Trúin og lífið
Pistlar


Undirsíður

Eftir sama höfund

Skyldir pistlar

Pistlar á trú.is eru birtir undir fullu nafni höfunda og eru á ábyrgð þeirra.Leita í pistlum

Kristín Þórunn Tómasdóttir og Árni Svanur Daníelsson

Framtíðarhátíð

6. janúar 2012

Á Þrettándanum sláum við botninn í íslenska jólahaldið. Dagurinn tengist sögunni um vitringana þrjá sem komu frá fjarlægum löndum til að veita Jesúbarninu í Betlehem lotningu. Hann tengist líka minnum í þjóðtrúnni okkar um dýr sem tala og huldufólk sem flytur búferlum. Þrettándinn er því dagur tímamóta þegar ungir og aldnir, nýtt og gamalt, himinn og jörð mætast. Hann er dagur þegar augu opnast fyrir möguleikum, fegurð og gæsku hins nýja og óvænta.

Three Wise MenGjafir vitringanna, gull, reykelsi og myrra, standa fyrir gæði af ólíkum toga sem við þurfum til að njóta lífsins til fulls. Efnislegt öryggi í formi skjóls og klæða, andlegan þroska og vöxt og leik skynfæranna sem gefa lífinu lit, bragð og tón. Lífið hvílir á þessum andlegu og líkamlegu gæðum og samfélagið sækir næringu til þeirra. Gjafirnar tákna auðlindir jarðarinnar sem við erum háð og njótum í þakklæti og með ábyrgð.

Í upphafi nýs árs stöndum við frammi fyrir ótroðinni slóð og óskrifuðum dögum. Kannski óar okkur við því sem við teljum okkur sjá. Kannski erum við þjökuð af því sem er liðið. Upprifjun frétta og uppgjör grínþátta í lok síðasta árs leiddi í ljós að við erum sem þjóð ennþá stödd í úrvinnslu- og sorgarferli eftir Hrunið og vitum ekki alveg hvernig við eigum að snúa okkur.

Á Þrettándanum getum við séð okkur sjálf í sögunni um vitringanna sem koma um langan veg og horfast í augu við framtíðina. Til að vegna vel á nýju ári þurfum við að draga lærdóm af því sem liðið er og byggja á því. Svo skulum við horfa fram á veg og ganga inn í framtíðina, eins og krakkarnir syngjandi í lokaatriði áramótaskaupsins. Þrettándinn er framtíðarhátíð. Látum hann nú birta okkur þá von að gott ár sé í vændum.

Birtist fyrst í Fréttablaðinu, 6/1/2012

Um höfundinn

Viðbrögð

Allur réttur áskilinn © 2000-2017 Höfundar og þjóðkirkjan. Flettingar 2508.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar