Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigrún Óskarsdóttir og Hjalti Hugason

Kirkja óttans

Ögrandi sviðsmynd blasir nú við lúthersku kirkjunni í landinu sem hefur starfað í rúm 450 ár í skjóli ríkisvaldsins þar af í tæp 140 ár sem þjóðkirkja.
Þann 30. júní n.k. eftir rúmlega 120 daga, verður gegnið til ráðgefandi kosninga um tillögur að nýrri stjórnarskrá ásamt „spurningum um helstu álitaefni“. Þar verður spurt hvernig tengslum ríkis og kirkju eigi að vera háttað í framtíðinni. Skoðanakannanir undangengin ár benda til að meirihluti greiði atkvæði gegn þjóðkirkjuskipaninni í núverandi mynd.
Hvar verður þjóðkirkjan eftir atkvæðagreiðsluna í júní? Hvar vill hún vera? Hvar er gott að hún verði?
Þetta eru spurningar sem skipta máli fyrir lúthersku kirkjuna sem þjóðkirkju. Það er ástæða til að spyrja hvers vegna hún hafi ekki verið virkari í málinu en raun ber vitni. — Er það ótti sem ræður för?


Ótti við sjálfstæði?

Síðastliðið haust var gerð skoðanakönnun meðal forystufólks í þjóðkirkjunni. Þar var spurt um afstöðu til aðskilnaðar ríkis og kirkju. Niðurstöður benda til að meðal launaðra og ólaunaðra í forystusveitinni líti fólk svo á að slík breyting hafi ekki teljandi áhrif á líf og starf kirkjunnar. Það er að líkindum rétt mat. Margt bendir þó til þess að þjóðkirkjan óttist þrátt fyrir allt breytingar á 62. gr. stjskr.
Alla 20.öld og til okkar tíma hefur þjóðkirkjan keppt að auknu sjálfstæði gagnvart ríkisvaldinu. Það er í samræmi við alþjóðlega þróun og stafar af því að ríkisvaldið hefur stöðugt orðið veraldlegra. Það er ekki einfalt fyrir trúfélag — jafnvel þjóðkirkju — að starfa í tengslum við ríkisvald sem gæta verður trúfrelsis og trúarlegs jafnræðis borgaranna. Það er heldur ekki eðlilegt að veraldleg og trúarlega hlutlaus löggjafarsamkoma geti hlutast til um innri mál trúfélags — jafnvel þótt þjóðkirkja sé.
Þegar næstu skref í átt til aukins sjálfstæðis þjóðkirkjunnar hafa verið rædd hafa komið fram viðbrögð sem benda til stefnubreytingar. Þau fela í sér að ekki sé talin þörf á skýrari skilum ríkis og kirkju. — Þjóðkirkjan virðist tekin að óttast sjálfstæði sitt.

Ótti við lýðræði?
Á síðustu árum hefur oft verið rætt um nauðsyn þess að auka lýðræði í þjóðkirkjunni. Því hefur verið mjög ábótavant og verið í mynd hreinræktaðs fulltrúalýðræðis. Kirkjuþing tók athyglisvert skref í lýðræðisátt s.l. haust er kjörmönnum í biskupskosningum var fjölgað til muna með því að formönnum sóknarnefnda var veittur atkvæðisréttur sem áður var einkum í höndum presta.
Þingheimur hefur reynst tregari til að auka lýðræði þegar um kjör til kirkjuþingsins sjálfs er að ræða en það er æðsta stjórn kirkjunnar og því prófsteinn á lýðræði innan hennar.
Þá gætir oft hefðbundinna viðbragða „prestakirkju“ þegar um ákvörðunartöku í kirkjunni er að ræða. Kennimönnum finnst varasamt að auka aðkomu leikfólks að ýmsum innri málefnum kirkjunnar. Slík aðkoma er þó mikilvæg þegar um trúfélag er ræða — ekki síst þjóðkirkju.

Ótti við umræður?
Umræða og skoðanaskipti eru lífsnauðsyn í lýðræðislegum samfélögum. Án umræðu þrífst ekkert lýðræði, ekkert frelsi, ekkert líf. Sá gamli frasi er lífseigur í kirkjulegu samhengi „að efla þurfi einingu“ en forðast ríg, krit og flokkadrætti. Þetta er rétt. Samstaða er mikilvæg í kristnu samfélagi.
En það er andstætt eðli þjóðkirkju að allir séu á einu máli. Hún er þvert á móti öllum opin og hlýtur því að rúma margar og ólíkar skoðanir sem þarf að ræða. Þar greinir þjóðkirkja sig frá sértrúarsöfnuði. Með því er ekki átt við frjálsa kirkju sem starfar á öðrum grunni en hinum lútherska. Hér er orðið notað í þeirri neikvæðu, gildishlöðnu merkingu sem það í raun hefur, þ.e. um lokaðan, sjálfhverfan trúsöfnuð. Það getur þjóðkirkja ekki verið.
Margt bendir til að í íslensku þjóðkirkjunni sé undirliggjandi hræðsla við umræður. — Hér er ekki átt við þöggun sem er annað en umræðuótti.

Ótti við umhverfi
Það er eðli þjóðkirkju að vera umfaðmandi, víðfeðm, að ganga í lífrænt samband við umhverfi sitt á hverjum stað. Í raun er það kjarninn í þjóðkirkjuhugtakinu.
Nú bendir margt til að íslenska þjóðkirkjan sé hrædd við umhverfi sitt — þjóðina! Talað er um að sótt sé að kirkjunni, frelsi hennar sé skert og að hún eigi undir högg að sækja. Meirihlutakirkjan í landinu virðist á leið inn í sjálfvalið píslarvætti þrátt fyrir stærð sína, aldur, forréttindi og um flest sterka stöðu.
Þetta eru óttaviðbrögð.

Viðbrögð við fjölhyggju
Íslenska þjóðkirkjan starfar við breyttar aðstæður. Áður var hér samfélag á lútherskum grunni. Nú er öldin önnur. Fjölhyggja er gengin í garð. Ísland er orðinn hluti af heimsþorpinu þrátt fyrir alla okkar einingar- og einangrunartilburði.
Kristin kirkja hefur ýmsa möguleika er hún þarf að bregðast við fjölhyggju. Hér eru þrír möguleikar nefndir: Hún getur skerpt línurnar og lagt aukna áherslu á sérstöðu sína. Hún getur horfið inn í sjálfa sig og lagt yfirdrifna áherslu á kirkjulegar hefðir. Loks getur hún leitað aukins samhljóms við umhverfið, starfað af heilum huga með öllum þeim sem byggja vilja upp réttlátt samfélag og betri heim.
Íslenska þjóðkirkjan virðist einkum sýna tvö fyrri viðbrögðin, skerpingu og innhverfingu. Það eru viðbrögð óttasleginnar kirkju. Djörf kirkja leitar út á við — keppir eftir samhljómi í fjölhyggjunni.

Að lokum
Við köllum eftir umræðu. Við vonum að grein okkar máli stöðu þjóðkirkjunnar of dökkum litum. Það er illt ef evangelísk-lútherska þjóðkirkjan á Íslandi er kirkja óttans. Hún hefur ekkert að hræðast. Hún er grein á meiði hinnar „einu, heilögu, almennu og postullegu kirkju“ Krist. — Slík kirkja hefur aðeins ástæðu til að vera glöð og djörf!

Um höfundinnEin viðbrögð við “Kirkja óttans”

  1. Hrós dagsins fá frambjóðendur og þjóðkirkjufólk | á+k skrifar:

    […] Kirkja óttans, Sigrún Óskarsdóttir og Hjalti Hugason Svo er líka heilmikil umræða í Facebookhópnum Við kjósum okkur biskup sem er opinn öllu þjóðkirkjufólki. This entry was posted in Blogg and tagged biskupskjör by Árni og Kristín. Bookmark the permalink. […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3690.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar