Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Stefán Bogi Sveinsson

Mannréttindi á aðventu

Mannréttindi eru fyrirbæri sem getur bæði verið flókið og einfalt. Sem lögfræðingur þekki ég það að það má lengi velta fyrir sér stöðu tiltekinna mannréttindaákvæða í sáttmálum eða stjórnarskrá. Hvort þau tilheyra flokki 1., 2. eða 3. kynslóðar mannréttinda og hvort orðalag jafnræðisákvæðisins tryggir með fullnægjandi hætti stöðu minnihlutahópa m.t.t. kyns, trúar, kynvitundar eða holdafars svo einhver dæmi séu tekin. Í ríkjandi umræðu, sem oft getur orðið flókin og snúist um útfærslur en ekki grundvallaratriði, getur verið auðvelt að gleyma því að krafan um mannréttindi er í raun mjög einföld. Allir menn eiga rétt á því að komið sé fram við þá eins og menn. Sennilega hefur einmitt enginn orðað hana betur en frelsarinn, Jesú Kristur, í Fjallræðunni (eins og segir í Matteusarguðspjalli 7:12) og kallað hefur verið gullna reglan. „Allt sem þér viljið að aðrir menn geri yður, það skuluð þér og þeim gera.“ Þess vegna eru mannréttindi einmitt grunnstef í boðun fagnaðarerindis Jesú Krists auk þess að vera sjálfsögð krafa einstaklinga til mannlegrar reisnar sem bundin hefur verið í lög og sáttmála óháð öllum trúarbrögðum.

Heimurinn hefur breyst. Það heyrir kannski ekki til tíðinda því heimurinn er alltaf að breytast og það væri kannski merkilegra ef við værum orðinn stöðnuð. En það er hins vegar ágætt að reyna að átta sig á þeim breytingum sem við erum að upplifa og hvaða áhrif þær hafa á okkur og það hvernig heimurinn virkar umhverfis okkur. Við erum stödd í miðri samskiptabyltingu. Þessi bylting hefur staðið lengi yfir en er alltaf að verða stærri og meiri eftir því sem líður á. Flæði upplýsinga í gegnum ýmsa miðla jókst alla 20. öldina, fyrst með útvarpi, þá sjónvarpi og loks með veraldarvefnum. Á 21. öldinni hefur þróunin haldið áfram og ótaldir samfélagsmiðlar, með facebook og twitter í broddi fylkingar hafa haft ótrúleg áhrif á líf milljarða jarðarbúa. Upplýsingar og samskipti geta nú farið fram milli landa og heimshluta með hætti sem engan hefði grunað fyrir fáum árum eða áratugum. En hefur þessi bylting í raun fært okkur nær hvert öðru?

Þegar ég var að leita mér að fóðri fyrir þessa hugleiðingu rak ég augun í stöðuuppfærslu eins vinar míns á Facebook. Það er kannski tímanna tákn að þennan mann hef ég aldrei hitt, þetta er Bandaríkjamaður sem vingaðist við mig í viðleitni til að koma til Íslands til að spila körfubolta. Af því varð ekki en við höfum spjallað öðru hverju saman síðan þá. Þessi stöðuuppfærsla hljóðaði nokkurn veginn svo í lauslegri þýðingu: „Einhver þarna úti er að biðja fyrir því að öðlast það sem fyrir þér eru sjálfsagðir hlutir“. Þessi litla lína fékk mig til að hugsa um það sem er okkur svo sjálfsagt en er það hreint ekki alls staðar í heiminum.

Nú í nótt þurfum við, sem búum á Egilsstöðum eða nágrenni ekki að óttast að lögregla, eða vígasveitir ryðjist inn til okkar og dragi okkur eða ástvini út í nóttina. Við eigum ekki á hættu að vera lokuð inni í fangelsi án réttarhalds eða málsvarnar, jafnvel svo árum eða áratugum skiptir. Við þurfum ekki að þola að vera rekin frá heimilum okkar og upplifa hungur og misþyrmingar á flótta undan styrjöldum og ógnum sem við höfum ekkert um að segja. Við eigum ekki á hættu að ef við tjáum óæskilegar skoðanir eða reynum að verja meðbræður okkar þá verðum við handtekin, nauðgað, pyntuð eða myrt. Samt erum við ekkert merkilegri en fólkið sem þarf að þola allt þetta. Nákvæmlega ekkert merkilegri. Það er fólk eins og við, kollegar mínir, lögfræðingar, stjórnmálamenn og félagsmálafólk. Prestar, kennarar og verkafólk. Þetta er allt fólk eins og við, það hugsar eins og við, elskar eins og við og á rétt á því sama og við. Virðingu og mannréttindum.

Fyrir stuttu síðan varð heimsbyggðin vitni að ótrúlegri grimmd Ísraelsríkis gagnvart íbúum Gazasvæðisins. Meðan árásirnar stóðu sem hæst las ég grein á breska vefritinu The Independent. Fyrirsögnin var: „Er Gideon Levy hataðasti maður í Ísrael eða bara sá hugrakkasti.“ Það sem þessi maður hefur gert nærri vikulega undanfarin 30 ár er að fara inn á hernumdu svæðin og lýsa því sem fyrir augu ber. Aðeins staðreyndir og enginn áróður heldur bara einfaldar lýsingar. Markmiðið er líka einfalt. Hann vill tryggja að enginn í Ísrael geti í fyllingu tímans haldið því fram að þeir hafi ekki vitað hvað fer fram inni á þessum svæðum. Hann vill tryggja að Ísrael beri ábyrgð á því sem þarna fer fram. Fyrir þetta hefur hann mátt þola ógnanir og barsmíðar en hann hefur haldið ótrauður áfram, a.m.k. þar til ríkisstjórn Ísraels kom í veg fyrir frekari ferðir hans inn á svæðin í nóvember 2006. Eftir sína síðustu ferð hafði hann lýst eftirfarandi atviki. Manndrápi, einu af hundruðum sem hann hefur sagt frá í gegnum árin. „Þennan morgun stóð Najawa Khalif, tvítugur leikskólakennari í dyrum Indiru Ghandi leikskólans og beið eftir nemendum sínum. Í þann mund sem 20 börn komu akandi með skólabílnum varð Najawa fyrir ísraelskri sprengikúlu og líkami hennar sundraðist fyrir augunum á þeim. Daginn eftir teiknuðu skelfingu lostin börnin myndir af sundurtættu líki hennar.“

Gideon Levy segir sjálfur að helsta áskorun hans sé að gera Palestínumenn mennska aftur í augum Ísraelsmanna. Að áróðsmaskínan sé svo öflug að allur almenningur í Ísrael upplifi Palestínumenn einfaldlega ekki sem manneskjur. Án þessa væri ekki hægt að ganga fram með þeim hætti sem gert er. Þú gerir ekki það við aðra manneskju sem þarna á sér stað. Ég spurði hér áðan hvort allir samskiptamiðlarnir hefðu í raun fært okkur nær hvert öðru. Ég held að svarið sé kannski að þessir miðlar hafa opnað ný tækifæri fyrir okkur öll til að færa okkur nær öðru fólki úti um allan heim. En hvort það gerist er háð því að við séum í raun tilbúin til þess. Það er svo auðvelt að leiða hjá sér hörmungar þegar þær eru langt í burtu í einhverjum skilningi. Raunveruleg samhygð verður ekki til fyrr en við erum tilbúin til þess að skynja þjáningar annars fólks eins og þær stæðu okkur virkilega nærri. Við ættum í raun að bregðast við rétt eins og Gaza-svæðið væri í Reyðarfirði, Darfur héraðið í Þingeyjarsýslum og Tíbet á Vestfjörðum. Eins og hvert og eitt fórnarlamb pyntinga, nauðgana og fangelsana án dóms og laga sé frændi okkar, vinkona, faðir eða dóttir. Og við þurfum að muna að í raun er ekkert til sem heitir stjórnvöld, ríkisstjórnir eða stórveldi. Þetta er allt saman fólk, einstaklingar sem komnir eru í stöðu til að taka ákvarðanir sem varða líf fólks um allan heim. Þetta er fólk eins og við og við getum vel gert sömu kröfu til þeirra um samhygð, mannúð og kærleika og við gerum til okkar sjálfra. Við getum gert þá kröfu að þetta fólk, og þá jafnframt við sjálf, skýlum okkur ekki á bak við fjarlægð frá illskuverkum eða að hagsmunir kalli á annað en að gera það sem rétt er. Því við vitum sjálf hvað er rétt og það er þannig sem við á endanum breytum heiminum til hins betra.

Hugvekja sem flutt var á samkomu sem haldin var á vegum Íslandsdeildar Amnesty International í Egilsstaðakirkju í tilefni af alþjóðlegum degi mannréttinda 10. desember. Mig langar til þess að þakka skipuleggjendum þess viðburðar innilega fyrir að leyfa mér að koma og flytja stutta hugvekju. Þar sem ég sit í sóknarnefnd Egilsstaðasóknar og er að auki félagi í Íslandsdeild Amnesty international var það mér sérstakt ánægjuefni að taka þátt í þessu sameiginlega verkefni Amnesty og kirkjunnar og fá að ræða málefni sem stendur hjarta mínu nærri.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Mannréttindi á aðventu”

  1. Austurlandsprófastsdæmi | Mannréttindi á aðventu skrifar:

    […] “Raunveruleg samhygð verður ekki til fyrr en við erum tilbúin til þess að skynja þjáningar annars fólks eins og þær stæðu okkur virkilega nærri. Við ættum í raun að bregðast við rétt eins og Gaza-svæðið væri í Reyðarfirði, Darfur héraðið í Þingeyjarsýslum og Tíbet á Vestfjörðum,” sagði Stefán Bogi Sveinsson m.a. í hugvekju sinni á mannréttindasamkomu Amnesty í Egilsstaðakirkju 10. des. sl. sem má nú lesa hér. […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2047.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar