Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Elías Guðmundsson

Framtíðarsýn í safnaðarstarfi

Val á prestum felst í mótsagnakenndum þáttum. Þar kallast á vilji og þarfir safnaða, ótti við breytingar, hagsmunir yfirstjórnar, kunningsskapur og landslög.

Í söfnuðum þar sem ég þekki best til í Bandaríkjunum er gerð krafa um biðtíma. Þegar sóknarprestur lætur af störfum er ráðin afleysingaprestur með sérhæfingu í breytingastjórnun sem þjónar söfnuðinum í 9-18 mánuði. Markmiðið með biðinni er að söfnuðir festist ekki í hugmyndafræði fráfarandi sóknarprests og fái umþóttunartíma til að endurmeta framtíðarsýn sína undir handleiðslu sérfræðings. Ef söfnuður er á óheppilegri vegferð má leiðrétta kúrsinn og eins gefst tækifæri til að halda á lofti því sem vel er gert. Með vandaðri framtíðarsýn dregur síðan úr vægi persónulegra ákvarðana og kunningjavæðingar í kirkjunni.

Á Íslandi snýst ráðningarferli presta um stöðugleika. Þegar sóknarprestur segir upp störfum eru kallaðir til sjálfboðaliðar sem flestir hafa kosið að starfa við hlið fráfarandi sóknarprests. Þeir eru í störfum sínum fyrst og fremst að taka afstöðu til þess sem hefur verið hingað til og hafa tilhneigingu til að vilja viðhalda ríkjandi ástandi. Ef val á sóknarpresti snýst um framtíðarsýn, að horfa til framtíðar en ekki fortíðar, þá er íslenska kerfið meingallað.

Ef vel á að vera þá þurfa söfnuðir vandaða guðfræðilega ráðgjöf og fjarlægð frá fráfarandi sóknarpresti til að vinna að framtíðarsýn í kjölfar þess að sóknarprestur segir upp störfum. Æskilegast væri svo að valnefndir geti notast við framtíðarsýnina í mati sínu á umsækendum án tillits til fortíðar og fráfarandi sóknarprests. Hér er rétt að hafa fyrirvara um að núverandi löggjöf um ráðningu sóknarpresta getur takmarkað not á framtíðarsýn til að meta einstaka umsækendur.

Mikilvægi framtíðarsýnar safnaðar er þó ótvírætt. Sóknarprestur er miðlægur í starfi safnaðarins og leiðtogahlutverk hans snýst um að miðla framtíðinni, væntingum og markmiðum. Ef hugmyndir um framtíðina eru óljósar, þá verður hlutverk sóknarprestsins óljóst og getan til að greina á milli aðal- og aukaatriða í starfi safnaðarins hverfur. Þegar það gerist hafa söfnuðir tilhneigingu til að verða einkavettvangur sóknarprestsins fyrir athafnir, hefðarmessur og tilviljanakenndar uppákomur.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1807.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar