Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Rakel Brynjólfsdóttir

H2Og nýtt líf

Vatnsverkefni í Malaví - Landsmót ÆSKÞ 2012

Fyrir þremur árum ákvað ÆSKÞ að Landsmót æskulýðsfélaga myndi hafa góðgerðarþema þar sem ungmennin leggja sitt af mörkum til að styrkja gott málefni. Hefur þessi nýbreytni gefist vel og unga fólkið okkar er svo sannarlega til í að rétta þeim hjálparhönd sem á þurfa að halda. Á mótinu skapa ungmennin ýmiskonar verðmæti, muni, kökur og fleira sem síðan er selt til styrktar málefninu. Við hjá ÆSKÞ höfum frá upphafi þessarar hugmyndar verið í miklu og góðu samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar og hefur það séð um að koma því sem safnast á rétta staði.

Á hverju ári beinir landsmót sjónum að nýju góðgerðarmálefni og tekur öll umgjörð mótsins mið af því. Árið 2010 voru þrælabörn á Indlandi okkur hugleikin og með samstilltum hópi ungmenna á Akureyri náðum við að safna nægum fjármunum til að frelsa 75 þrælabörn úr skuldaánauð og veita þeim þar með tækifæri til menntunar, heilbrigðisþjónustu og betra lífs. Hjálparstarf kirkjunnar hefur lengi verið með verkefni sem miðar að því að frelsa börn úr skuldaánauð og getur hver sem er farið inn á heimasíðu þeirra og lagt sitt af mörkum. Árið 2011 var einblínt á munaðarlaus börn í Japan sem misstu foreldra í hamförunum miklu þar í landi. Enn og aftur sýndu ungmennin einstakan náungakærleika og var afrakstur söfnunarinnar nýttur til uppbyggingar skóla og tómstundastarfs fyrir þessi börn. Sú söfnun var í samstarfi við Hjálparstarf kirkjunnar og samtökin Hearts of Gold í Japan.

Malaví á landsmóti 2012

Í ár beinum við sjónum okkar að Malaví, nánar tiltekið til Chikwawa héraðs. Hjálparstarf kirkjunnar hefur um langa hríð verið með mikið og öflugt starf í héraðinu en megináherslur í því hjálparstarfi er að hjálpa fólkinu að hjálpa sér sjálft. Í héruðum eins og Chikwawa eru lífsafkoma erfið en fólkið vill vera sjálfbjarga. Með aðkomu Hjálparstarfs kirkjunnar hafa íbúarnir getað grafið brunna, komið fyrir góðum vatnsdælum og þar með öðlast betra aðgengi að grundvallarþörf mannsins, hreinu vatni. Með því að grafa brunna sem gefa hreint vatn gefst íbúum héraðsins tækifæri til betra lífs. Það getur veitt vatni á akrana og fengið uppskeru, fætt fjölskyldu og búfénað og svo mætti lengi telja. Hjálparstarfið stendur líka fyrir víðtækri fræðslu þar sem íbúar geta lært um mikilvægi hreinlætis, gagnsemi nýrra jurta og fleira.

Að vakna til nýs dags

Íslendingar eru varla vaknaðir áður en þeir skrúfa frá krananum og fá sér sopa eða skvetta tæru vatni framan í sig til að hressa sig við. Það þykir eðlilegt og alvanalegt á Íslandi en svo er ekki víða um heim. Í Malaví vakna margir svangir og þyrstir á morgnana og hugsa með sér „hvernig á ég að komast í gegnum þennan dag?“. Ef vatn er fyrir hendi er það gruggugt og ólystugt. Stúlkur bera þær skyldur að sækja vatn, oft langar leiðir í steikjandi hita. Svo þegar þær koma að vatnsstaðnum er það oftar en ekki hálfgerður pollur með skítugu vatni. En þegar ekkert annað er í boði er þetta vatn eina úrræðið. Vatnsskortur er afleiðing af breyttu veðurfari og minni úrkomu, rigningar bregðast og uppskeran verður lítil eða engin.

Nýtt líf

Brunnur sem gefur hreint, tært vatn, er lífgjöf og breytir öllu. Hann tryggir mat þar sem hægt er að veita vatni á grænmetisakra og framleiða kjöt, mjólk og egg með geita- og hænsnarækt. Þurrir harðbýlir staðir, þar sem lífsafkoman er mjög erfið og lífið á hálfum hraða vegna vatns- og matarskorts, gjörbreytast með tilkomu brunns. Hænur spígsporandi, geitur á vappi, grænmetisakur í blóma, börn á hlaupum og nægur matur, mjólk og vatn. Þetta er sú breyting sem við sjáum gerast þegar brunnur er kominn. Þá er grundvöllur fyrir fólkið að sjá um sig sjálft, sem er það sem það vill allra helst, að sinna akri, geitum og hænsnum sem svo fjölga sér og gefa enn meira af sér. Umfram afurðir tryggja tekjur og þær gera fjölskyldum kleyft að veita börnum sínum menntun. Jákvæð keðjuverkun sem vonandi tekur aldrei enda.

Byggt til framtíðar

Mjög víða í Chikwawa-héraðinu er enn langt í næsta brunn eða vatnslind og margir líða skort. Þess vegna verður áherslan á Landsmóti ÆSKÞ 2012 að gera fleirum í Chikwawa-héraði kleift að sjá um sig sjálfir með því að auka aðgengi að hreinu vatni og um leið mat. Auk þess munum við vera með hóp sem safnar sérstaklega fyrir alnæmissmituðum í héraðinu að þeir fái heimaaðhlynningu, lyf og fleira. Markmiðið er að safna fjármunum sem duga til að grafa að minnsta kosti einn brunn (180.000) ásamt því að geta keypt grænmetisfræ, geitur og hænur handa þeim sem verst eru staddir. Við viljum gera gæfumun, frá skorti og vannæringu til nýs lífs með nægum mat og kröftum til að takast á við nýjan dag.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2530.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar