Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Jón Ómar Gunnarsson

Aðventa lífsins

Ég á mjög erfitt með að bíða og ég held að ég sé ekki einn um það. Við erum nefnilega fæst vön því að þurfa bíða mjög lengi eftir hlutunum. Við erum vön því að senda sms skilaboð, tölvupóst eða facebook skilaboð og fá svar fljótt, jafnvel innan fárra mínúta.

Aðventan er sá tími kirkjuársins sem við bíðum. Mörgum reynist biðin afar erfið. Í sumar hitti ég fimm ára gamla stelpu sem spurði móður sína reglulega allt sumarið hve margir dagar væru til jóla. En fyrir öðrum er aðventan alltof stutt því skyndilega eru komin jól og undirbúningur hátíðarinnar skammt á veg kominn. Þýski guðfræðingurinn og presturinn Dietrich Bonhoeffer líkti biðinni á aðventunni við lífið í fangaklefa sem hann sagði vera „…að mörgu leyti sambærilegt við aðventu: maður bíður, vonar, gerir hitt og þetta. Ýmislegt sem skiptir ekki máli. Dyrnar eru lokaðar og aðeins er hægt að opna þær utan frá.“ (Letters & Papers from Prison, 1997).

Sjöhundruð árum fyrir fæðingu Krists flutti spámaðurinn Jesaja þjóð Guðs vonarboðskap:

„Því að barn er oss fætt, sonur er oss gefinn. Á hans herðum skal höfðingjadómurinn hvíla,
hann skal nefndur: Undraráðgjafi, Guðhetja, Eilífðarfaðir, Friðarhöfðingi.“ Spádómsbók Jesaja 9 .5

Sjöhundruð árum síðar kunngjörðu englarnir á Betlehemsvöllum að sá sem beðið hafði verið eftir, kynslóð eftir kynslóð væri í heiminn kominn. Dyrnar höfðu verið opnaðar:

„Yður er í dag frelsari fæddur, sem er Kristur Drottinn, í borg Davíðs.“ Lúkasarguðspjall 2.11

Á aðventunni bíðum við. Við minnumst þess tíma þegar þjóð Guðs beið öldum saman eftir því að loforð Guðs rættist. Hún beið þess jafnt á stundum ljóss og myrkurs. Á aðventunni bíðum við með henni. Aðventan minnir okkur einnig á að við sjálf erum að bíða, við bíðum á aðventu lífs okkar. Bíðum þess að hinn upprisni Kristur snúi aftur og geri alla hluti nýja. Kristur knýr enn á dyr hjarta okkar á þessari aðventu sem fyrr. Hann knýr á dyrnar og bíður okkur til fylgdar við sig.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 1843.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar