Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Munib A. Younan og Martin Junge

Um ástandið í Sýrlandi


Flóttamenn í Za'atri búðunum.

Við beinum þeim eindrægnu tilmælum til ríkisstjórna sem hyggja á hernaðaríhlutun í Sýrlandi að hverfa frá slíkum úrræðum til að fást við það flókna ástand sem þar er. Aldrei hefur gefið góða raun að nota olíu til að slökkva elda. Slíkar aðgerðir eru ekki varanleg lausn á vandanum og ýta undir öfga og ofbeldi.  Það mun hafa í för með sér aukið ójafnvægi í Sýrlandi, Miðausturlöndum og heiminum öllum.

Við hryggjumst yfir vanhæfni alþjóðasamfélagsins til að vinna saman að friði í heiminum. Vanhæfni sem hefur valdið því að ekki hefur tekist að leysa togstreituna í Sýrlandi á vettvangi stjórnmála eða eftir diplómatískum leiðum. Hagsmunir erlendra ríkja hafa verið teknir fram yfir hagsmuni sýrlensku þjóðarinnar. Öryggisráð Sameinuðu þjóðanna hefur verið lamað og ekkert geta aðhafst vegna andstæðra þjóðaröryggishagsmuna. Þetta ástand hefur gert stöðuna í Sýrlandi enn erfiðari og dregið úr öryggi.

Vegna aðildar Lútherska heimssambandsins að rekstri  Za´atri flóttamannabúðanna  í Jórdaníu hefur athygli okkar beinst að raunum og þjáningu almennings í landinu.  Þar verður fólk fyrir harkalegu ofbeldi og ástandið virðist enn að magnast með tilheyrandi grimmd og hryllingi.

Við beinum því til alþjóðasamfélagsins að unnið verði á vettvangi S.þ. að því að styðja allt sem miðar að varanlegum lausnum á ágreiningi án valdbeitingar. Við leggjum áherslu á að aðkomu og aðferðum Sameinuðu þjóðanna verði breytt svo þær megi áfram þjóna okkur öllum í leit okkar að réttlæti og friði.

Tryggja þarf áhrifamátt öryggisráðs Sameinuðu þjóðanna svo það geti brugðist við flóknum aðstæðum eins og í Sýrlandi. Það er trú okkar að endurbætt öryggisráð eigi að einbeita sér að að því að tryggja öryggi þeirra sem svipt hafa verið mannréttindum og bera byrðar átaka og ofbeldis.

Þessi pistill er stytt útgáfa af yfirlýsingu um ástandið í Sýrlandi. Þýðing: Gunnþór Þ. Ingason, Sigfús Kristjánsson og Árni Svanur Daníelsson. Enska frumtextann má lesa í pdf-skjali hér á vefnum.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2437.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar