Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslur



Leita

Gunnar Jóhannesson

Þjóðkirkjan og stjórnarskráin

Brátt verður gengið til ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um tillögur að nýrri stjórnarskrá. Þar verður meðal annars spurt um stöðu Þjóðkirkjunnar: „Vilt þú að í nýrri stjórnarskrá verði ákvæði um þjóðkirkju á Íslandi?“ Flestir hafi skoðanir á stöðu Þjóðkirkjunnar, ekki aðeins í stjórnarskránni heldur í samfélaginu almennt. En ef til vill hafa færri velt því fyrir sér um hvað komandi þjóðaratkvæðagreiðsla um stöðu Þjóðkirkjunnar snýst.

Ég vil leyfa mér að árétta að hún snýst ekki um fjármál Þjóðkirkjunnar. Þau hafa oft verið til umræðu. Margir sjá ofsjónum yfir þeim, ekki síst þeim samningi sem í gildi er milli ríkis og kirkju. Sá samningur hefur ekkert með stöðu Þjóðkirkjunnar í stjórnarskránni að gera. Þar er um lögvarðan samning að ræða sem kirkja og ríki gerðu með sér á grundvelli kirkjueigna. Samkvæmt honum afhendir Þjóðkirkjan ríkinu jarðeignir sínar gegn endurgjaldi í formi launa til tiltekins fjölda presta og starfsmanna Þjóðkirkjunnar. Sá samningur félli ekki niður með þjóðkirkjuákvæði stjórnarskrárinnar, og í öllu falli ekki óbættur.

Hið sama má segja um sóknargjöldin, félagsgjöld Þjóðkirkjunnar og annan megintekjustofn hennar. Þau standa ekki í beinum tengslum við stjórnarskrárákvæði um Þjóðkirkjuna. Ríkið innheimtir sóknargjöldin fyrir Þjóðkirkjuna með sama hætti og gert er fyrir önnur trúfélög í landinu. Breytingar á því fyrirkomulagi þurfa á engan hátt að standa í tengslum við breytingu eða niðurfellingu á stjórnarskrárákvæði um Þjóðkirkjuna.

Komandi kosning snýst ekki heldur um svonefndan aðskilnað ríkis og kirkju þó ýmsir telji svo vera. Sá aðskilnaður kom til framkvæmda í grundvallartriðum árið 1997 með tilkomu rammalöggjafar um stöðu, stjórn og starfshætti Þjóðkirkjunnar. Þjóðkirkjan er sjálfstætt trúfélag og réttaraðili sem ber réttindi og skyldur að lögum. Þjóðkirkjan er ekki ríkiskirkja enda þótt hún tengist ríkinu með vissum hætti. Ólíkt því sem var fyrir árið 1997 stýrir Þjóðkirkjan sér sjálf á grundvelli starfsreglna og reglugerða sem kirkjuþing – æðsta stjórnvald Þjóðkirkjunnar – setur henni, ekki alþingi eða ráðherra. Staða Þjóðkirkjunnar í stjórnarskrá hefur ekki áhrif þar á.

Þá snýst komandi kosning ekki um trúfrelsi eða skort þar á. Mannréttindadómar hafa fallið sem kveða á um að þjóðkirkjufyrirkomulag takmarki ekki ákvæði um trúfrelsi. Burtséð frá því þarf enginn að tilheyra Þjóðkirkjunni fremur en hann vill. Engum er nauðugur einn sá kostur að leita til hennar. Að Þjóðkirkjan (og kristin trú almennt) sé fjölmennari og fyrirferðarmeiri en önnur trúfélög í sögu og samtíð, og axli þar af leiðandi víðtækari skyldur en þau, takmarkar ekki trúfrelsið frekar en það takmarkar skoðanafrelsið að einn stjórnmálaflokkur sé stærri og valdameiri en aðrir. – Þá má benda á að óvíða hafa trúfrelsi og umburðarlyndi skotið jafn djúpum rótum en meðal þeirra þjóða þar sem þjóðkirkjufyrirkomulag hefur verið við lýði. Ísland er fallegt dæmi þar um. Rök hníga að því að þær dyggðir hafi notið þess að vaxa upp í skjóli breiðrar og umburðarlyndrar Þjóðkirkju. Ekki er sjálfgefið að þróunin hefði orðið með sama hætti ef trúfélög kepptu sín á milli á frjálsum markaði, ef svo má segja. – En grundvallaratriðið er að ný stjórnarskrá hygli ekki Þjóðkirkjunni umfram önnur trúfélög. Þess óskar Þjóðkirkjan sér ekki. Raunar hefur hún talað fyrir því að önnur trúfélög njóti sambærilegra réttinda og hún. Því ber að fagna frumvarpi innanríkisráðherra, svo dæmi sé tekið, um bætta stöðu trú- og lífsskoðunarfélaga.

Hitt er annað mál að sambærileg staða trúfélaga útilokar ekki að kveðið sé á um þjóðkirkju í stjórnarskránni í einni eða annarri mynd. Sú breyting sem nýlega var gerð á stjórnarskrá Noregs er dæmi þar um. Staða norsku kirkjunnar var einfölduð til mikilla muna. Stigið var frá eindregnu ríkiskirkjufyrirkomulagi og staða annarra trúfélaga bætt til muna. Engu að síður var vilji til þess að kveðið væri á um norska þjóðkirkju – og var það umfram allt gert á menningar- og sögulegum forsendum.

Hér komum við, að mínu mati, að kjarna málsins. Ef til vill snýst komandi kosning fremur um afstöðu okkar til kristinnar trúar og stöðu hennar í sögu og menningu lands og þjóðar fyrr og síðar. Viljum við árétta að sem þjóð stöndum við á sögulegum og menningarlegum grunni kristinnar trúar og gilda? Viljum við standa vörð um þá arfleifð og áhrif hennar í íslensku samfélagi? Viljum við árétta fyrir okkur sjálfum og öðrum að íslenskt samfélag og kristinn siður og gildi eigi enn sem áður samleið? Þetta eru þær spurningar sem, að mínu mati, liggja á bak við þá spurningu sem lýtur að stöðu Þjóðkirkjunnar í stjórnarskránni.

En hverju sem því líður hefur Þjóðkirkjan átt ríkulegan þátt í að móta og næra þá sögu og menningu sem íslenska þjóðin hefur um aldir staðið á. Hún er þjóðleg stofnun þar sem mætist gamalt og nýtt, fortíð og samtíð. Og þrátt fyrir allt ber Þjóðkirkjan uppi verðmætt starf og víðtæka þjónustu sem grundvallast á háleitum gildum og hugsjónum um samhjálp, samábyrgð og náungakærleika. Það er sannarlega mikils virði.

Um höfundinn



Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2776.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar