Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigríður Guðmarsdóttir

Lýðræði og ný þjóðkirkjulög

Nýtt frumvarp um þjóðkirkjulög var lagt fyrir kirkjuþing 2011 og er hinum nýju lögum ætlað að koma í stað laganna um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar frá árinu 1997. Frumvarpið má nálgast hér og núgildandi lög hér. Þar sem ég hef gefið kost á mér til biskupskjörs og lýst því yfir sem sérstöku áhugamáli mínu að dreifa valdi og efla lýðræði innan þjóðkirkjunnar tel ég rétt og skylt að gera stuttlega grein fyrir því hvernig ég telji hið nýja lagafrumvarp samrýmast þessu markmiði. Ég bendi einnig á grein sem ég hef skrifað um valddreifingu og valdeflingu innan Þjóðkirkjunnar og sem nálgast má hér.

Í athugasemdum með lagafrumvarpinu, III. kafla er áréttað orðalag fyrri laga um það að þjóðkirkjan sé sjálfstætt trúfélag fremur en stofnun. Andi frumvarpsins er sá að færa eigi þjóðkirkjuna til eins mikils sjálfstæðis og kostur er. Lagagreinarnar eru því flestar stuttar og vísa til nánari ákvæða í starfsreglum. Nokkur af þeim nýmælum sem fram koma í reglunum eru að a) biskup verði kjörinn til ákveðinna árafjölda, b) kirkjuþing fari með æðsta vald í fjármálum þjóðkirkjunnar og að skerpt skuli á því hvaða ábyrgð forseti kirkjuþings hafi á starfsemi þingsins, undirbúningi og eftirfylgd, c) samstaða þurfi að nást milli kirkjuþings og biskups Íslands um kenningarleg efni. Einnig vil ég nefna það nýmæli að kirkjuþingið setji starfsreglur sjálft um það hverjir eigi að eiga sæti á þinginu.

TAKMARKAÐUR TÍMI Á BISKUPSSTÓLI

Í 30. grein frumvarpsins er gert ráð fyrir að biskup sitji í takmarkaðan tíma á stóli. Ég hef lýst því yfir að ég gefi einungis kost á mér til biskupsembættis til skamms tíma og fái ég brautargengi muni ég beita mér fyrir nýjum biskupskosningum árið 2018. Ég vil með þessu sýna hug minn til þessara ákvæða frumvarpsins og vinna í anda þeirra, enda geri ég ráð fyrir að þau verði orðin að lögum innan sex ára. Ég tel að þjóðkirkjunni sé hagur í því að starfstími biskupa sé takmarkaður við tiltekið tímabil og hygg að sú tilhögun að biskup þurfi oftar að sækja umboð sitt til kjörmanna muni geta leitt til góðrar endurnýjunar og aukinna tengsla milli safnaðanna og biskupsstofu. Á síðasta kirkjuþingi voru samþykktar starfsreglur um að sóknarnefndarformenn um allt land fái atkvæðisrétt í biskupskosningum, svo og varaformenn í stærstu söfnuðunum. Ég er fylgjandi valddreifingu og fagna því þessum nýju kjörmönnum, en tel jafnframt mikilvægt að þeim verði fjölgað enn meira og að allir þjóðkirkjumenn megi kjósa í biskupskosningum. Ég tel að slíka grundvallarskipun lýðræðisins eigi að binda í lögin sjálf og tel því hið nýja frumvarp ekki ganga nógu langt í þessu efni.

AUKIN VÖLD KIRKJUÞINGS

Völd kirkjuþings eru aukin til muna í frumvarpinu og því fært fjárstjórnarvald þjóðkirkjunnar sem í núverandi lögum er í höndum kirkjuráðs undir forystu biskups Íslands (14. grein frumvarps, 27. grein laga). Ég fagna þessari fyrirhuguðu breytingu. Kirkjuþing fer með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar og eðlilegt að mínum dómi að það fari með fjárstjórnarvald. Ég er fylgjandi þeirri athugasemd í skýrslu Ríkisendurskoðunar (sjá hér), að dregið verði úr fjármálaumsýslu biskups Íslands. Ég tel slíka tilhögun ekki felast í því að afmarka veraldleg og andleg svið, en byggist öllu heldur á skynsamlegri verkaskiptingu innan stjórnsýslu þjóðkirkjunnar. Sömuleiðis styð ég það að skerpt sé á  ábyrgð forseta kirkjuþings við undirbúning, starfsemi og eftirfylgd þingsins og tel að þessar lagabreytingar muni efla þingið (12. grein frumvarps).

KENNINGARLEG EFNI

Prestastefna er ráðgjafarsamkoma biskupsins í kenningarlegum efnum samkvæmt núverandi lögum. Í 28. grein núverandi laga er kveðið á um að prestastefna hafi tillögu- og umsagnarrétt um kenningarleg efni, þ.e. kenningu og játningu kirkjunnar, guðsþjónustuhald, prédikun, helgisiði og sakramenti. Í frumvarpinu er hins vegar gert ráð fyrir því að kenningarleg efni skuli sæta umfjöllun í kenningarnefnd og á prestastefnu og að til þess að samþykktir öðlist gildi um kenningarleg gildi þurfi samstöðu biskups Íslands og kirkjuþings (13. grein). Tvöfalt neitunarvald kirkjuþingsmanna og biskups Íslands í kenningarlegum efnum er nýmæli í íslenskum kirkjulögum og mér þykir það ekki stefna í lýðræðisátt. Biskup Íslands ber að sönnu mikla ábyrgð gagnvart kenningu kirkjunnar, en ég tel ekki rétt að einn maður hafi neitunarvald í svo veigamiklum málum. Biskup Íslands þarf á ráðgjöf presta, annarra biskupa og kenningarnefndar að halda nú sem fyrr um kenningarleg efni og því álít ég rétt sé að kenningarleg málefni þróist í lýðræðislegri umræðu vígðra og leikra fremur en með beitingu neitunarvalds.

ATKVÆÐISRÉTTUR

Í 11. grein frumvarpsins er kveðið á um að kirkjuþing skuli með starfsreglum setja ákvæði um kjör til kirkjuþings, seturétt á þinginu og þingsköp. Í núverandi lögum er hins vegar tilgreint í 21. grein hvaða aðilar eiga að eiga rétt til að kjósa til kirkjuþings. Hér þykir mér nýbreytnin ekki vera í þágu lýðræðisins. Þjóðkirkjulögin gegna á hverri tíð nokkurs konar formlegu „stjórnarskrár“-hlutverki og það er mikilvægt að í þeirri stjórnarskrá sé skýrt tekið fram hverjir það eru sem koma að því að ákvarða starfsreglurnar. Formið á að taka fram í lögum til þess að inntakið, starfsreglurnar, sem kirkjuþingið setur séu í anda lýðræðisins. Annars getur kirkjuþingið að mestu leyti sett sjálfu sér form og jafnvel staðið í vegi fyrir því að fleiri megi kjósa til þingsins. Með þessum varnaðarorðum er ég ekki að vantreysta lýðræðisást núverandi kirkjuþingsmanna. Öllu heldur vakir fyrir mér að benda á mikilvægar grundvallarreglur um form og lýðræði, sem gilda þurfa í nútímalegri kirkju. Ég vil að allir þjóðkirkjumenn fái að kjósa til kirkjuþings, bæði hina vígðu þingmenn og hina leiku. Þannig tel ég að best verði hægt að tryggja þátttökulýðræði í söfnuðum landsins og að fólk finni að það beri ábyrgð á framtíð Þjóðkirkjunnar.

Af ofangreindu má sjá að ég styð ýmis grundvallarviðmið hins nýja frumvarps um sjálfstæði þjóðkirkjunnar gagnvart ríkisvaldi og að völd lýðræðislegs kirkjuþings verði sem mest. Ég styð breytta verkaskiptingu milli biskups Íslands og kirkjuþings og að kirkjuþing fái fjárstjórnarvald. Ég er fylgjandi því að biskup Íslands sé kjörinn til tiltekins tíma og hef að eigin frumkvæði lýst því yfir að ég muni sitja skamma stund á stóli til þess að hægt sé að kjósa nýjan biskup að sex árum liðnum eftir nýjum lagaramma. Ég tel að greinin um neitunarvald sé skref afturábak, vegna þess að hún leggur of mikið kenningarlegt vald á hendur hinna fáu í stað þess að treysta umsögnum og  ráðgjöf prestastefnu, kenningarnefnd og biskupafundar og síðan lýðræðislegri umræðu á kirkjuþingi. Ég álít að þjóðkirkjulagafrumvarpið nýja þurfi að ganga lengra í veigamiklum málum í átt til lýðræðis og nefni sérstaklega að binda þurfi í lög hverjir það eru sem hafa atkvæðisrétt á kirkjuþingi.

Í samfélaginu eru auknar kröfur uppi um gagnsæja og lýðræðislega stjórnarhætti, þar sem fjöldinn komi að ákvörðunum. Þjóðkirkjan er stærsta fjöldahreyfing á Íslandi og á að vera í fararbroddi hugsjóna um góða stjórnarhætti og stefnumótun. Það gerum við með því að byggja upp nútímalega kirkju þar sem stjórnsýsla og veigamiklar ákvarðanir eru bornar uppi af myndugu fólki.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Lýðræði og ný þjóðkirkjulög”

  1. » Það er greinilega líf í þjóðkirkjunni Grafarholtsbúinn sínöldrandi skrifar:

    […] Væntanlega eru þeir flestir fulltrúar nýrra og heiðarlegra viðhorfa en ekki fulltrúar fyrir gömlu leyndarhyggjuna. Þ.e.a.s., að pukur sem vissulega hefur einkennt mjög starfshætti þjóðkirkjuna að mata almennings og látbragðsleikir sé eitthvað sem verði eitthvað sem verði skilið eftir í fortíðinni og að næsti leiðtogi verði leiðtogi meðal jafningja í starfi þjóðkirkjunnar, verði m.ö.o. mannleg vera en ekki Guðleg og með eðlilega framkomu. M.ö.o. að það leki ekki af honum sýndarmennskan sem svo mjög hefur einkennt allt látbragð síðustu biskupa. * Ég segi þetta, því mér finnst þessir karlar hafi sýnt þannig látbragð í allri háttsemi sinni, sem þeir séu að láta okkur sauðsvört sóknarbörnin halda að þeir séu einhverjar Guðlegar verur af öðrum heimi. Ég vil vera talsmaður lýðræðislegra vinnubragða og finnst að kirkjan eigi að hafa forystuhlutverki að gegna í þeim efnum. Það var mikil afturför fyrir almenning þegar prestkosningar lögðust af og auðvitað ættu sóknarprestar að vera kosnir til starfa t.d. á 10 til 12 ára fresti. * Sóknarbörn sem hafa náð kosningaaldri yrðu að skrá sig á kjörskrá til að geta kosið. Strangar reglur yrðu að vera um kosningafyrirkomulagið og þannig komið í veg fyrir að menn geti rifið niður skóinn á hver á öðrum. Sömu reglur ættu að gilda um kjör biskupa. * Þegar hafa birst áhyggjur presta um að nú byrjaði niðurrifsstarfsemin því nú ætti að kjósa biskup. Þessi prestur er að tala um vinnubrögð presta í kosningum. Þá hef ég heyrt annan prest sem ég ber mikla virðingu fyrir, vill meina að almenningur hafi ekki vit á því að kjósa biskup. * Allt eru þetta hundgömul og andlýðræðisleg rök sem hafa verið fyrir löngu afsönnuð. * Einmitt þar sem lýðræðið hefur fengið að þróast mest og best, hefur verið mesta besta velmegunin með þjóða. Einnig mesta réttlætið. Það sama á við um þjóðkirkjuna. […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4717.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar