Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Katrín Ásgrímsdóttir

Virðing og réttlæti

Í kvöld ætlum við að fjalla um hugtökin réttlæti og virðingu. Bæði þessi hugtök má skilja og tileinka sér á mismunandi hátt; en eins og Gunnar Hersveinn fjallar um í bók sinni er þau líka tengd og þau byggja á kærleikanum og gullnu reglunni sem er jú ein helsta undirstaða kristinnar trúar. Ef við berum kærleika til fólks virðum við það sjálfkrafa og ef við sýnum fólki virðingu þá er líklegra að við sýnum því einnig réttlæti.

En það er líka til réttlæti sem byggir ekki endilega á virðingu. Í Íslandskukkunni lætur Halldór Laxnes Jón Hreggviðsson segja þessi fleygu orð „vont er þeirra ranglæti, verra er þeirra réttlæti“. Þetta minnir á það sem Jesú segir eins og fram kemur í 5. Kafla Matteusar.

„Ég segi yður: Ef réttlæti yðar ber ekki af réttlæti fræðimanna og farísea komist þér aldrei í himnaríki“.

Það sem er talið til réttlætis í samfélaginu getur aldrei verið óumdeilt. Sú réttlætistilfinning sem er ráðandi á hverjum tíma er alltaf hægt að deila um og það er mjög mikilvægt að hlusta eftir gagnrýnisröddum þar um. Á dögum Jesú hefur það örugglega þótt ákveðin uppfylling réttlætis að grýta konur sem voru taldar hafa drýgt hór. Og það þótti niðurlægjandi fyrir trúaðann mann að fara og snæða með syndurum og tollheimtumönnum. Í dag mætti eflaust skipta út orðinu tollheimtumaður fyrir útrásarvíking og í dag telja sumir það jafnvel réttlætis mál að grýta illu umtali og rógi í fólk sem hefur verið áberandi í viðskiptalífi eða stjórnmálum. Þessu viðhorfi ögrar Jesú. Hann mætir öllum þar sem þeir eru og hvetur til yfirbótar og fyrirgefningar

Í 18. Kafla Matteusar finnum frásögn þessu tengda. Í upphafi hennar spyr Pétur Jesús hversu oft hann eigi að fyrirgefa bróður sínum ef hann misgjörir við mig. 7 sinnum spyr Pétur. Nei 77 sinnum svarar Jesú og segir svo þessa dæmisögu
„Því að líkt er um himnaríki og konung sem vildi láta þjóna sína gera skil. Hann hóf reikningsskilin og var færður til hans maður er skuldaði tíu þúsund talentur.  Sá gat ekkert borgað og bauð konungur þá að hann skyldi seldur ásamt konu og börnum og öllu sem hann átti til lúkningar skuldinni. Þá féll þjónninn til fóta honum og sagði: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér allt. Og herra þjónsins kenndi í brjósti um hann, lét hann lausan og gaf honum upp skuldina. Þegar þjónn þessi kom út hitti hann einn samþjón sinn sem skuldaði honum hundrað denara. Hann greip hann, tók fyrir kverkar honum og sagði: Borga það sem þú skuldar! Samþjónn hans féll þá til fóta honum og bað hann: Haf biðlund við mig og ég mun borga þér. En hann vildi það ekki, heldur fór og lét varpa honum í fangelsi uns hann hefði borgað skuldina. Þegar samþjónar hans sáu hvað orðið var urðu þeir mjög hryggir og sögðu herra sínum allt sem gerst hafði. Konungurinn kallar þá þjóninn fyrir sig og segir við hann: Illi þjónn, alla þessa skuld gaf ég þér upp af því að þú baðst mig. Bar þér þá ekki einnig að miskunna samþjóni þínum eins og ég miskunnaði þér? Og konungur varð reiður og afhenti hann böðlunum uns hann hefði goldið allt sem hann skuldaði honum. Þannig mun og faðir minn himneskur gera við yður nema þér fyrirgefið af hjarta hvert öðru.“

Í þessari dæmisögu er lögð áhersla á að fyrirgefning og elska gagnvart náunganum eigi ætíð að vera leiðarljós okkar. En hún sýnir líka þá hlið að þegar menn bregðast trúnaði og ætlast til að sér sé sýnd miskunn en sýna ekki sjálfir slíka miskunn; þá brýst út þessi réttláta reiði gagnart þeim sem bregst og hugsar aðeins um sjálfan sig.

Réttlæti snýr að hverju og einu okkar. Við erum kölluð til að sýna náunganum réttlæti og getum ekki ætlast til þess að okkur sé sýnt réttlæti nema við sýnum öðrum réttlæti, hvaða hug sem við berum til hans. Við getum horft á réttlætið eins og náttúruvernd. Við getum tekið þá afstöðu að náttúruvernd sé einkum á ábyrgð yfirvalda og snúi að málefnum sem eru utan okkar persónulega áhrifasvæðis. En við getum líka horft í eigin barm og ákveðið sem svo að til að sýna náttúrunni virðingu þá sé mikilvægast að ganga vel um, flokka rusl og láta okkur náttúruna varða í okkar persónulega lífi.

En það er ekki alltaf auðvelt að fyrirgefa þeim sem hafa beitt mann óréttlæti, það þekkja þeir sem hafa tekist á við slíkt. Oft þurfum við hjálp til að geta tekist á við það. En þeir sem hafa tekist á við slíkt þekkja hversu miklu oki er af manni létt þegar reiði og biturleiki eru sigruð með hjálp fyrirgefningarinnar.

Mér hefur fundist að fyrirgefningin og áhrifamáttur hennar fari ekki hátt í umræðunni dagsins í dag um réttlæti. Fyrirgefning og kærleikur eru þó sannarlega bestu vopn okkar gegn ranglæti og dómhörku

Jesú beinir boðskap sínum beint inn í hjarta okkar. Því Guðs ríki er innra með hverju okkar og þann garð þurfum við að rækta og næra kærleikann og réttlætiskenndina innra með okkur og virðingu fyrir samborgaranum

Í nýja testamentinu er ekki talað mikið beint um virðingu en þessi frásögn úr Lúkasarguðspjalli gefur okkur innsýn inn í boðskap Jesú og hug Drottins til þess hvernig okkur ber að breyta til að öðlast virðingu í Guðs ríki
„Lærisveinarnir fóru að metast um hver þeirra væri talinn mestur. En Jesús sagði við þá: „Konungar þjóða drottna yfir þeim og valdhafar þeirra kallast velgjörðamenn. En eigi sé yður svo farið heldur sé hinn mesti yðar á meðal sem væri hann yngstur og foringinn sem þjónn. Því hvort er sá meiri sem situr til borðs eða hinn sem þjónar? Er það ekki sá sem situr til borðs? Samt er ég meðal yðar eins og þjónninn“.

Við erum hvött til að þjóna hvort öðru. Hvort sem við erum leiðtogar eða lægra sett þá er þjónustan hlutverk okkar. Því ber líka að veita athygli að það er mikil áhersla á auðmýkt í öllum samskiptum. Auðmýkt hefur ekki alltaf verið hátt skrifuð í okkar samfélagi. Ég tek eftir því í umfjöllun Gunnars Hersveins að hann telur auðmýkt eiginlega ákveðna andstæðu við virðingu. Hann segir virðingu vera mitt á milli hroka og auðmýktar Það er ekki alveg í takt við boðskap Drottins. Það kemur enn betur fram í frásögn í 18. Kafla Matteusar

„Um þetta leyti komu lærisveinarnir til Jesú og spurðu: „Hver er mestur í himnaríki?“ 
Jesús kallaði til sín lítið barn, setti það meðal þeirra og sagði: „Sannlega segi ég yður: Þér komist aldrei í himnaríki nema þér snúið við og verðið eins og börn. Hver sem auðmýkir sig og verður eins og barn þetta, sá er mestur í himnaríki. Hver sem tekur við einu slíku barni í mínu nafni tekur við mér“.

Það er í gegnum auðmýkt og kærleika sem við lærum virðingu. Auðmýktin er nauðsynleg til að verja okkur gegn hrokanum og of miklu sjálfstrausti sem dæmin hafa sýnt að vera okkur mjög auðveldlega að falli.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Virðing og réttlæti”

  1. Pétur Björgvin Þorsteinsson skrifar:

    Hjartans þakkir fyrir þennan pistil Katrín, mér þótti hann þarft og gott innlegg í umræðuna hér á þjóðgildakvöldi í Glerárkirkju í gærkvöldi.

  2. Ragnar Kristján Agnarsson skrifar:

    Góð umfjöllun til íhugunar. Þá er frá að segja að í þeirri mynd sem ég sé “virðingu og réttiæti”, að þá er bakgrunnurinn ávallt sannleikur.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4194.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar