Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Arnaldur Máni Finnsson

Hjá hinum útskúfuðu

Á prestastefnu í ár var þjónusta kirkjunnar í brennidepli með hliðsjón af nýútkominni skýrslu frá Lúterska Heimssambandinu og er það vel.  Skýrslan heitir Þjónusta í síbreytilegu samhengi. Að umbreyta , sætta og efla. Í umræðum kom fram ánægja með skýrsluna sjálfa sem tæki til umfjöllunar og frekari þróunar þjónustu kirkjunnar, eða öllu heldur að hún virki sem hvatning til að prestar, forystufólk safnaða, yfirstjórn kirkjunnar og djáknar láti nú til sín taka af persónulegri ábyrgð með fulltingi upplýstrar orðræðu um mikilvægi þjónustu-hugsunarinnar í kirkjulegu starfi. 
Mig langar að leggja nokkur orð í belg um frumkvæði og nýjungar sem mögulegar eru, í ljósi áherslu nývígðs biskups í vígsluræðu sinni, til þess að leita nýrra leiða til að boða fagnaðarerindið. Þannig er nefnilega mál með vexti að íslenska þjóðkirkjan, ein kirkna í Vestur-Evrópu, stundar ekki svo nokkru nemi, starf sem miðar að þjónustu við þann hóp samfélagsins sem margir vildu nefna „hin útskúfuðu“; utangarðsfólk, fíkla og heimilislausa. Að einhverju leyti skýrist það af því að í litlu og velferðarsinnuðu samfélagi sem okkar er markaðurinn kannski ekki svo víðfeðmur að kirkjan telji þörf á slíkri sérþjónustu. Einhverjir vilja meina að kirkjan okkar sé svo mikil millistéttarkirkja að hún vilji ekki „skíta sig út“ á þessum málaflokki en þeirri greiningu vil ég hafna. Fyrst og síðast vegna þess að hún er og verður kirkja Jesú Krists, og kirkju sem fylgir fordæmi frelsara síns ber siðferðileg skylda til að mæta lítilmagnanum, ekki aðeins af því hann sé fatlaður, fátækur eða afskiptur, í ljósi orða Krists um samsemd hans með hinum minnsta. Hugsjón kirkjunnar er að mæta hverjum manni og hverjum þjóðfélagshópi með tilboði um mannlega reisn í samfélagi manna.
Auðvitað blasa við vandamál í starfi með þessum tiltekna hópi sem geta reynst þeim sem í sífellu krefst þess af starfi sínu að sýnilegur árangur náist. Fyrirstaðan er oft „ólæknandi sjúkdómur“ (fíkn), óttinn við trúleysi eða raunar sú staðreynd að einstaklingar innan hópsins hafa sagt sig úr lögum við samfélagið eða almennt siðferði. Mikilvægt er að athuga að kirkjan, eða við sem þjónar hennar ráðumst ekki í þetta verkefni til þess að leysa vandamálið. Við getum semsagt ekki gert ráð fyrir því að einstaklingarnir „læknist“ og taki fyrstu skrefin á langri leið helgunarvegarins. En þjónustan er heldur ekki til þess gerð að helga skjólstæðingana eða okkur sjálf, heldur til þess að leggja okkar af mörkum við að gegnumlýsa veröldina mildu ljósi náðar og miskunnar, að gegnsýra hana kærleika og upplýsa með fyrirheitinu um fyrirgefninguna.  Við störfum í heimi á helgunarvegi. Kirkjan getur verið öðrum mönnum og stofnunum leiðarljós í starfi með og í þágu heimilislausra og fíkla, í stað þess að ætla líknarfélögunum Samhjálp og Hjálpræðishernum það afmarkaða hlutverk í lífkerfi velferðar þjóðarlíkamans. Með þessu er ég á engan hátt að gera lítið úr starfi þeirra félaga eða lýsa því yfir að kirkjan eigi að fara í samkeppni við þau eða meðferðarstarfsemi líkt og SÁÁ reka. Það sem ég er að lýsa eftir er vakandi meðvitund um það starf og þær stefnur sem uppi eru í þessum málaflokki á líðandi stund. 
Ég hef óformlega rannsakað þekkingarstig og vilja yfirstjórnar kirkjunnar og prestastéttarinnar til að þróa starf eða þroska meðvitundina um þennan málaflokk og þó einstaka framtak sé góðra gjalda vert má segja að gróskuna í þessu starfi vanti í flóru kirkjunnar. Ég ber í brjósti hugmyndir um að þjóðkirkjan láti til sín taka með verkefnum við hæfi á þessum akri og bæti við það starf sem þegar fer fram af tveimur megin ástæðum.  Annars vegar er það vegna þess að með sýnilegum vilja á þessu sviði endurheimtir kirkjan möguleika trúverðugleika sem hún áður hafði, sem helgaðist m.a. af þeim verkum sem þjónar kirkjunnar komu til leiðar á hinu veraldlega sviði á seinni hluta síðustu aldar við uppbyggingu félagslegrar þjónustu sveitarfélaganna. Vissulega höfðu prestar víða áður fyrr þessa félagslegu þjónustu á sinni könnu og á landsbyggðinni gegna þeir enn mikilvægu hlutverki í því neti sem Hjálparstarf Kirkjunnar hefur um allt land. Trúverðugleiki kirkjunnar sem vinnandi handar hinnar kristnu manngildishugsjónar hvílir á því að koma að mótun og vera upplýst um stefnu í málaflokki sem þessum á hverjum tíma. Og sérstaklega nú, á meðan bæði fjölgun í hópi skjólstæðinganna og gróska í geiranum sjálfum á sér stað.
Hin ástæðan fyrir því að það er aðkallandi að kirkjan beiti sér með einhverjum hætti er sú að með ábyrgri aðkomu má bæta samskipti við ýmsa aðila sem grundvöllur hefur sópast undan. Málefni heimilislausra og illa staddra fíkla eru t.a.m. eitt þeirra sviða sem eru nánast eingöngu á könnu borgaryfirvalda í Reykjavík, bæði á sviði velferðar- og mannréttindamála. Þar hefur kirkjan eldað grátt silfur við þau vegna annarra mála. Að mínu mati má í þessu máli sjá leik á borði til að laga þann misbrest og sýna vilja í verki til sáttagjörðar við borgaryfirvöld. 
Rétt um eitt og hálft ár er síðan embætti Miðborgarprests með sérstakar skyldur við Dómkirkjuna var lagt niður. Skyldur embættisins við heimilislausa og utangarðsfólk sem tilteknar voru af hálfu borgaryfirvalda gerðu það að verkum að í stefnumótun borgarinnar sem fram fór á árinu 2006-2007 tók kirkjan að einhverju leyti þátt í þeirri vinnu og er það kirkjunni mikilvægt á hverjum tíma. Kirkjan þarf að vera meðvituð og upplýst um stefnu borgarinnar í þessum málaflokki sem öðrum álíka. Í þessum málaflokki er bæði gróska og spennandi starf framundan.
Í dag eru áherslur að breytast í þessu starfi bæði á vegum þriðja geirans og borgarinnar og stefnumótun fyrir næstu ár fer fram á þessu ári. Í ljósi þess að hvorki Miðborgar- né Vímuvarnarprestur starfar lengur í kirkjunni er kirkjan raunar á flæðiskeri stödd þekkingarlega varðandi þennan málaflokk. Hvorki sjúkrahúsprestar né fangaprestur eru heldur kallaðir að borðinu þó vissulega starfi þeir með geðsjúkum og síbrotamönnum þegar þeir eru innan vébanda nefndra stofnana. 

Það sem ég er að kalla eftir með því að opna þessa umræðu er ekki það að kirkjan krefjist aðkomu að mótandi vettvangi á vegum fagaðila til að koma sínum sjónarmiðum að, heldur að hún bjóðist til að vera með til að hlusta og læra. Að hún hafi frumkvæði að því að finna út hvar hún getur stutt við eða styrkt starf annarra. Getur kirkjan kannski lagt eitthvað óvænt að mörkum? Í krafti stærðar sinnar getur hún ef til vill áorkað mörgu sem engum datt í hug að hún myndi taka að sér óumbeðin, á sviði mannréttindamála og réttlætis. Hún getur með hljóðum en einbeittum hætti stuðlað að vitundarvakningu og kannski bætt tengsl hinna útskúfuðu og aðstandenda þeirra. Gæti hún jafnvel lagt borgaryfirvöldum lið í að fá landstjórnina og Innanríkisráðuneytið til að sinna þeim vanda sem fyrir hendi er með ábyrgum hætti? Heimilis- og aðstöðuleysi fíkla og geðsjúkra er vandi heillar þjóðar og kirkju hennar en ekki sértækt reykvískt miðborgarvandamál sem fagaðilar leysa.
Hjá hinum útskúfuðu á kirkja Krists að taka sér stöðu með líknandi hönd þjónustunnar og miskunnarríkt ljós fagnaðarerindisins að stefnumiði.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3365.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar