Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Stefán Már Gunnlaugsson

Sáttmáli jóla

Á aðventunni koma leikskólabörnin ásamt kennurunum í heimsókn í kirkjuna sína hér á Vopnafirði. Þá tölum við saman um atburði jólanna og þau leika jólaguðspjallið. Þar er leikgleði barnanna í fyrirrúmi, en oft vill það verða að hirðarnir að berja saman hirðastöfunum, Jósef og asninn veltast um á gólfinu í ærslafullum leik og dýrin í fjárhúsinu eiga erfitt með að vera kyrr. En svo fellur kyrrð á hópinn þegar kemur að orðunum: „En meðan þau voru þar, kom sá tími að hún skyldi verða léttari. Fæddi hún þá son sinn frumgetinn, vafði hann reifum og lagði hann í jötu.“

Þetta eru orð snerta við okkur. Lítið umkomulast barn vafið í ull og lagt í jötu. Frá jötunni í litla og hrörlega fjárhúsinu stafar svo mikil helgi, friður og kærleikur. Í fjarska ómar söngur englanna á Betlehemsvöllum: „Dýrð sé Guði í upphæðum.“ Það er sem himinn og jörð sameinist eitt andartak á jólanótt þegar Guð birtir kærleika sinn í litlu barni – syni sínum.

Guð elskar manninn það er boðskapur jólanna. Ein jól þegar ég var ungur gerði ég samning við Guð. Ég hafði þá aldrei upplifað rauð jól og þetta Þorláksmessukvöld var enginn snjór og veðurspárnar gáfu ekki góð fyrirheit. Það kvöld bað lítill drengur stuttrar bænar til Guðs og þeirra fyrstu með eigin orðum og gerði samning við hann. Ef hann myndi láta snjóa, þá myndi ég biðja til hans á hverju kvöldi alla ævi.

Morguninn eftir á aðfangadag var mér litið út um gluggann og í gegnum stírurnar í augunum sá ég hvar hvítur jafnfallinn snjór var yfir öllu í þykkum bólstrum – alvöru jólasnjór. Gleðin var mikil yfir snjónum, en ekki síst því að Guð hafði hlustað á mig. Lítill smápolli, sem kunni ekki alveg alla stafina í stafrófinu, en vissi nú hver Guð er. Honum var líka órótt í hjarta, það þurfti að standa við gerða samningi þar sem miklu var lofað.

Þrátt fyrir einbeittan vilja og góðan huga þá liðu ekki margir dagar þar til ég gleymdi mér og sveik samninginn við Guð. En svona er saga mannsins í reynd. Hún er full af mistökum, óheppilegum ákvörðunum, þegar við gleymum okkur eða misstígum á vegferð lífsins. Þrátt fyrir það og ófullkomleika mannsins vill Guð eiga samastað hjá þér og treysta þér. Og Guð er meira en samnefnari stundarhagsmuna óskhyggju og væntinga. Hann þekkir manninn allan, þarfir og þrár og í Faðir vorinu biðjum við „Verði þinn vilji“ og leggjum öll okkar mál í hendi Guðs og treystum honum.

Það er sáttmálinn sem Guð staðfestir við þig á helgum jólum. Að þú getir treyst því að Guð er hjá þér. Hann vill styrkja þig og styðja í öllum þínum aðstæðum og hann yfirgefur þig aldrei. Reisir þig við þegar þú fellur, styður og heldur í hönd þína. Mannsins er að treysta Guði og bera kærleika hans vitni í verkum sínum alla daga. Kærleika sem ljómar af barni í jötu, frelsara lífsins, Jesú Kristi.

Megi Guð gefa okkur öllum frið í hjarta og gleðirík jól.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1997.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar