Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Gunnar Kristjánsson og Kristín Þórunn Tómasdóttir

Boltann til þjóðarinnar

Framundan er kjör til embættis biskups Íslands, Karl Sigurbjörnsson hefur tilkynnt að hann láti af embætti á næsta ári. Biskupskjör markar ætíð tímamót í lífi kirkju og þjóðar og miklu máli skiptir hvernig það fer fram.

Margt hefur breyst í umhverfi þjóðkirkjunnar síðustu 15 árin og nýs biskups bíða ögrandi verkefni. Innleiða þarf ný vinnubrögð í stjórnsýslu og samskiptum kirkjunnar og snúa við þróun síðustu ára: draga úr stofnanavæðingu þjóðkirkjunnar og endurvekja traust þjóðarinnar á kirkjunni.

Nýr biskup mætir einnig til leiks í gjörbreyttu viðhorfi til biskupsembættisins og hlutverks þess. Nýlega hafa hugmyndir um aðskilnað andlegrar og veraldlegrar umsýslu biskups fengið byr undir báða vængi, m.a. í ábendingum Ríkisendurskoðunar um aðgreiningu starfsþátta kirkjunnar og breytingar á skipan kirkjuráðs. Það styrkir biskup í sessi sem leiðtoga og hirði og léttir af embættinu ábyrgð á fjármálum og framkvæmdastjórn.

Núverandi starfsreglur þjóðkirkjunnar gera ráð fyrir að allir prestar og örfáir leikmenn kjósi biskup Íslands. Þessu þarf að breyta. Aukin lýðræðisvitund almennings og staða kirkjunnar í samtímanum krefst þess að mun fleiri, helst allir sem láta sig kirkjuna varða, komi að því að velja biskup Íslands. Við spyrjum einnig hvort ekki sé eðlilegt í kirkju sem vill vera þjóðkirkja að sem flestir fái að koma að vali á æðsta embættismanni hennar.

Nú stendur kirkjuþing yfir. Það fer með æðsta vald í málefnum þjóðkirkjunnar innan lögmæltra marka. Kirkjuþing getur breytt starfsreglum um biskupskjör.

Við skorum á kirkjuþing að nota tækifærið sem nú blasir við og breyta starfsreglum á þann veg að fleiri velji næsta biskup.

Boltinn er hjá kirkjuþingi. Næsta sending skiptir miklu máli.

Höfundar eru prestar

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3272.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar