Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Dalla Þórðardóttir

Hófsemd

Maðurinn var yfirkominn. En augu hans opnuðust. Hann var í suðurgöngu í Róm, hét Marteinn Lúter, munkur í sérlegum erindagjörðum og undraðist fáfengileik aflátssölunnar. Hann , eins og margir á undan honum og á eftir hóf að hreinsa kirkjuna sína. Það endaði með því að hann var rekinn, og varð að yfirgefa kirkjuna, sem hafði verið honum allt.

Á undanförnum misserum voru þau mörg sem voru yfirkomin af græðginni, vitleysunni, blekkingunni. En við vildum ekki hlusta.Það var verið að reyna að hreinsa og snúa á réttan veg aftur.En nú erum við fleiri farin að hlusta á þessar raddir og því eins var Þjóðfundurinn haldinn. Við erum á leiðinni.

Í kvöld fjöllum við um hófsemd og Gunnar Hersveinn orðar það vel, álít ég, þegar hann segir að enginn vilji bjóða hófsemdinni upp í dans, hún er ekki nógu skemmtileg og spennandi. Hún situr ein eftir þegar dansinn dunar. Hófsemdin er ekki vinsæl þegar í boði er framsækni og oft er sá sem aðhyllist hófsemd álitinn dragbítur á framfarir. Þeir sem fylgja henni, eru leiðinlegir, nískir, óframfærnir og hafa klárlega orðið undir í lífinu. .”

Þetta er vel orðað og kemur kunnuglega fyrir.

Ég þekki góða bændur , sem alla tíð hafa rekið sitt bú vel; bara framkvæmt og keypt þegar fé var til, en þeirra útihús og girðingar hafa sannarlega ekki verið jafn glæsilega og sumra annarra. Sömuleiðis hafa þeir ekið um á sæmilegum bíl, þangað til vélin er útgengin og ekki keypt fyrr en nauðsyn var á, og þá bara tekið út af bókinni sinni. Þeir hljóta aðdáun suma en meðaumkun annarra fyrir aumingjaskap.
Svona lítur hófsemd út.

Ég er guðfræðingur og þegar ég íhuga hófsemd út frá því sem Biblían kennir mér um Guð og heiminn, sem hann hefur gefið okkur til íbúðar og varðveislu, verð ég tvístígandi.
Þegar Lúter gekk áfram sinn veg, rakst hann á hindrun.
Orð Guðs sýndi honum fram á það að sú endurreisn og þau gildi sem kollegar hans þar voru reiðubúnir að taka upp að nýju gengu ekki nógu langt, þau voru ekki nógu háleit.Hann komst að því að til þess að lifa og starfa í ríki Guðs , fyrir annað fólk, er það náðin ein, sem dugar, að Guð gefur okkur hæfileikana,það er trúin ein á Guð sem kennir rétta breytni við aðra, það er Jesús einn sem er okkur fyrirmynd.
Hófsemd og réttlæti og kærleikur og virðing , gildin sem þjóðfundurinn vill að við höfum að leiðarsnúru, eru okkur mikilvæg, en ég held því fram að án trúarinnar skorti þessi gildi grundvöll. Án trúarinnar, villumst við fljótt af þessum ákjósanlega vegi af því að eigin hagur er okkur alltaf næstur.
Dæmi:
Ég las nú eftir jólin bókina” Svar við bréfi Helgu” af því að henni hafði verið mjög hrósað og ég hvött til að lesa hana.
Og það var skemmtilegt. Það er hlýlegt fyrir okkur sem búum í sveit og þau sem þaðan eiga góðar minningar að lesa um sumarkvöldin björtu , um sauðburð um heylyktina, um ástina sem vaknar og varpar birtu yfir hugskot og daga þeirra sem hún nær að verma.
Þegar á leið lesturinn fór ég þó að finna til vanlíðunar, þetta var eins og að horfa á Hitchcock mynd þar sem tignarlegir hvítir fuglar skjóta samt skelk í bringu, fullkomlega gott boðar illt. Og er lengra leið á, lagði ég frá mér bókina og sagði upp úr eins manns hljóði við spegilinn: “Já, ekki er ég undrandi á því að þjóð sem alið hefur af sér svona menn skuli hafa endað í hruni.”
Á bókarkápu stendur þetta :Aldraður bóndi skrifar bréf til ástkonunnar sem honum bauðst að fylgja til borgarinnar forðum tíð. Gerði hann rétt í að taka sveitina fram yfir kærleikann?”
Í mínum lestri og skilningi stóð valið ekki á milli ástar til Helgu og sveitarinnar.
Svarið var alltaf gefið.
Það er í kjarnasetningu bókarinnar.
Á bls.54- 55 íhuga maðurinn kosti sína; að fara með elskunni sinni til nýs lífs eða vera og þá hugsar hann: “ Þú vildir burt og ég forðagæslumaður Hörgárhrepps, Bjarni Gíslason á höfuðbýlinu Kolkustöðum , átti að koma með þér “
Hann íhugar þetta en segir svo, á sömu síðu:
“ Síðan mundi ég hver ég var. Hvar ég var “
Val hans er ítrekað síðar, á bls. 78: “ Hér í sveitinni hef ég verið mikilvægur. Og hafi ég ekki verið mikilvægur,þá hefur mér fundist ég vera það. Á þessu er þungvægur munur. Hér hef ég séð afrakstur handa minna. Ég var innan við fimmtugt þegar ég gekk á fund Jóns gamla Eysteinssonar bankastjóra í Búnaðarbankanum og gerði upp öll mín lán. “
Hann Bjarni Gíslason, forðagæslumaður, gat auðvitað ekki yfirgefið þess tilveru, þar sem hann var maðurinn. Maðurinn sem allir þekktu, þar sme hann fór um, maðurinn sem engum skuldaði neitt .
Það má vel segja að þetta sé einmitt hófsemd. Þarna voru nú ekki skuldirnar og ekki græðgin eða óreiðan.
Ég segi að þessi maður hafi sýnt of mikla hófsemd, að þau mistök sem hann gerði í lífi sínu hafi stafað af naumhyggju og hófsemd og skorti á því að finna lífið hreina í fullri nægð Guðs.
Það var af því að hann var blindaður af því að vera Bjarni Gíslason, það var hans himinn að vera forðagæslumaðurinn, hann gat ekki fyrir neitt misst það að vera þar sem allir vissu að hann stóð við orð sín og hafði gert upp allar skuldir sínar.
Hann skorti þá miklu og hóflausu framtíð sem felst í 1. boðorðinu. “ Ég er Drottinn Guð þinn “
Þegar við eigum Guð að Guði vitum við , eins og Abraham, að það er nýtt land framundan af því að það er miklu meira en nóg að eiga Guð, að eiga sína tilveru bara er hverfult og þröngt.Það sanna nú dæmin mörgu.
Þetta skorti Bjarna Gíslason og það var þess vegna sem hann átti ekki heldur þau gildi, sem þjóðfundurinn vill gefa okkur á ný.
Hann var ekki heiðarlegur , ekki við Unni konuna sína , sem hann sveik og hélt fram hjá og ekki við
Helgu sem hann sendi eina suður.
Hann sýndi þeim ekki virðingu. Hann sýndi ekki kærleika og var ófær um að hjálpa konunni sinni í hennar miklu sorg svo að hún leitaði inn í myrkur skápsins, á sínu eigin heimili, þar sem hún átti að fá skjól.

Og hvað segir Jesús um hófsemd?
Fyrsta kraftaverk sitt vann hann reyndar í hófi en í annarri merkingu, það var í veislu og þar beitti hann engu hófi eða hófsemd heldur fór hann , þegar veislan stóð sem hæst eða líklega var heldur farið að líða á hana, en þá tekur hann sig til og býr til enn meira vín, og miklu betra en það sem fyrr hafði verið borið á borð.
Seinna, þegar mannfjöldinn hafði ekki hugsað fyrir nesti bjó hann til úr litlu svo mikið að yfir borð flaut.
Þegar hann lá í jötunni, Guð kominn til jarðar, sungu himnarnir og englar sögðu: “ Dýrð sé Guði í upphæðum því að hann vill færa sínu fólki yfirfljótandi nægð og vellíðan “ en svo hefur orðið velþóknan verið þýtt.
Líf með Guði er nefnilega full nægð, mikið, gleði, listisemdir.

Hófsemd er vissulega eitt af því góða sem þar þarf að vera, en við þurfum að byrja annars staðar.Og ég held því fram að til þess að kunna að iðka hófsemd þurfi undirstaðan fyrst að verða lögð.

Skrásetjari bókarinna Gunnar Hersveinn segir að gildi séu heimalærdómur og heimanmundur, sem hver kynslóð gefur annarri og í kaflanum og þar er einmitt komið að trúnni. Og þá kæmumst við áfram á veginum, eins og hann lýsir honum á bls. 163.
“ Heimur án hófsemdar yrði heimur glundroða. Hófsemdin er því ósýnileg miðja bókarinnar, hún er stillingin sem verður að vera í lagi til að allt annað gangi fram.”

Ég hef haldið því fram í kvöld að við þurfum að leggja grundvöll trúarinnar og að þessi trú kenni okkur ekki hófsemd.
Gunnar Hersveinn skrifar:” Markmið hófsemdarinnar er ekki aðeins að róa eirðarlausar manneskjur. Ekki aðeins að fækka óseðjandi löngunum , þrám og hvötum. Heldur fyrst og fremst að vera kostur sem eykur líkurnar á því að maðurinn þroski gáfur sínar vel og takist að verða sá sem hann vill verða.” Bls. 146.

Og þarna getum við komist á sömu blaðsíðu, þarna er kominn samhljómur við sjalóm og að lifa í fullri nægð.

Og munum að Guð gefur gáfur og styrk . Framtak, dirfska, draumar eru gjafir , vöggugjafir til þess að breiða ást Guðs út með virðingu, jafnrétti og kærleika og yfirfljótandi gleði.

Lokaorð Gunnars eru að tilraunin um að móta nýtt og gott þjóðfélag standi yfir og að hún sé þess virði.

Tökum loforð Guðs trúanlegt um að tilgangur okkar sé , allra hér á jörð, að lifa mikla gleði, ofgnótt vonar. Þá vitum við að við þurfum ekki að standa vörð um það sem okkur hlotnast, við eigum að láta það breiðast til annarra.Það er að lifa í fullri gnægð.
Og þetta er tilraunarinnar virði.

Flutt á þjóðgildakvöldi í Glerárkirkju.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Hófsemd”

  1. Hulda Hrönn M. Helgadóttir skrifar:

    Frábært.

  2. Pétur Björgvin Þorsteinsson skrifar:

    Hjartans þakkir Dalla fyrir þitt áhugaverða og þarfa innlegg á þjóðgildakvöld í Glerárkirkju. Áminning þín um að Jesús hafi breitt vatni í vín á tímapunkti þegar allir í veislunni höfðu fengið hóflega nóg að drekka, er mér mikið umhugsunarefni í viðleitni minni að skilja hvað felist í hófsemd.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3665.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar