Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Arna Grétarsdóttir

Sigurmyndir

Í gær varð norska landsliðið í handbolta kvenna heimsmeistarar, þar með var sigurþrennan fullkomnuð. Liðið hampar einnig Evrópu- og Ólympíutitlinum. Þetta sigursæla lið hefur íslenski þjálfarinn, Þórir Hergeirsson leitt í nokkurn tíma með þessum frábæra árangri. Liðið uppskar verðugan sigur og launin voru langþráð hvíld yfir jólin eftir erfiði og fjarveru frá fjölsyldu og vinum. Þórir sagði í viðtali eftir leikinn að allt væri mögulegt ef trúað er á það sem verið er að gera.

Lítill drengur háir baráttu upp á líf og dauða inn á spítala. Hjartað og lungun veik og læknar gefa litla sem enga von. En þar sem er líf þar er von. Vonin stækkar og verður að fullvissu trúar í sigrinum þegar boð kemur frá læknum að það versta sé yfirstaðið. Lífið fær sigur í þetta sinn. Foreldrarnir hvísla þakkarorð til himins. Drottinn lofaður í auðmýkt og þakklæti er gengið verður inn kirkjugólfið um jólin.

Gömul kona dó eftir langt dauðastríð. Þegar hún var við meðvitund þráði hún dauðann, það hafði hún gert í þó nokkurn tíma. Eina ósk og bæn gömlu konunnar var að fá að fara heim til Guðs. Nóg var komið af þjáningu, veikindum og baráttu. Guð gaf henni hvíldina og sigurinn.

Hjón hafa lengi þráð að eignast barn. Þau fá gleðifréttir, konan er þunguð. Barn myndi fæðast með hækkandi sól. Guð hafði heyrt grátbeiðni þeirra. Þau höfðu sigur, þau gáfust ekki upp og misstu ekki vonina og trúna.

Fjölskylda í miklum fjárhagsþrenginum missir aleiguna og vinnuna. Í nýju landi, í nýrri vinnu, í algjörlega nýjum aðstæðum með nýjum verkefnum uppgötva þau smám saman að kærleikurinn, nándin og samheldnin hefur aldrei verið meiri. Eftir þrengingar og erfiði uppskáru þau sigur kærleikans.

Guð séu þakkir, sem gefur okkur sigurinn fyrir Drottinn vorn, Jesú Krist! (1.Kór. 15.57).

Það er auðvelt að halda trúnni og voninni þegar sigurmyndir lífsins renna hjá.
Það er áskorun að halda trúnni og voninni þegar tapmyndir lífsins herja á.

Barnið í Betlehem er ekki lengur ósjálfbjarga í jötunni, heldur hefur vald til að frelsa og sigra.

Verður þetta á vörum þínum þessi jólin?
Allt megna ég fyrir hjálp hans sem mig styrka gerir. (Fil.4.13).
Bæði að sigra og tapa.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2279.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar