Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Halldór Gunnarsson

„Opin ráðstefna“ í Skálholti

Þegar Biskupsstofa auglýsti að kirkjuþingsnefnd byði til ”opinberrar ráðstefnu um forsendur og markmið við endurskoðun þjóðkirkjulaga” vildi ég vita hvernig sú ráðstefna myndi fara fram og sendi fyrirspurn um það og fékk eftirfarandi svar frá formanni nefndarinnar, Ásbirni Jónssyni, kirkjuþings- og kirkjuráðsmanni:

Hvað merkir opin ráðstefna um endurskoðun þjóðkirkjulaga?
“Opin ráðstefna merkir að hverjum sem er, er heimilt að mæta, hlusta, spyrja og taka þátt að öðru leyti.”

Liggja fyrir tillögur nefndar um endurskoðunina?
“Tillögur milliþinganefndar verða lagðar fram og þær kynntar.”

Dagskráin ber ekki merki þess, né að þeir sem sitja við pallborð séu kallaðir til þeirrar umræðu.
“Skil ekki þessa athugasemd. Þátttakendur í pallborði voru valdir til þess að endurspegla breiðan hóp fólks sem tilheyrir þjóðkirkjunni.”

Hverju á þessi opna ráðstefna að svara eða áorka í nauðsynlegri umfjöllun?
“Hún er mikilvægt framlag í þá kirkjuréttarlegu umræðu sem nefndarmenn telja forsendur fyrir því að vel takist til með endurskoðun þjóðkirkjulaga.
Hún er auk þess tilraun nefndarmanna til þess að opna fyrir þá umræðu og hleypa fleiri sjónarmiðum að, en væri ef eingöngu nefndarmenn tækju þátt. Ráðstefna þessi er því til marks um lýðræðisleg vinnubrögð.”

Að fengnum þessum svörum, ákvað ég að mæta, til að taka þátt í umræðu um endurskoðun þjóðkirkjulaganna, sem hlýtur að kalla á mikla varfærni við þær aðstæður sem við búum við í dag, því lögin hafa reynst kirkjunni vel.
Klukkan 13, föstudaginn 13. september setti forseti kirkjuþings Magnús E. Kristjánsson ráðstefnuna í Skálholtskirkju og flutti kveðju frá formanni nefndarinnar, sem gat ekki verið viðstaddur og kynnti fyrsta ræðumann: Lisbet Christoffersen, prófessor í Hróarskeldu, sem ræddi í um klukkustund um uppbyggingu lútherskrar þjóðkirkju á norðurlöndum. Strax að erindi hennar loknu talaði dr. Gunnar Kristjánsson í vel rúma klukkustund um aðdraganda þjóðkirkjulaganna og tengingu þeirra við lútherska kirkjulöggjöf, sem ætti enn langt í land. Því næst var boðið í kaffi og að hálftíma liðnum flutti dr. Hjalti Hugason erindi um samband ríkis og kirkju út frá orðaskilningi hvað sjálfstæði merkti, með sinni fyrri niðurstöðu um að kirkjan væri ekki sjálfstæð. Strax á eftir flutti sr. Sigríður Guðmarsdóttir erindi um lýðræði og jafnrétti, sem yrði að auka í lögum um þjóðkirkjuna.

Því næst hófust pallborðsumræður með 5 þátttakendum, sem vígslubiskup, sr. Kristján Valur Ingólfsson stjórnaði með stuttum ræðum varðandi óskir þeirra, tengdum starfsviði, sem töluðu um breytingar á þjóðkirkjulögunum.
Að þeim loknum bað sr. Gunnlaugur Garðarson um orðið. Vígslubiskup svaraði, að það væri orðið áliðið (kl. var 18.10) og ef hann fengi að tala myndu fleiri óska eftir því. Þessvegna myndi hann slíta ráðstefnunni.

Þá stóð ég upp og sagði eitthvað á þá leið, að ég hefði búið mig undir umfjöllun, í það minnsta að geta sett fram fyrirspurnir til frummælenda og fyrirlesara, sem að sjálf sögðu hefðu átt að sitja við pallborð, úr því fyrirspurnir voru ekki leyfðar til þeirra. Notaði ég tækifærið og mótmælti framsögn dr. Hjalta, því íslenska þjóðkirkjan væri sjálfstæð með sinn “pro rata” rétt. Lauk orðum mínum með því að segja að mér væri misboðið og gékk út.

Þetta var ekki ráðstefna og stóðst ekkert atriði í þeim svörum formanns nefndarinnar, sem ég hafði spurt um. Frummælendur og fyrirlesarar komu ekki að því sem varð að ræða, að mínu mati, varðandi umfjöllun um breytt þjóðkirkjulög.

Að lokum vil ég segja, að það sem vakti sérstaka athygli mína á ráðstefnunni, var að prófessor við Háskóla Íslands skyldi hafa varið nær öllum ræðutíma sínum til að sannfæra sjálfan sig og viðstadda um að þjóðkirkjan væri ekki sjálfstæð, þrátt fyrir að fjórum sinnum sé tekið fram í þjóðkirkjulögunum og þannig ítrekað, að kirkjan sé sjálfstæð, nýtur sjálfræðis og sjálfstæðrar eignhelgi innan lögmætra marka. Eða er einhver einstaklingur, félag, fyrirtæki eða stofnun á Íslandi, sem er svo sjálfstæð, að henni sé ekki gert að starfa innan ramma íslenskra laga?

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1987.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar