Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Dagur breytinga

Og Jesús kom til þeirra, talaði við þá og sagði: „Allt vald er mér gefið á himni og jörðu. Farið því og gerið allar þjóðir að lærisveinum, skírið þá í nafni föður og sonar og heilags anda og kennið þeim að halda allt það sem ég hef boðið yður. Sjá, ég er með yður alla daga allt til enda veraldar. Mt 28.18-20

Skáldið og baráttukonan Maya Angelou kvaddi þennan heim í gær. Með henni þagnaði rödd sem hreyfði við mörgum og sem sagði sögur sem mátti helst ekki segja. Hennar verður minnst sem brautryðjanda í bókmenntaheiminum og hugrakkrar konur sem bar vitni um frelsi manneskjunnar frá því sem heldur henni niðri. Það sem hún sagði og gerði breytti miklu hjá þeim sem á hana hlýddu.

Heimurinn er alltaf að breytast. Hann breytist fyrir tilstilli karla og kvenna sem ganga fram, vinna að framförum, stoppa í velferðargötin, gera uppgötvanir á heilbrigðissviðinu, skapa listaverk. Í hverju mannsbarni búa möguleikar til að hafa áhrif á umhverfi sitt, til góðs eða ills. Það er viðfangsefni manneskjunnar að finna frelsið sitt og nota það í virðingu og sátt við sig og meðsystkini sín. Það er verkefni manneskjunnar að breyta.

Fjörutíu dögum eftir páska fáum við að upplifa uppstigningardag. Uppstigningardagur er breytingadagur. Á þeim degi gaf Jesús vinum sínum og lærisveinum verkefni og setti þeim markmið, áður en hann kvaddi þá fyrir fullt og allt. Samveran við Jesú hafði verið lærisveinunum og þeim sem fylgdu honum lífið sjálft. Nú breyttist það. Í staðinn fyrir að vera í nærveru Jesú eins og áður, voru þau sem trúa á hann send út í heiminn, til að finna Jesú í meðbræðrum sínum og systrum út um allan heim.

Kristið fólk er kallað til að vera breytingafólk. Notum frelsið sem Guð hefur gefið okkur til að sjá hvar breytinga er þörf, í þágu lífs og mannvirðingar, og ganga fram í hugrekki, til verndar þeim sem minnst mega sín. Þar hittum við hann fyrir, sem er með okkur alla dag, allt til enda veraldar.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1676.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar