Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

G8 hópurinn

Heilagur andi í blíðu og stríðu

Hvítasunnan er hátíð heilags anda. Kirkjan minnist þess að þá rættist fyrirheiti Krists um „annan huggara“. Hann skildi fólkið sem treysti honum ekki eftir munaðarlaust. Að kristnum skilningi er heilagur andi sköpunarkrafturinn sem stendur að baki lífinu, ljósinu og öllu því jákvæða í heiminum. Heilagur andi er líka tákn frelsisins; andinn blæs þar sem hann vill og verður ekki heftur.
Þegar náttúran losnar úr viðjum vetrar og vorgróði breiðist yfir sölnaða jörð er andinn að verki að skilningi þeirra sem trúa. Það sama á við þegar vel heppnað listaverk lítur dagsins ljós, nýtt og áður óheyrt tónverk hljómar eða markverð uppgötvun er gerð í vísindum eða fræðum. Andinn starfar þar sem unnið er af alúð og samviskusemi, hversu hverdagsleg sem verkin kunna að virðast. Andinn er að verki þar sem sættir takast milli einstaklinga eðastríðandi fylkinga hvort sem er á vígvelli, á vinnustað eða inni á heimilum.
Skilningur trúarinnar afneitar hvorki snilligáfu manneskjunnar né virðingarverðri viðleitni fólks til að skapa betri heim. Frjór hugur, hög hönd, menntun, þjálfun og ekki síst iðni skiptir sköpum í listum, vísindum og raunar hvaða verki sem er. Sáttavilji einstaklinga og hópa ræður miklu um að friður og réttlæti ríki á meðal okkar.
Trú á heilagan anda gerir ekki lítið úr manneskjunni og viðleitni hennar til þess að láta gott af sér leiða. Þvert á móti er trúin tilraun til að sjá hlutina í stærra samhengi, byggja brú milli hins einstaka og þess almenna, sjá heildarmunstur. Trú á heilagan anda er tilraun til að skýra leyndardóm sem skynja má í öllu því jákvæða sem gerist í heiminum.
Það er mikilvægt að minnast þess að enginn getur eignað sér heilagan anda. Hann er alls staðar, starfar á óvæntan hátt á óvæntum stöðum; andi óheftrar sköpunar.
Við höfum upplifað fjölbreytileika íslenskrar veðráttu á þessu vori, hlýindi hafa tekið við eftir kuldakast. Getum við vonast eftir sambærilegum breytingum í þjóðmálaumræðunni sem hefur mótast um of af karpi átakastjórnmála? Stjórn og stjórnarandstaða takast á, málþóf, persónuníð og neikvæðni ráða alltof oft för. Á síðustu vikum og mánuðum hefur umræðan um eitt brýnasta réttlætis- og hagsmunamál þjóðarinnar verið tekin í gíslingu peningaafla og færð inn í auglýsingatíma ljósvakamiðla og á auglýsingasíður dagblaða.
Mörgum þykir uppgjörið eftir Hrunið og þær hamfarir af mannavöldum sem gengu yfir þjóð okkar ganga hægt. Enn ræður afneitun ríkjum. Glöggt dæmi um það mátti sjá eftir að Landsdómur kvað upp dóm sinn fyrr í vor. Hér eftir á líklega enginn sem við sögu kom eftir að gangast af einurð við ábyrgð sinni. Leið réttarkerfisins virðist ein fær, leið sem hefur þó miklar takmarkanir þegar um jafn víðtæka samfélagskreppu er að ræða og Hrunið skyldi eftir sig. — Afleiðingar þess teygja sig inn í kviku þjóðlífsins og líf okkar flestra.
Hugmynd um sannleiksnefnd hefur verið rædd þar sem leiddir væru saman þolendur og gerendur í Hruninu. Á vettvangi slíkrar nefndar gæfist hverju og einu sem hlut eiga að máli tækifæri til að skýra sinn málstað og horfast í augu við annan skilning á því sem gerðist en sinn eigin. Á þann hátt kæmumst við öll til dýpri skilnings á því hvað gerðist , hverjar afleiðingar verka okkar eða verkleysis kunna að hafa verið. Þá gæfist möguleiki á játningu, iðrun, siðbót og sáttum. — Slík leið kann enn að vera opin en tíminn er naumur.
Íslenskt samfélag er vissulega skapandi og spennandi umhverfi að lifa í. Listir og menning blómstra, eins og greinilegt er á Listahátíð sem nú stendur yfir. Menntun og fræðsla er öflug á meðal okkar. Á þessu vori sem endranær munu þúsundir útskrifast á hinum ýmsu stigum skólakerfisins. Um land allt leitast fólk við að láta gott af sér leiða.
Heilagur andi vors og hvítasunnu þarf að fá að leika um þjóðlífið allt og mæla fram skapandi máttarorð sitt: Verði ljós!

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2581.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar