Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Sigurður Grétar Sigurðsson og Skúli Sigurður Ólafsson

Æskulýðsmálin og framtíðin

Hvernig verður umhorfs í kirkjunni þegar þjónustutími komandi biskups verður á enda runninn?

Hversu margir sækja messur? Munu foreldrar leita til kirkjunnar að uppbyggilegu starfi fyrir börnin sín? Hvernig verður sjálfboðinni þjónustu háttað? Hvaða áhuga mun ungt fólk hafa á að læra til prests? Hvernig verður hlustað þegar talsmenn kirkjunnar taka til máls? Hvaða erindi mun kirkjan eiga í umræðuninni um lífsgildin, verðmætin, svo ekki sé nú talað um hin andlegu mál? Hversu hátt hlutfall þjóðarinnar mun tilheyra þjóðkirkjunni?

Innsýn í framtíðina

Ein leið til þess að svara þessum spurningum er að kanna hvernig kirkjan mætir málefnum ungs fólks nú í dag. Þar finnum við vísbendingu um það hvernig staða hennar verður í framtíðinni. Þau sem nú eru virk í æskulýðsstarfi kirkjunnar munu vafalalítið vera í lykilhlutverki í þjónustu kirkjunnar á komandi tímum. Um þetta er lítill ágreiningur og hafa æskulýðsmálin verið áberandi í tali þeirra sem sóst hafa eftir embætti biskups. Vissulega er orðið brýnt að efla þennan málaflokk. Spurningin er hins vegar sú hvort yfirhöfuð er mögulegt að bæta æskulýðsstörfin að einhverju marki, innan ramma þess skipulags sem nú er við lýði innan kirkjunnar. Hér verður því haldið fram að slíkt sé vart mögulegt. Rætur vandans felist í því hversu dreifðir kraftar kirkjunnar eru og þar með sé ókleift að hrinda stefnumálum í framkvæmd.

Viðvörunarljós

Þótt vissulega sé barnastarf víða með miklum blóma má finna ýmis merki þess að málalfokkur þessi mæti afgangi innan safnaða. Dæmi eru um það í fjölmennum söfnuðum, að leiðtogar hafi mætt á auglýstum tíma til sunnudagaskóla og beðið í tómum salnum án þess að nokkur léti sjá sig. Víða, þar sem áður voru hundruð barna í kirkjuskólanum, sækja nú örfáir samkomur. Unglingastarfið þarf einnig að skoða. Ekki nægir að kanna fjölda og tíðni samkoma, þótt slíkar tölur gefi vissulega vísbendingu. Horfa þarf til innihalds stundanna. Eru enn starfandi leshópar þar sem ungt fólk les í ritningunni og ræðir boðskap hennar eða eru samverurnar byggðar upp með þeim hætti að sjálf boðunin fær rétt að „fylgja með“ í lokin?

Kórastarf barna var um hríð vaxtarbroddur innan safnaðanna. Slíkir kórar hafa, þegar vel hefur verið á málunum haldið, eflt safnaðarstafið til mikilla muna og tengt fjölda fólks við starfsemi þeirra. Í þeim samdrætti sem orðið hefur síðustu árin eru dæmi um að barnakórar hafi verið lagðir niður og ekkert komið í þeirra stað.

Fermingarfræðslan er svo kafli út af fyrir sig. Hér er aðeins byggt á reynslusögum foreldra og ýmsu sem lærst hefur af afspurn. Það út af fyrir sig er umhugsunarvert að þetta hryggjarstykki safnaðarstarfsins (og messusóknarinnar!) skuli ekki lúta meira gæðaeftirliti en raun ber vitni. Dæmi eru um að allt að hundrað börnum sé safnað saman til „fræðslu“stunda þar sem þau skrifa upp svör við spurningum og halda svo heim á leið. Einnig virðist námskrá fermingarfræðslunnar rykfalla uppi í hyllu. Gjarnan er byrjað síðla hausts og hætt vel fyrir aðventu. Starfið hefst svo að nýju síðla janúar, en víða hefjast fermingar löngu fyrir páska, jafnvel í byrjun mars. Fermingarveturinn stendur því ekki nema í örfáa mánuði. Námsefnið er þar að auki mjög úr sér gengið. Bókin Líf með Jesú var í raun upphaflega hugsuð sem bráðabirgðaútgáfa en það segir mikið um ástand þessara mála að í mörgum kirkjum er hún enn notuð sem námsefni. Einhverjir söfnuðir hafa sjálfir samið efni sem gjarnan er fjölritað og bundið inn í gormabækur. Slík námgagnagerð stenst vart samanburð við prentað námsefni sem unnið er af fagfólki. Annað efni sem gefið hefur verið út síðustu árin virðist ekki hafa fallið í kramið. Ljóst má vera að ekki hefur tekist að útbúa námsefni sem mætir þörfum fræðslunnar.

Hápunktur fermingarundirbúningsins er þó jafnan ferðin í Vatnaskóg. Þar stendur nýbygging – ókláruð illu heilli en fullbúin myndi hún stórefla möguleikana á því að hafa aukinn hluta fræðslunnar í Skóginum, börnunum til mikillar gleði. Slíkt gæti jafnvel gefið kost á því að hefja fræðsluna ári áður með undirbúningshópum, og færi fræðslan að hluta til fram í Vatnaskógi. Skógarmenn safna fyrir byggingu skálans en þjóðkirkjan hefur úr svo litlu að moða í þessum málaflokki að framlag hennar er lítið annað en jákvæð viðleitni til verkefnisins.

Ofan á þessa óheillaþróun bætist sú staðreynd að stærri söfnuðir á SV-horninu hafa margir hverjir sagt upp æskulýðsfulltrúum í kjölfar samdráttar. Sú staðreynd er út af fyrir sig efni í heilan pistil. Forgangsröðunin er með þeim hætti að þessi vaxtarbroddur til framtíðar er skorinn af.

Vilji og skipulag

Að þessu rituðu, virðist í raun fátt benda til þess að málaflokkurinn, æskulýðsmál, sé jafn mikilvægur á borði og hann er í orði. Ýmis dæmi eru vissulega um gott og árangursríkt starf. Annað væri það nú líka, sé litið til þeirra tekna sem söfnuðirnir hafa og þá aðstöðu sem þeim er víða búin. Í því sambandi ber að nefna þættina „Daginn í dag“ sem hafa slegið í gegn í sunnudagskólastarfinu. Farskóli leiðtogaefna er frábært framtak og fleira mætti nefna. Það breytir því þó ekki að mjög víða er pottur brotinn í æskulýðsmálum eins og rakið hefur verið. Þá liggur hluti skýringarinnar á hinu dvínandi gengi í afhelgun samfélags og minna trausti til þjóðkirkjunnar. Það skýrir þó vandann ekki nema að hluta til. Kirkjunni hefur ekki tekist sem skyldi að mæta þessum áskorunum.

Ástæða þess að illa gengur að bæta úr þessum vanda liggur í skipulagi kirkjunnar. Kirkjustarf líður á þessu sviði sem mörgum öðrum fyrir stjórnleysi sem kemur í veg fyrir það að unnt sé að raða málum í eðlilegan forgang. Fjármagni og starfskröftum er dreift um söfnuðina, misstóra og nánast ekkert er fylgst með því hvernig farið er með þessa fjármuni á hverjum stað. Enginn ber í raun ábyrgð á því hvernig unnið er með þessi verðmæti.

Annar stór ókostur þess fyrirkomulags sem þjóðkirkjan býr við felst í því að nánast ókleift er að stýra því hvernig fjármagninu er varið. Stefnumótun, samþykktir og jafnvel starfsreglur sem kirkjuþing samþykkir koma ekki nauðsynlega til framkvæmda í söfnuðunum. Fyrir vikið gerist það, sem hér að ofan hefur verið tíundað að jafnvel málaflokkur eins og æskulýðsmálin sitja á hakanum – og það þrátt fyrir stór orð um mikilvægi hans og þýðingu fyrir framtíð kirkjunnar.

Eigi að vera unnt að breyta þessu þarf að ráðast í breytingar:

1.     Markmiðssetning

Fyrst þarf vitaskuld að vita hvert á að stefna. Nú vill svo til kirkjuþing hefur samþykkt fræðslustefnu og innan hennar er fjallað um æskulýðsstarf. Þann hluta mætti útfæra nánar og vinna eins konar „barnasáttmála“ þjóðkirkjunnar sem lýtur að þeirri þjónustu sem kirkjan vill veita börnum vítt og breitt um landið. Þar ber m.a. að horfa til þess hlutverks þjóðkirkjunnar að bjóða upp á æskulýðsstarf án endurgjalds. Uppeldisstefna kirkjunnar á að vera í forgrunni – þar sem ekki er unnið í anda samkeppni og úrvalshyggju eins og víða er í íþróttastarfi heldur endurspeglar starfsemin þann skilyrðislausa kærleika sem kirkjan boðar.

2.     Þekking

Þegar orð þessi eru skrifuð verður þess vart hversu byggja þarf á reynslusögum og oft tilviljanakenndri innsýn sem fengist hefur í fyrirkomulag þessara mála. Rannsóknir eru stopular og þær sem gerðar hafa verið, geta vart talist hlutlægur mælikvarði á gæði þjónustunnar. Spurningalistar hafa verið sendir út til sóknarpresta en mikið vantar þó upp á það að óháðir aðilar meti magn og gæði samverustundanna. Eru þó prófastar í fjölmennustu prófastsdæmunum með héraðspresta sem gætu gert slíka könnun í samvinnu við biskupsstofu. Slíka úttekt mætti jafnvel vinna sem rannsóknarverkefni við guðfræðideildina. Tilvalið væri að nýta leikmannasamfélagið, koma á fót rýnihópum sem svara reglulega spurningum um starfið í þessum mikilvæga málaflokki. Með þessu fengist bæði formlegt og óformlegt eftirlit á gæði æskulýðsstarfsins.

3.     Skipulag

Þegar ljóst er hvert á að stefna og hversu langt þjóðkirkjan á í land með að ná markmiðum sínum ber að skoða allt skipulag hennar með tilliti til þess að hún geti uppfyllt markmið sín. Eins og rakið hefur verið, þá geta einstakir söfnuðir kært sig kollótta um það hvað rætt er og afgreitt af kirkjuþinginu. Við því verður að bregðast. Þá verður að tryggja það að fagfólk starfi á þessum vettvangi – og að þekkingin eflist í nánu samstarfi þeirra sem fræðslunni sinna.

Þessi hluti verður erfiðastur en í ljósi þess hversu þörfin er brýn á að bæta þjónustuna á þessu sviði verður að segjast að hann er þess virði að fyrir honum sé barist! Vísi að slíkri hugsun má sjá í samþykktum um samstarfssvæði sem byggja á því að söfnuðir leggi saman krafta sína á ákveðnum sviðum. Hér þarf að ganga miklu lengra og tryggja það að hvergi sé slakað á kröfunum í þessum málum. Lykilhugtök í þeirri vinnu ættu að vera: fagmennska, hagkvæmni og samstarf.

Dæmi um breytingar

Hér er tekið dæmi um það hvernig fermingarfræðslunni mætti umbylta í þessum anda. Það fyrirkomulag þar sem prestar sinna kennslu barnanna gegn sérstökum aukagreiðslum, ætti að leggja niður. Það á sér engar hliðstæður í systurkirkjum okkar og er ekki á nokkurn hátt í takti við þær þarfir sem fermingarfræðslunni er ætlað að mæta. Í skjóli þessa fyrirkomulags viðgengst þjónusta sem er ekki boðleg í samfélagi þar sem sífellt meiri kröfur eru gerðar á þessum vettvangi. Greiðslum foreldra ætti að verja til þess að greiða fagfólki. Prestarnir taka vissulega þátt í fræðslunni en umsýsla hennar og skipulag er á hendi leiðtoga sem hafa fengið sérstaka menntun á þessu sviði. Sá leiðtogi gæti þó vissulega verið þjónandi prestur, hafi hann sérhæft sig á því sviði. Einn leiðtogi getur hæglega skipulagt fermingarfræðslu í nokkrum söfnuðum og tryggt væri reglulegt samstarf á milli fræðara þar sem skapandi hugmyndavinna færi fram og stöðugt endurmat á starfseminni. Rýnihópar foreldra gæfu reglulega álit á gæðum fræðslunnar og prófastdæmið héldi utan um tengslin við þá. Starfið væri m.ö.o. skipulagt í kringum þarfir barnanna sjálfra en ekki embættismannanna sem því sinna. Þegar má sjá nokkurs konar vísi að slíku fyrirkomulagi í nokkrum söfnuðum þar sem margir koma að fræðslunni en miklu lengra þarf að ganga í þessari vinnu.

Með sama hætti væru aðrir þættir æskulýðsstarfanna endurskoðaðir allt út frá því að tryggt sé að starfsemin beri árangur – þjónustan við börnin og fjölskyldur þeirra verði ekki bara viðunandi heldur til fyrirmyndar fyrir þá aðra sem starfa á sama vettvangi.

Sameinuð eða sundruð

Á tyllidögum og í undirbúningi biskupskosninga tala menn gjarnan um æskulýðsmálin og láta í ljósi mikinn áhuga á þeim málaflokki. Flest bendir þó til þess þar ríki stöðnun eða jafnvel afturför.

Horfum á æskulýðsstörfin út frá sjónarhorni þeirra sem þjónustuna sækja. Fólk hefur nú sáralítil áhrif á það hvernig henni er háttað. Æskulýðsnefndir í söfnuðum eru undantekning fremur en regla. Víða virðast menn sjá engin úrræði til þess að bæta starfið og gera kirkjuna að kynslóðatorgi þar sem ungir og aldnir koma saman. Margir kjósa vissulega með fótunum – aka langa leið, stundum framhjá tveimur kirkjum til þess að komast á þann stað þar sem starfsemin er ásættanleg. En þeir borga eftir sem áður greiðslur sínar til sinnar sóknar og sú sókn fær tekjur sínar alls óháð því hvernig farið er með þá fjármuni.

Og þar eru kraftarnir bundnir. Þeim er dreift umhugsunarlaust í allar áttir – bæði fjármagninu og þekkingunni, án þess að ábyrgðar sé krafist á árangri, án þess að eftirlits sé gætt með ráðstöfun, án þess að hirt sé um það hvort farið er eftir þeim línum sem lagðar hafa verið.

Eigi að vera unnt að leysa þessa krafta úr læðingi þarf að stíga þau skref sem systurkirkjur okkar hafa fyrir löngu stigið. Raunverulegu samstarfi verður að koma á með þeim hætti að fjármagni og völdum sé ráðstafað til samstarfssvæðanna fremur en einstakra sókna. Með skýrri stefnumótun, virku eftirliti og raunhæfum úrræðum til þess að grípa inn í, verður fyrst von til þess að æskulýðsstörfin geti orðið með þeim hætti að þjóðkirkjan geti horft með björtum augum til framtíðar.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2589.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar