum gefur andinn gáfu að mæla af speki, öðrum gefur sami andi kraft að mæla af þekkingu. Sami andi veitir einum trú, öðrum lækningagáfu og öðrum kraft til að framkvæma undur. Einn fær spádómsgáfu, annar hæfileika að sannreyna anda, einn að tala tungum og annar að útleggja tungutal. Öllu þessu kemur eini og sami andinn til leiðar og hann útbýtir hverjum einum eftir vild sinni. (1Kor 12.7-10)

Hér er mikilvægt að veita því athygli að andinn er sameiginlegur öllum safnaðarmeðlimum. Allir skírðir (1Kor 12.13)  standa jafnfætis gagnvart andanum og eiga jafna hlutdeild í honum þó hún eigi sér margar birtingarmyndir. Þessi skilningur vinnur þannig gegn hvers kyns stigveldi og hefur því jafnvel verið haldið fram að hér sé að finna fyrsta vísi að lýðræðisvæðingu (e. democratization) kristinna samfélaga.[3]

1.2 Vald og ábyrgð í söfnuðum Páls

Páll leit á sig sem postula, persónulega kallaðan af Jesú Kristi til þess að boða fagnaðarerindið og í krafti þeirrar sannfæringar lagði hann grunn að söfnuðum í Litlu Asíu, Grikklandi og Makedóníu. Á forsendum þeirrar sannfæringar gat hann einnig leyft sér að leiðbeina, áminna og stundum húðskamma safnaðarmeðlimi eins og sum bréfa hans bera vitni um (1Kor 4.21; 2Kor 13.2-3; Gal 3.1-4). Eins og gefur að skilja hafði hann umtalsverð áhrif í þeim söfnuðum sem hann stofnaði og hefur haft mikið að segja um það hvernig málum var þar háttað, sér í lagi fyrst um sinn og á meðan hann dvaldi með söfnuðinum á hverjum stað. En svo kom alltaf að því að Páll þurfti að halda leið sinni áfram, yfirgefa söfnuðinn og óhjákvæmilega, upp að vissu marki, sleppa af honum tökunum, ekki svo ólíkt því þegar foreldrar horfa á eftir börnum sínum út í lífið. Þá tók söfnuðurinn sjálfur við stjórninni en um þau mál hefur mikið verið ritað og rætt.[4] Hvernig stjórninni var háttað er ekki aðalatriði í þessari grein, mestu skiptir sú staðreynd að þegar Páll var farinn fékk söfnuðurinn visst sjálfræði.

Þó að söfnuðirnir hafi vafalaust leitast við að starfa í anda stofnanda síns og að Páll hafi með bréfaskriftum sínum reynt að halda þeim við þær línur sem hann hafði lagt í upphafi þá var enga miðstýringu eða yfirstjórn að finna í kirkjunni á þessum tíma. Söfnuðirnir réðu sér sjálfir og þurftu að ráða fram úr málum sínum á eigin spýtur. Og það gat ýmislegt gerst því gróskan var sannarlega mikil í hinum nýju kristnu trúarbrögðum. Um það vitna hinar umfangsmiklu og fjölbreytilegu trúarbókmenntir frumkristninnar. Trúboðar flökkuðu á milli safnaða í þeirri trú að þeir væru kallaðir af andanum og þeim fylgdu vitaskuld alls kyns hugmyndir, stefnur og straumar. Sumar skutu rótum í söfnuðum Páls, aðrar ekki, og í fjarveru stofnandans þurftu söfnuðirnir sjálfir að meta stöðuna. Sum atriði voru þess eðlis að út af þeim þurfti ekki að gera mikið veður en öðru máli gegndi um þau málefni sem snertu kjarna fagnaðarerindisins og skilning á því. Þar gaf Páll engan afslátt eins og eftirfarandi gefur skýrt til kynna:

En þótt jafnvel ég eða engill frá himni færi að boða ykkur annað fagnaðarerindi en það sem ég hef boðað yður, þá sé hann bölvaður. Eins og ég hef áður sagt, eins segi ég nú aftur: Ef nokkur boðar ykkur annað fagnaðarerindi en það sem þið hafið numið þá sé hann bölvaður. (Gal 1.8-9)

Er það nema furða að Páll hafi beðið þess að elska safnaðarins í Filippí myndi aukast „að þekkingu og dómgreind svo að þið getið metið þá hluti rétt sem máli skipta“ (Fil 1.9-10) þegar hann gat átt von á því að hver sem væri færi að boða söfnuðunum sem hann hafði stofnað eitthvað allt annað en hann hafði predikað. Og mælikvarðinn sem bæði Páll og söfnuðrinn lúta er alltaf hinn sami, fagnaðarerindið. Störf þeirra og kenning er metin samkvæmt því. Þessa hugsun mætti orða svo að bæði söfnuður og leiðtogar lúta játningu þess fagnaðarerindis. Á þeim forsendum hafa báðir aðilar rétt til þess að gagnrýna og leiðbeina hvor öðrum, en eins og sjá af bréfum Páls skoruðust menn ekki undan því andmæla honum (Sjá t.d. 1Kor 1.10-17).

Þegar Páli hugnaðist lítt eða alls ekki þróun mála þá brá hann á það ráð til þess að koma skoðunum sínum áleiðis til safnaðanna að skrifa bréf. Þar hrósar hann fyrir það sem vel er gert og setur út á það sem betur má fara. Og þó Páll sé stundum harðorður þá fer hann aldrei í stöðu þess sem beygir menn til hlýðni við skipanir sínar. „Þetta er ekki neitt valdboð heldur ábending“ segir Páll í 1Kor 7.6. Páll virðist forðast valdboð í lengstu lög og leitast yfirleitt við að sannfæra fólk um að skipta um skoðun, láta af breytni sinni og útskýra með rökum og mælskufræði hvers vegna það ætti svo að gera. Sú röksemdafærsla byggir alltaf á grunni þess fagnaðarerindis sem hann hafði boðað. Hann höfðar til skynsemi viðtakendanna og sameiginlegrar reynslu. Hann gerir ráð fyrir að söfnuðurinn sjálfur meti stöðuna eins og má sjá af eftirfarandi orðalagi Páls úr Fyrra Korintubréfi  þar sem hann segir: „Ég tala til ykkar sem skynsamra manna. Metið sjálf það sem ég segi“ (1Kor 10.14). Meira að segja þar sem orðalag Páls verður einna harkalegast, þ.e. í 2Kor 13.1-4, þar sem hann segist ekki munu hlífa neinum næst þegar hann komi, þá þurfa þeir sem málum ráða í söfnuðinum að samþykkja afstöðu Páls áður en gripið yrði til agaráðstafana vegna þeirra mála sem upp höfðu komið.[5] Þegar öllu er á botninn hvolft voru ákvarðanir safnaðarins og uppbygging hans á ábyrgð samfélagsins sjálfs, og við það þurfti Páll að una, hvort sem það var af nauðsyn eða fúsum vilja.

Að þessu sögðu má ljóst heita að Lúther og aðrir siðbótarmenn höfðu nokkuð til síns máls í áherslu sinni á söfnuðinn sem samfélag trúaðra og almennan prestsdóm. Á sama grunni hvílir krafa þeirra um að skilgreina embættið á grundvelli almenns prestsdóms sem og áhersla þeirra á að allir aðilar sem um kirkjuleg mál fjalla, söfnuðurinn, prestur og kirkjustjórnin, lúti sömu játningu. Það kemur lítið á óvart þar sem siðbótarmennirnir voru fyrst og fremst ritskýrendur sem fengust við texta Ritningarinnar og leituðust við að gera grein fyrir þeim boðskap sem þar var að finna. Auk þess reyndu að leysa þann vanda sem samfélagið glímdi við á þeim sama gundvelli. Varðandi kirkjuskipanina gripu þeir m.a. til grundvallarsýnar Páls á safnaðarstarfið. Áherslan er ótvíræð: Fagnaðarerindið er skýrt varðandi kjarnaatriði trúarinnar en samtímis veitir það mikið rými fyrir fjölbreytileika í safnaðaruppbyggingu. Þessa hugsun leitast Lúther við útfæra í sínum skrifum og Melanchton setur skýrt fram í Ágsborgarjátningunni. Að því verður vikið í 2. hluta þessarar greinar.

[1] Á undanförnum vikum og mánuðum hefur verið lífleg umræða á netinu um málefni tengd vali á presti. Sjá t.d. Agnes M. Sigurðardóttir, „Skipun prests: Frá auglýsingu til ákvörðunar“ tru.is (6. júní, 2014, aðgengilegt á http://tru.is/pistlar/2014/6/skipun-prests ); Arnaldur Máni Finnsson, „Fagmennskuhugsjón eða miðstýring“, tru.is (18. júní, 2014, aðgengilegt á http://tru.is/pistlar/2014/6/fagmennskuhugsjon-eda-midstyring ); Guðni Már Harðarson og Halldór Elías Guðmundsson, „Þankar um ráðningarferli og nýliðun“, tru.is (9. júní, 2014, aðgengilegt á http://tru.is/pistlar/2014/6/thankar-um-radningarferli-og-nylidun ). Þá skal þess einnig getið að lögð hafa verið fram frumdrög að endurskoðuðum starfsreglum um val og veitingu prestsembætta sem einnig hafa vakið talsverða umræðu (aðgengilegt á http://innri.kirkjan.is/kirkjuthing/skraarsofn/setur_kirkjuthing/2013/10/Sk%C3%BDrsla-nefndar-um-val-og-veitingu-prestsemb%C3%A6tta.pdf).

[2] Tveggjaríkjakenningin fæst við magnaðan veruleika hins kristna einstaklings á mörkum hinna tveggja ríkja, hins andlega og hins veraldlega. Ítarlega umfjöllun um hana má finna í Sigurjón Árni Eyjólfsson, Guðfræði Marteins Lúthers (Reykjavík, 2000), 95-100. Sjá einnig Sigurjón Árni Eyjólfsson, „Trú og veraldlegt vald. Af kenningu Lúthers um ríkin tvö“, Ritröð Guðfræðistofnunar 25 2007/2, 89-117.

[3] Helmut Koester, „Writings and the Spirit: Authority and Politics in Ancient Christianity“ í Paul and His World: Interpreting the New Testament in Its Context (Minneapolis, 2007), 208.

[4] Sjá t.d. klassískt verk Wayne A. Meeks, The First Urban Christians: The Social World of the Apostle Paul (New Haven, 1983), 74-139.

[5] Sama rit, 124.

Allur réttur áskilinn © 2000-2018 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2417.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar