Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Bolli Pétur Bollason og Gylfi Jónsson

Vinir Vestmannsvatns

VestmannsvatnÍ hlíðinni suður af bænum Fagranesi í Aðaldal standa tæplega fimmtíu ára gamlar byggingar, sem áður voru nýttar fyrir sumarbúðastarfsemi á vegum Þjóðkirkjunnar. Hlutverk staðarins hefur breyst með tíð og tíma og nú er þarna starfrækt kirkjumiðstöð sem speglast í lygnu Vestmannsvatni á góðviðrisdögum. Landsslag og umhverfi er einstaklega fagurt, við erum að tala um hreina útivistarparadís. Kirkjumiðstöð þessi er sjálfseignarstofnun og rekin á eigin ábyrgð fyrir ýmsa starfsemi á vegum Þjóðkirkjunnar og er ætlað að stuðla að aukinni samvinnu safnaðanna.

Kirkjuleg starfsemi við Vestmannsvatn á sér ríka sögu allt frá því fyrrum biskupar hr. Pétur Sigurgeirsson og hr. Sigurður Guðmundsson hrundu þessari góðu sumarbúðahugmynd af stað, enda var barna-og ungmennastarf kirkjunnar þeim báðum afar hugleikið. Á þeim tíma var sumarbúðarekstur við Vestmannsvatn þýðingarmikil vítamínssprauta og kjölfesta í æskulýðsstarfi norðan heiða. Ófá börn og ungmenni, sem síðan hafa vaxið úr grasi, horfa til staðarins í ljóma og þökk. Þá er sá hópur orðinn stór, sem hefur gegnt margvíslegum störfum í þágu kirkju og kristni við Vestmannsvatn.

Þrátt fyrir þá breytingu sem orðið hefur á hlutverki starfsseminnar við Vestmannsvatn, þá skiptir hún ennþá mjög miklu máli fyrir söfnuði í Eyjafjarðar-og Þingeyjarprófastsdæmi og ekki hvað síst fyrir æskulýðsstarf innan þeirra. Aðstöðuna má leigja í lengri eða skemmri tíma fyrir barnahópa, fermingarhópa og hverskonar skólahópa, fyrir kóra og sem funda-og fræðsluaðstöðu fyrir starfsmenn safnaða, svo fátt eitt sé nefnt. Þarna er einnig gott að halda fjölskyldumót og fleira það er eflir mannlíf og samfélag á kristnum grunni. Tilvalin helgardvöl.

Það er áhugavert að halda til haga allri þeirri reynslu, sem kirkjustarfssemin við Vestmannsvatn felur í sér og það er áhugavert fyrir allan þann mannskap er hefur átt þarna gæðastundir að eiga greiðan aðgang að ýmsu því efni, sem til er um tæplega fimmtíu ára starf kirkjunnar við Vestmannsvatn. Nú styttist í stórafmæli, nánar tiltekið 28. júní árið 2014, og þess vegna langar undirritaða að kalla eftir minningarbrotum og myndum sem hægt verður að setja inn á nýstofnaða síðu á Facebook er nefnist „Vinir Vestmannsvatns.“ Þá er ekki loku fyrir það skotið að úr verði minningabók í tilefni af afmælinu, sem getur hæglega vakið upp og nært sælar minningar frá helgum stað.

http://www.facebook.com/pages/Vinir-Vestmannsvatns/336271453090505

Um höfundinnEin viðbrögð við “Vinir Vestmannsvatns”

  1. Minningarsíða um sumarbúðir | Þjóðkirkjan skrifar:

    […] Lesa áfram á trúmálavefnum. […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2685.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar