Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristján Valur Ingólfsson

Hver er aftur Gunna sem sendi okkur kortið í fyrra?

Aðventa. Við sláumst í för með þeim sem fagna komu Krists til kirkju sinnar um allan heim, í ys stórborganna og í kyrrð strjálbýlisins, í háreistum musterum og í agnarsmáum bænahúsum og þó fyrst og síðast í einstaklingum, í hjörtum mannanna.

Á meðan við höldum áfram að taka ákvarðanir um stundarhagsmuni og langtímamarkmið eftir getu, færni og löngunum í föstum farvegi sem við gætum kallað rás tímans er einn til sem heldur því öllu í hendi sér. Guð.

Aðventan geymir mörg tækifæri fyrir alla. Trúin gerir hana að tíma undirbúnings og reikningsskila. Maður opnar svolítið meira inn að hjartanu um leið og maður hugsar : Hvað ætla ég að gefa? Hvað ætla ég að gera?

Reynslan sýnir að fólk er opnara og gjafmildarara á þessum tíma, framar öðrum. Fólk gefur ekki bara hvert öðru og sínum nánustu, heldur hafa stórkostlegir hlutir gerst meðal fátækra og deyjandi í fjarlægum löndum vegna þess sem gefið er hér. Og þó að við getum ekki bjargað nema fáum og verðum að horfa upp á það hvernig hræðileg illska drepur og eyðir heilu þjóðflokkunum á meðan við vorum að horfa í aðra átt, - eða kannski sömu, megum við ekki láta það draga úr okkur kjarkinn. Við eigum að leggja rækt við hið litla, vegna þess að það er fyrsti vísir hins stóra.

Dæmi um það er að senda jólakveðju. Andlega og efnalega. Líkast til er það sem kemst næst því að kallast reikningsskil í lífi almennings á þessum tímum að skrifa jólakort. Að kalla fram í hugann allt þetta fólk sem okkur þykir vænt um og viljum rækta samband við og skrifa þeim. Sum þeirra höfum við aldrei séð allt þetta ár, jafnvel sum ekki árum saman, en við viljum ekki sleppa þeim.

Það sem þarf til að skrifa jólakort, fyrir utan penna, blek og blað er þrennt. Hugur, hjarta og hönd. Hugurinn einn er rök og skynsemi. Hjartað eitt er tilfinning. Höndin ein er ómarkvisst fálm. En hugur sem horfir til hjartans lætur höndina gjöra hið rétta. Og einmitt þannig megum við undirbúa og halda hina heilögu hátíð. Með því að minnast þeirra sem eru nær með hugþekkri kveðju og þeirra sem eru fjær með efnalegri aðstoð.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1918.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar