Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir

Áskorun og tækifæri

Nei, ég er ekki að skrifa um biskupsval, þó að einhverjum gæti þótt titilinn benda til þess. Áskoranir og tækifæri eru víðar í kirkjulegu starfi og ein af stóru áskorununum sem mætir okkur sem kirkju er samkirkjulegt starf.

Alþjóðleg samkirkjuleg bænavika fyrir einingu kirkjunnar stendur nú yfir um allan heim. Hún er haldin árlega í janúar. Þessa viku sameinast kristið fólk um allan heim í bæn fyrir einingu. Bænavikan er undirbúin af kirkjum sem tilheyra samkirkjulegum samtökum er nefnast Alkirkjuráðið (World Council of Churches) og kaþólsku kirkjunni. Kirkjum á ákveðnu svæði heims er falið að undirbúa efnið og árið 2012 kemur það frá Póllandi þar sem fólk frá ýmsum kirkjudeildum mótmælenda, kaþólskum kirkjum og rétttrúnaðar, unnu að undirbúningi. Þemað er „Sigur Krists umbreytir okkur!“ og kemur úr I. Korintubréfi, 15:51-58 og vísar í sögu Póllands og orðræðu sigurs og ósigurs. Um allt þetta má lesa nánar á vef bænavikunnar.

Samkirkjulega hreyfingin, sem meðal annars birtist í Alkirkjuráðinu, varð til á síðustu öld og átti meðal annars rætur í starfi fólks á kristniboðsakrinum. Það reyndist nefnilega erfitt fyrir kristniboðana að útskýra muninn á kirkjudeildunum fyrir hinum nýkristnu - mun, sem iðulega átti rætur í stjórnmálasögu Evrópulanda. „Það er fáránlegt fyrir okkur að vera bundin af deilum í Evrópu fyrir mörg hundruð árum“, sagði fólk í Suður Afríku sem undirbjó bænavikuna fyrir nokkrum árum.

Það var því þessi nauðsyn, sem og hugsjón margs kirkjufólks sem saman mynduðu Alkirkjuráðið og önnur svæðisbundin samkirkjuleg samtök. Markmiðið er alltaf tvíþætt: Samræða og samstarf. Markmið samræðunnar er að skoða kenningarleg ágreiningaratriði og reyna að ná samstöðu um þau. Á því sviði unnust merkilegir sigrar á síðustu öld, svo sem sameiginleg ályktun um skírn, kvöldmáltíðina og embættin sem hér á landi var yfirleitt kölluð eftir borginn þar sem hún var undirrtið árið 1982, Lima skýrslan. Annar merkur áfangi var sameiginleg yfirlýsing kaþólsku kirkjunnar og lúterskra kirkna árið 1999 um réttlætingu af trú. Með síðarnefndu yfirlýsingunni var stigið stórt skref og nær 500 ára ásteytingarsteinn fjarlægður.

Samstarf á samkirkjulegum grunni miðar ekki endilega að því að ná saman um deilumál heldur að sameinast um það sem við getum sameinast um og starfa saman á þeim sviðum. Af þeim toga hefur stærstur hluti samkirkjulegs starfs verið hér á landi. Þetta starf fer vaxandi, bæði með fjölgun í formlegum nefndum eins og samstarfsnefnd kristinna trúfélaga og með auknu grasrótarstarfi, svo sem þverkirkjulegum bænahópum.

Þær raddir heyrast æ oftar í Evrópu að kristið fólk hafi ekki efni á öðru en að starfa saman í heimi þar sem kristin trú eigi undir högg að sækja. Ef til vill fer það bráðlega svo í Evrópu að fólk sé ýmist álitið kristið eða ekki, en enginn hafi áhuga á að setja sig inn í mörg hundruð ára gamlar deilur sem leiddu til nýrra kirkjudeilda.

Þau sem taka þátt í samkirkjulegu starfi, á heimavelli eða erlendis eru jafnan sammála um að það sé lærdómsríkt og gefandi. Bænavikan í janúar er áminning um að samkirkjulegt starf á erindi við okkur öll. En það er ekki bara í janúar sem við getum stundað samkirkjulegt samstarf. Það er í boði allan ársins hring að heimsækja nágrannakirkjur og trúfélög, ræða saman, koma á sameiginlegum verkefnum og finna hve það auðgar okkur öll að sjá hlutina með augum nágrannans.

Um höfundinnEin viðbrögð við “Áskorun og tækifæri”

  1. Samkirkjumál heima og að heiman | Þjóðkirkjan skrifar:

    […] Málþing um samkirkjumál verður haldið í Seltjarnarneskirkju þriðjudaginn 24. janúar kl. 16.00. […]

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2918.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar