Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Björn H. Jónsson

Vegur lífsins

Trúðu á tvennt í heimi
tign sem æðsta ber
Guð í alheimsgeimi
Guð í sjálfum þér.

Snemma á mínum Húsavíkurárum gerðist ég fylgdarmaður þriggja kvenna sem hver fyrir sig hafði misst ástvin í sjóinn því voru konurnar sorgbitnar mjög .

Förinni var beint í Einarsstaði í Reykjadal til fundar við þann mæta mann Einar Jónsson. Hann tók okkur vel og bauð til stofu og þar leyfði hann okkur að hlusta á spólu með upptöku hins kunna miðils Hafsteins Björnssonar. Hann ræddi þar hvernig menn að handan reyndu að ná sambandi við jarðarbúa til hjálpar. Það tók langan tíma en loks fundu þeir sambandið gegnum bænir er stigu upp í bláu reykjasvifi frá sameinuðum kirkjugestum í tilbeiðslu til Guðs.

Þessi áhlustun kvennanna og samskipti Einars við þær á eftir urðu til þess að þegar út í bílinn kom til heimferðar, voru með mér allt aðrar konur en þær sem komu til Einars bugaðar af sorg sviptar vonum og höfðu tapað trú á lífið og Guð.

Þær fóru heim lausar að mestu við pressu sorgarinnar gæddar vonum til lífsins og trú á handleiðslu Guðs. Hvílík umskipti.

Það er ekki að ástæðulausu sem okkur hefur verið bent á að kunna æðsta boðorðið um að elska Guð af allri getu til lífs og sálar og það sem því er næst, náungann eins og sjálfan sig.
Ég ætla að leyfa mér að umorða það svona: Elskaðu sjálfan þig svo heitt að þú gerir aldrei viljandi náunga þínum neitt rangt til.

Þetta er ekki auðvelt og hefur reynst okkur flestum um megn. Guð er kærleikur og maðurinn er skapaður í guðsmynd. Sú mynd er kærleikurinn. Svipmót mannsins við Guð þarf að sjást í daglegri útgeislun hans í samskiptum við sjálfan sig og aðra. Ef við ekki notum kærleikann í samskiptum við hvert annað þá framfylgjum við ekki boðorðinu að elska sjálf okkur og þá elskum við eitthvað annað meira.

Nægir þar að benda á söguna um ríka unglinginn sem kom til Jesú og spurði hvað hann ætti að gera til þess að eignast eilíft líf?

Jesús benti honum á boðorðin. Hann sagðist hafa haldið þau öll .Jesú fór að þykja vænt um unga manninn og sagði við hann: „Eins er þér vant.Far þú og sel eigur þínar og gef fátækum andvirðið”. Ungi maðurinn gekk hryggur burt. Hann var ríkur og elskaði eigur sínar meira en sjálfan sig og náungann.Hér var mikið í húfi og hann gat ekki sætt sig við að að láta frá sér eigur sínar. Samskipti manna á seinni árum hafa sýnt þessa afstöðu til eigin eigna með grimmdarlegri hætti en nokkurn tíma fyrr því miður. Er sárt til þess að vita.

Þó að spurningu mannsins um eilíft líf væri ekki svarað þá felst í orðum Jesú að ungi maðurinn hefði átt kost á eilífu lífi ef þetta eina hefði ekki vantað og því er eðlilegt að spyrja: Hvar og hvenær? Og svarið hlýtur að vera hér á jörðinni. Þá hljótum við að líta til sköpunarinnar. Þegar maður og kona maka sig til þess að eignast afkvæmi þá hlýtur guð að vera þar með í verki til þess að kveikja lífið mótað í sinni mynd. Það gerist í hinni upprunalegu vöggustofu mannlífsins. Þar þroskast hinn nýi vísir að mannveru og er hann þar furðanlega vel varinn. Þó eru til mörg dæmi um að utanaðkomandi slys hafi orðið ýmist af áföllum eða ofbeldi. Stöku sinnum hefur líka sýking átt sér stað. Hinir illvígu sjúkdómar hafa ekki í gegnum áranna rás herjað þar um að neinu verulegu leyti. Það er ekki fyrr en á tveimur síðustu öldum að krabbamein fór að gera vart við sig í síauknum mæli og á seinustu áratugum kom upp sú hugsun að krabbameinið væri arfgengt gen sem gengi á milli einstaklinga í sumum ættum.

Ekki get ég stutt þá grunsemd að Guð hafi skapað gen sem skaðvald í sínu eigin sköpunarverki en er hallur undir þá skoðun læknavísindanna að einhverjar aðstæður hafi orðið til svo að krabbameinið gat myndast og aukist. Benda nýlegar niðurstöður vísindanna til þess. Hafa komið fram vísbendingar um að aðskotaefni geti sest að innan í líkamanum og gengið sem erfðavísar til nýrra einstaklinga. Skilst mér að það sé í tengslum við of mikla lyfjaneyslu eða örvunarefna sem ekki eru vinveitt okkar eigin líkama . Hætti ég mér ekki meira út í þá sálma, en hvet fólk að fara varlega með neyslu untanaðkomandi efna því þessi fósturstöð þarf að njóta fyllsta öryggis til þess að skila heilbrigðu fóstri frá sér svo vel sé. Hvað tekur nú við þegar barn hefur fæðst? það er ekki lítið um að vera. Sumum foreldrum finnst þetta skemmtilegasta leikfang sem þau hafa nokkurn tíma eignast. Vissulega fylgir þessu oftar en ekki gleði og gæfa ef rétt er að öllu staðið. Fagna ber því.

En það fylgir því mikil ábyrgð að annast barnið og veita því leiðsögn og móta það rétt fyrir lífið.

Kristnar fjölskyldur hafa staðið furðu vel að vígi með þá hluti. Frelsarinn Jesús hefur gefið tóninn . Hann segir: „Leyfið börnunum að koma til mín og bannið þeim það ekki því að slíkra er guðsríki.” Hann hefur lagt veginn sem þau eiga að velja.
En auðvitað vita börnin nýfædd ekki um þetta ákall til þeirra og því þarf að hjálpa þeim til þess að komast inn á þennan veg sem Jesús hefur lagt með lífi sínu og frelsun. Þar hefst hin raunverulega frelsun.

Áður fyrr hjálpaði eldra fólkið, afar og ömmur foreldrunum við að beina börnunum inn á þann veg sem Kristur er. Þá voru þau heima og fræddu börnin um Jesú með fallegum sögum, bænum og hans eigin orðum, þá voru börnin oft meira og lengur með fullorðnu fólki sér til öryggis.

Nú er öldin önnur. Afar og ömmur eru farin á stofnanir fyrr en áður í stað þess að létta undir með foreldrum heima fyrir.En í þeirra stað hefur verið tekið upp leikskólakerfi til að annast fræðslu og leiðsögn barnanna í gegnum bernskuna en þar er ekki sú leiðsögn sem boðskapur Jesú kallar eftir. Við sem játum kristni höfum í höndum lykilorð sem beina börnunum til Jesú. Eitt af okkar mætu trúarskáldum Valdimar Briem hefur gefið okkur sjö eftirfarandi boðorð í bænabúningi.

Þú Guð sem stýrir stjarna her
og stjórnar veröldinni
í straumi lífsins stýr þú mér
með sterkri hendi þinni.

Stýr mínu hjarta að hugsa gott
og hyggja að vilja þínum,
og má þú hvern þann blett á brott
er býr í huga mínum.

Stýr minni tungu að tala gott,
og tignar þinnar minnast,
lát aldrei baktal agg né spott
í orðum mínum finnast.

Stýr minni hönd að gjöra gott,
að gleði ég öðrum veiti
svo breytni mín þess beri vott,
að barn þitt gott ég heiti.

Stýr mínum fæti á friðar veg
svo fótspor þín ég reki
og sátt og eining semji ég,
en sundrung aldrei veki.

Stýr mínum hag til heilla mér
og hjálpar öðrum mönnum,
en helst og fremst til heiðurs þér,
í heilagleika sönnum.

Stýr mínu fari heilu heim
í höfn á friðarlandi
þar mig í þinni gæslu geym,
ó, guð minn allsvaldandi.

Þessi erindi mynda sporaslóð eftir hinum rétta vegi sem hver á að feta sem ekki vill lenda villur vegar. Þau minna okkur einnig á að Jesús byrjaði alltaf og endaði daginn með bænum. Notaði þær sem forvörn því við tryggjum ekki eftir á. Vandinn við mótun barnanna er sá að þau fari eftir því sem felst í þessum erindum og þar þurfa foreldrar og aðrir aðstandendur að standa vel vörð að þau fylgi þeim vegi sem Jesús er og á að vera.

Fyrsti áfangi barnanna er þýðingarmikill því að það eru svo margir aðrir vegir sem hægt er að lenda inn á og ekki eru til heilla en erfitt að snúa af eftir á.

Það er athyglisvert að Jesú segir: „Ef menn ekki taka á móti guðsríki eins og barn munu þeir alls ekki inn í það komast.”

Það er ekki svo erfitt að skilja þessi orð út frá því að börnin eru svo einlæg í bernsku sinni að þau leggja sig fram af sömu einlægni í reiðiöskrum sínum og í bljúgri blíðu sinni. Hér er mikið í húfi að vel sé að verki staðið og af heilindum.Hér skal á það bent að þetta starf er ekki látið óáreitt og kemur það skýrt fram í hinu mikla áreiti sem neikvæðir aðilar beita þá sem minni máttar eru jafnvel beita ofbeldi svo að þeir sem fyrir því verða hrekjast í útjaðar samfélagsins og grípa til margskonar neyðarráða sem duga þó sjaldnast til. Það er gripið til vímuefna, leitað er eftir samkyn félagsskap og ýmissa ráða sem skömm er kristnum að láta viðgangast. Framkoma sem þessi er að reyna að hrekja menn frá þeim vegi sem Kristur er. Margt fleira mætti telja.

Gerum okkur grein fyrir því að hér er um að ræða mannauðinn, unga fólkið sem svo oft er nefnt í dag, en á þó svo oft í vök að verjast fyrir ruddamennum. Áður fyrr voru þau aldrei nefnd mannauður en nutu umgengni sem slík.

Þrátt fyrir allt þetta tekur kristin trú öllum hinum manngerðu trúarbrögðum fram. En það gefur okkur hinum kristnu ekki leyfi til þess að misbjóða þeim eða lítillækka enda segir Kristur farið og gerið allar þjóðirnar að lærisveinum.

Við erum ekki tilbúin til þess hér og nú.

Við þurfum að laga margt í okkar kristilegu breytni áður en við erum til þess fær . Við þurfum að vinna það verk með kærleika og þolinmæði en ekki ofbeldi. Til þess að skilja nauðsyn þessa starfs skulum við líta til konu af öðrum trúarbrögðum.

Gleymum því ekki að fólk í öðrum trúarbrögðum en okkar er líka skapað í guðsmynd. Það sem gerir greinarmuninn er að þetta fólk hefur ekki fengið Krist sín á meðal til þess að lýsa Guði og kærleikssambandi hans við mennina. Þegar heiðna konan tekur á móti barninu sínu nýfæddu þá heyrir hún engan Jesú kalla til sín leiðbeiningarorðum um hvert skal beina huga barnsins og hefur því ekki í mörg hús að venda. Engin boðorð, enginn sem bendir á öruggan veg. Ótti og öryggisleysi er fylgifiskurinn.

Nú skulum við skoða hvernig við erum í stakk búin til þess að veita þessu fólki öryggi. Með því að kenna því að trúa á Guð og Jesú Krist frelsara heimsins.

Þegar ég lít yfir síðustu árin og reyni að skynja nýtingu trúarinnar, þá virðist mér þjóðin hverfa frá trúnni meir en áður og búa við fallandi gengi siðferðis. Bankahrunið þar sem menn virtust elska peninga og glæframennsku miklu meira en Guð, náungann og sjálfan sig og glata bæði viti og sjálfstjórn. Svo fóru hópar að mæta við Alþingishúsið til að mótmæla rangindum sem snérust í höndum sumra svo þeir fóru að vinna skemmdarverk jafnvel fremja meiðingar í stað þess að bæta úr. Aðeins einu sinni brá fyrir björtu ljósi þar sem mótmælendahópur tók á sig rögg og studdi lögreglumennina til þess að hafa hemil á óeirðamönnum og skemmdarvörgum. Út yfir tók svo allt sem þekkist þegar óeirðaseggir tóku sig til við setningu Alþingis, köstuðu eggjum og sýndu alls konar dónaskap þegar þingheimur ásamt gestum gekk til kirkju til þess að afla sér styrks í trúnni svo að þeir yrðu færari til að takast á við verkefni lands og þjóðar öllum til heilla. Ég hef ekki ástæðu til að ætla annars.Það sama gerðist er kirkjugestir gengu frá kirkju til Alþingishúss. Slík svívirða hefur aldrei verið skráð hér á landi, ekki einu sinni á sturlungaöld. Og á þetta horfðu þingmenn, ég veit ekki hve margir sem kusu að sitja á bekk úti á Austurvelli fremur en að mæta í kirkju. Þarna er um að ræða smánarblett sem aldrei þvæst af. En þetta minnir okkur á annan smánarblett þjóðarinnar. Það var þegar Geir Haarde forsætisráðherrann var einn af þremur samstarfsmönnum dæmdur sekur fyrir ábyrgðarleysi varðandi bankahrunið. Það er útilokað að þar hafi einn maður verið sekur. Virðist sem pólitisk klíka hafi haft þar hönd í bagga. Og áfram hélt óhappaverkum í garð kristninnar.

Þegar fyrrverandi dómsmálaráðherra setur þann lagabókstaf að öllum trúarbrögðum skyldi gert jafnhátt undir höfði. Auðvitað hafði hann samstarfsmenn til þess að koma þessum gerningi fram og ber því ekki einn ábyrgð fremur en Geir Haarde. En með því er skylda hins kristna manns að fara og gera allar þjóðirnar að lærisveinum numin úr gildi. Það má líka benda á það í framhaldi af þessu að einn frammámaður kirkjunnar hefði ekki gætt sóma síns sem skyldi gagnvart nokkrum konum án þess þó að málin hafi komið til dóms. Ýmiss konar frumhlaup áttu sér stað m.a. nokkrir safnaðarmeðlimir sögðu sig úr kirkjunni móðgaðir mjög og töldu klaufalega hefði verið að þessu staðið en virtust ekki muna eftir því að allir meðlimir kirkjunnar eru meira og minna samábyrgir um velferð hennar og sóknarbarna. Í einhverju fáti kröfðust sumir þess að sitjandi biskup ætti að segja af sér af því að hann var of seinn að trúa sekt hins sem enn er þó ekki sönnuð og verður trúlega ekki.

Mér þykir ólíklegt að þess væri krafist að landlæknir segði af sér þó að einhver læknir í umdæminu gætti ekki sóma síns við einhverjar konur. Ég hygg að enn sé í gildi þessi forna dómgæsla: Sá yðar sem syndlaus er kasti fyrsta steininum. Er hægt að búast við að þjóðin sem svona er stödd í kristninni hafi verið fær um að gera aðrar þjóðir að lærisveinum. Því skal þó ekki gleymt að íslenskir kristniboðar í nafni þjóðarinnar hafa unnið mikil og góð kristniboðsstörf með góðum árangri úti í hinum stóra heimi.

Ég hef notað hér orðið þjóð líkt og alþingismenn og aðrir framámenn í pólitík þeir tala niður til andstæðra flokka og kalla sinn flokk þjóð. Það er ekki rétt og ég bið afsökunar á þessu þó það sé viljandi notað. Sem betur fer á það sem hér hefur verið sagt aðeins við um lítið brot þjóðarinnar. Og vænti ég þess að hér eftir beri meira á þeim sem muna að þeir eru skapaðir í guðsmynd og láti það sjást bæði í hugsun, orðum og gerðum.

Eftir að hinir kristnu unglingar hafa ratað inn á veginn sem Kristur er þá er ekki allur vandi leystur í viðleitninni að varðveita guðsmyndina sína. Í hverri nútíð og framtíð koma fyrir vandamál sem erfitt er að leysa og við bregðumst ekki alltaf rétt við sem skyldi. Þó að við hin fullorðnu ætlum að vanda líferni okkar þá tekst okkur það ekki alltaf . Við gætum ekki guðsmyndarinnar okkar, við elskum ýmislegt annað meir en hana, og stundum losnar hún úr sambandi við Guð sjálfan. Stundum reynast sumir samferðamenn neikvæðir og áreitnir svo að okkur gremst í skapi og virkum þá stundum verri menn heldur en við erum í raun og veru og vildum síður vera.

Það er full ástæða til að gefa þessum staðreyndum gaum. Sumir prestar og kannski hef ég verið einn af þeim áður fyrr hafa sagt „Guð er alltaf hjá ykkur hvernig sem þið eruð og hvað sem þið gerið jafnvel við að vega mann”.

Þetta er ekki rétt. Þegar við erum að vinna verk andstæð vilja Guðs og þegar við elskum eitthvað annað í daglegu lífi meira en Guð þá er hann ekki hjá okkur. Jafnvel þótt við værum í nauðum stödd við slíkar aðstæður þá væri Guð ekki hjá okkur. Vegna hvers? Vegna þess að guðsmyndin okkar var kaffærð undir hlutum eða kenndum sem girndinni tengdust eða hún var alls ekki tengd kærleika Guðs og því óvirk. Að tengja návist Guðs við slíka persónu væri að gera manninn óábyrgan á allan hátt. Það er einmitt það sem hefur gerst í okkar þjóðfélagi það er eins og öllum leyfist að vera ábyrgðarlausir um allt. Þess vegna höfum við lent í þessum miklu hremmingum, bankahruni, skjalafalsi, stuldi úr eigin hendi, fjárdrætti í fyrirtækjum svo eitthvað sé nefnt.

Þegar svo er komið þurfum við að tengja guðsmyndina okkar við Guð sjálfan.

Hvernig förum við að því? Með því að nota bænina, því: „Lykill er hún að Drottins náð“. Sú bæn þarf að vera bljúg og hrein og rúmast innan guðsmyndarinnar til þess að öruggt sé að hún lendi inn á þráðinn sem liggur milli Guðs og manns, kærleikanum. Þá ertu aftur kominn í samband við Guð.

Við skulum minnast þess að við aðstæður sem þessar þá þurfum við sjálf að hafa fyrir því að hreinsa guðsmyndina og koma okkur í samband. Og lykillinn að því er: „Bænin má aldrei bresta þig“.
Nú ætla ég að hætta að gera athugasemdir og reyna að bregða upp mynd úr starfi íslensku þjóðarinnar sem sýnir hvernig samband Guðs og manns á að vera.

Ég bendi þar á björgunarstarfið sem er í gangi og nýtur virðingar og aðdáunar flestra ef ekki allra sem til þekkja og eru sterkustu myndirnar í sambandi við gos og aðrar náttúruhamfarir. Þá er stjórnstöðin staðgengill Guðs sjálfs og mennirnir út á vettvangi á einum stað eða mörgum, hver einstaklingur virkur hvort sem hann er einn eða með öðrum út á víðernum landsins. Sú virkni er að guðsmynd hvers einstaklings er tengd kærleika Guðs í stjórnstöðinni því allt björgunarstarf byggist á kærleikanum og fórnfýsi sem er jákvæðasta svar sem maðurinn getur veitt kalli Guðs sjálfs.Við þurfum ekki að skammast okkar fyrir þá þjóð sem er tilbúin að vinna önnur eins afreksverk við björgun lands og manna eins og hún hefur gert undanfarið.

Því ekki að færa slíka starfsemi víðar í þjóðfélaginu til dæmis í sambandi við umferðina á götum borgarinnar og vegum landsins og í landsbyggðinni sjálfri bæði í þéttbýli og strjálbýli að vinna að því að umferðarlögin séu virt og haldin með sama fyrirkomulagi og áðurnefnd björgun því hér er vissulega um að ræða björgun á mannslífum og verðmætum.

Færi ekki bara vel á því að það sæist og skildist að við erum sköpuð í guðsmynd og værum með hana í sambandi við móðurtölvuna og alveg hreina. Þetta gildir um allt mannlífið þar sem við mætumst á ferð, komum saman til fundarhalda og á ráðstefnur og til mannfagnaðar allmennt.Alls staðar og alltaf þurfum við að gefa sömu útgeislunina, kærleikann, sem ávallt hlýjar friðar og gleður. Að lokum skal bent á stoðir þjóðfélagsins, mannlífsins sjálfs það eru heimilin í landinu þar á kærleikurinn að ráða húsum. Þar á enginn hrokagikkur að drottna né undirtylla að skríða í duftinu. Þar á Guð alltaf að vera tengdur við guðsmyndina og hana hreina til þess að kærleikurinn verði virkur innan allrar fjölskyldunnar. Þá geta börnin orðið sá mannauður sem þeim er áskapað að verða. Í framhaldi af þessu þurfa skólarnir að koma með kristilegt starf og æskulýðsstarf kirkjunnar til þess að tengja saman æsku og aldur.

Á jarðvistardögum Jesú í Gyðingalandi var aðalstarf hans að fræða um Guð, kenna ákveðnum hóp manna að útbreiða boðskap hans, lækna sjúka til líkama og sálar og hjálpa bágstöddum,stöðva mannvonsku,svik og níðingshátt.Þrátt fyrir það þoldi mannfjöldinn hann ekki. Þeir vildu fá hann til valdabaráttu en þegar það gekk ekki eftir þá vildu þeir láta fjarlægja hann.Þá réðu Rómverjar mestu og til þess að sleppa við mesta glæpinn þá var lýðnum boðið upp á að kjósa um frelsi og líf tveggja manna. Annar var Jesús en hinn var Barrabas, sekur glæpamaður. Á þessum árum voru frammámenn spiltir, siðlausir, klíkusinnaðir eyðsluseggir og trylltu lýðinn með leikum og brauði, öran og æstan af slíku kusu þeir Barrabas en ekki Jesú, hann var deyddur á krossi með tveimur ræningjum eins og kunnugt er.Í dag er stór hópur okkar staddur í svipaðri þjóðfélagslegri krísu. Við þurfum að velja á milli boðskapar Krists og hans sjálfs annars vegar og eyðslu og nautnagræðgi og klíkuháttar hins vegar.

Ísland hefur lengst af verið laust við að halda her og átt friðsöm samskipti innbyrðis og út á við en nú hallar þar undan fæti er vélhjóladeild illvirkja er að setjast hér að til hjálpar þeim skaðvöldum sem hér eru fyrir.Höfnum allri illmennsku og höfum góðvild Krists og frelsun til fyrirmyndar og gæfu. Hann bíður okkar við krossinn og gefur okkur sína einkunn, sem er frelsun að öðru sinni, sem við þurfum ekki að óttast ef við höfum haft boðskap Krists að leiðarljósi.

Séra Hallgrímur Pétursson lagði þessa bæn fram sem ósk um inngöngu í paradís.

Hveitikorn þekktu þitt
þá upp rís holdið mitt
í bindini barna þinna
blessun láttu mig finna.

Værum við ekki fullsæmd af því að taka undir þessa beiðni hans frammi fyrir Jesú við krossinn.

Björn H. Jónsson frá Húsavík, pastor emeritus
________________________________

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3208.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar