Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Hólmfríður Ólafsdóttir

Heimsóknarvinur?

Eldri borgarar í Bústaðakirkju.

Heimsóknarvinir sinna mörgum hlutverkum í kirkjunni. Sumir eru göngufélagar, aðrir lesa blöðin fyrir sjónskerta, leysa maka af sem býr með einstaklingi með alvarlegan sjúkdóm, enn aðrir flytja hugvekjur í félagsmiðstöðvum eldri borgara eða líta við hjá þeim sem ekki eiga heimangengt vegna aldurs og/eða sjúkleika.

Það eru glufur í velferðarkerfinu. Stofnanir geta aldrei fullnægt allri þeirri þörf sem er fyrir kærleiksþjónustu. Þar komum við í kirkjulegu starfi til sögunnar því við sinnum meðal annars þeim sem passa ekki inn í kerfið. Með góðri samvinnu kirkju, heilbrigðiskerfis og félagsþjónustu ættum við því að geta náð til fleiri sem þurfa á þjónustu að halda.

Öldruðum fjölgar

Starf með öldruðum stendur mér nærri þar sem ég sé um starf með eldri borgurum í Bústaðakirkju. Samkvæmt nýjustu tölum hefur öldruðum fjölgað og mun enn fjölga á næstu árum þar sem stærstu árgangar Íslandssögunnar eru að komast á eftirlaunaaldur. Í Bústaðahverfi og Háaleiti eru t.d 15% íbúa yfir 67 ára. Þjóðfélagsmunstrið hefur breyst og nú búa aldraðir lengur heima en áður fyrr og það kallar á frekari þjónustu til þeirra þegar heilsa og þrek fer þverrandi.

Ég hef rekið mig á í mínu starfi að margir eru einmana og hafa þörf fyrir félagsskap, stutt innlit og spjall eða stuttur göngutúr væri vel þegin hjá mörgum af þeim einstaklingum sem ég hef verið samferða í minni vinnu. Ég hef líka orðið vör við það þeir sem sinna heimaþjónustu eða náinni þjónustu við fólk finni vanmátt sinn þegar þau hafa verið beðin um að biðja með viðkomandi. Þau kunna ekki eða treysta sér ekki í að biðja með fólki, stundum eru aðstæður þannig að bænin er besta úrræðið.

Það er því mitt hjartans mál að koma á fót góðum hópi af heimsóknarvinum í Bústaðakirkju, sjálfboðaliðum sem myndu vilja sjá af einum klukkutíma á viku eða hálfsmánaðarlega til þess að gleðja þá sem eiga ekki heimangegnt nema endrum og sinnum.

Áttu tíma?

Guð hefur gefið okkur kærleikann, við eigum hann í hjarta okkar og Jesú hefur kennt okkur að sælla er að gefa en að þiggja. Er hann ekki um leið að segja okkur að við höfum meira að gefa en við höldum?

Eigum við ekki flest einn og einn tíma aflögu? Ég á það til að gleyma mér á Facebook endrum og sinnum. Kannski væri þeim tíma enn betur varið í þjónustunni við fólkið í Bústaðakirkju. Okkur vantar stundum fyllinguna í lífið og þá gefa litlu stundirnar svo mikið - t.d þegar við köllum fram bros hjá manneskju sem hefur liðið illa. Þannig miðlum við kærleikanum sem Jesús hefur gefið okkur.

Ps. Ef einhver vill leggja þessu verkefni lið og gerast heimsóknarvinur í Bústaðakirkju þá veiti ég allar nánari upplýsingar. Netfangið er holmfridur@kirkja.is og síminn í kirkjunni er 553 8500.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1892.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar