Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Gunnar Sigurjónsson

Hvað kemur það okkur við?

„Hvaða máli skiptir það okkur hver er biskup? Hvað kemur það okkur við?“
Með þessum orðum lauk sóknarnefndarformaður úti á landsbyggðinni – sem nú tekur þátt í biskupskjöri í fyrsta sinn – máli sínu er hann lýsti fyrir mér og öðrum samskiptum sínum og sóknar sinnar við yfirstjórn kirkjunnar.

Aðdragandinn var sá að sóknarpresturinn lét af störfum fyrir aldurs sakir og prestakallið var sameinað aðliggjandi prestakalli – og þar á meðal sú sókn sem umræddur sóknarnefndarformaður tilheyrir. Ekki stóð til af hálfu Þjóðkirkjunnar að skipa í embættið að nýju þegar sóknarpresturinn léti af störfum. Það var lagt niður og flutt burt. Og með því hvarf áhugi hins almenna sóknarbarns fyrir nær öllu safnaðarstarfi í þeirri sókn sem sóknarnefndarformaðurinn fer fyrir.
Þetta er ekki ný saga úti á landsbyggðinni.

Þetta gerðist vitanlega ekki á einni nóttu. Áður en sóknarpresturinn lét af störfum lá fyrir sú ákvörðun yfirstjórnar kirkjunnar að leggja embættið niður. Söfnuðurinn, með sóknarnefnd sína í fararbroddi, mótmælti þeirri tilhögun, oftar en einu sinni. Ekki var hlustað á þá umkvörtun. Það var eftir öðru, að mati sóknarnefndarformannsins, því ekki var söfnuðurinn spurður álits þegar ákvörðunin var tekin. Sóknarnefndarformaðurinn upplifði algert tómlæti af hálfu yfirstjórnar kirkjunnar í garð safnaðarins. Það virtist engu máli skipta hvað söfnuðinum sjálfum fannst. Hann var ekki spurður. Verra var að ekki var hlustað á hann þegar fólk innan safnaðarins tjáði hug sinn.

Í máli sóknarnefndarformannsins mátti greina undrun og depurð. Og spurningin sem fylgdi í lokin var fyllilega einlæg: „Hvaða máli skiptir það okkur hver er biskup? Hvað kemur það okkur við?“
Ég tek undir þá spurningu. Ég fann til með sóknarnefndarformanninum og söfnuði hans. Ég upplifði á sjálfum mér þá undrun og depurð sem fylgdi máli hans. Mér sveið sú tilfinning.

Hvar erum við stödd sem kirkja þegar svona er fyrir okkur komið? Á hvaða leið erum við? Vitanlega getur komið að því að breytinga sé þörf innan kirkjunnar af ýmsum ástæðum – og breytinga er þörf. Það getur verið sárt að horfast í augu við breytingar. En að standa að breytingum með þeim hætti sem ég heyrði lýst er ófaglegt, ólíðandi og Þjóðkirkjunni síst til framdráttar.

Sú framganga yfirstjórnar kirkjunnar sem sóknarnefndarformaðurinn greindi frá er lýsandi fyrir þá miðstýringu sem fengið hefur að vaxa upp úr öllu valdi innan Þjóðkirkjunnar. Sú miðstýring hefur leitt til þeirrar fjarlægðar sem ríkir á milli yfirstjórnar kirkjunnar og safnaðanna í landinu. Við það verður ekki lengur unað. Kirkjan er ekki yfirstjórnin ein, ekki biskupinn einn. Það er dapurlegur vitnisburður um stjórnsýslu Þjóðkirkjunnar að kirkjan sem slík er oftar en ekki lögð að jöfnu við fámenna yfirstjórn hennar í Reykjavík.

Söfnuðirnir, sem eru vettvangur hins kirkjulega starfs, verða að eiga sér rödd gagnvart biskupi og yfirstjórn kirkjunnar. Þeir verða að vera samráðsaðilar. Við þá verður að tala. Þeir verða að fá að tala og finna að á þá er hlustað. Kirkjan er umfram allt samfélag fólks. Hún er aldrei meira en það fólk sem hún samanstendur af. Það verður að leysa upp þá miðstýringu sem staðið hefur Þjóðkirkjunni fyrir þrifum í svo mörgu tilliti. Til að gera það þarf að kalla fleiri til samráðs, ákvörðunartöku og ábyrgðar.

Hlutverk Þjóðkirkjunnar er fyrst og fremst að boða fagnaðarerindið um Jesú Krist og bera vilja hans vitni í öllum sínum störfum. Þjóðkirkjunni ber umfram allt að greiða veg Krists á meðal fólks. Allt skipulag hennar hlýtur að taka mið að því.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2121.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar