Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Íris Kristjánsdóttir

Þáttur foreldra í fermingarfræðslu

Fermingarskóli á Vestmannsvatni

Í fermingarfræðslunni er mikið lagt upp úr því að þátttaka í fræðslunni sé val fermingarbarnsins sjálfs. Að sama skapi er það ákvörðun hvers og eins að fermast, að svara spurningunni játandi um að gera Jesú Krist að leiðtoga lífsins. Von og bæn okkar sem stöndum að fermingarfræðslu er vitaskuld að fermingarbarnið taki þátt í fræðslunni af áhuga og svari fermingarspurningunni af heilum hug og trúu hjarta. Reynslan og kynnin við fermingarbörnin í gegnum tíðina hefur sannarlega sýnt að svo sé, þó að vissulega hafi einnig áhrif á ákvörðun þeirra aðrir þættir sem tengjast hátíðarhöldunum í kringum fermingu og jafnvel hug vina og ættingja í kring.

En það má ekki gleyma að þrátt fyrir að það að fermast sé ákvörðun fermingarbarnsins þá er það ekki einkamál þess. Ferming er málefni og verkefni allrar fjölskyldunnar. Þar skiptir ekki síst máli stuðningur og afstaða foreldra til þessarar ákvörðunar, að barnið finni að foreldrar þess sýni áhuga á því sem það er að gera í fermingarstarfinu og taki þátt í ákveðnum þáttum þess. Þátttaka foreldra er sérstaklega mikilvæg í tengslum við helgihaldið í kirkjunni, að foreldrar mæti með börnum sínum í messur og aðra þætti kirkjustarfsins. Með því koma foreldrar jákvæðum skilaboðum til barna sinna um að þau styðja ákvörðun þeirra og vilja fylgja þeim eftir í fræðslunni. 13 árum áður báru foreldrarnir börnin sín til skírnar og sýndu þar vilja sinn að barnið tilheyrði kirkjunni. Vissulega hefur skírnin mismunandi þýðingu fyrir okkur en umfram allt er hún innganga í kristinn söfnuð. Á leið sinni frá skírn til fermingar er mismunandi hversu vel börnin ná að kynnast kirkju og kristni en einmitt af þeim sökum er mikilvægt að þau finni áhuga og stuðning frá foreldrum þegar þau svo sjálf hafa tekið ákvörðun um að fylgja Kristi.

Í tengslum við fermingarfræðslu bjóða margir söfnuðir upp á fundi og fræðslu fyrir foreldra til marks um vilja kirkjunnar að hjálpa foreldrum að styðja við barnið í fermingarfræðslu. Tilgangurinn snýr einnig að því að kynna kirkjustarfið fyrir foreldrum með það að markmiði að fjölskyldan í heild sinni geti til frambúðar tengst kirkjunni á einn eða annan hátt. Mér er minnistætt samtal sem ég átti við móður sem var þá að fylgja öðru barni sínu í fermingarfræðslu. Hún sagði við mig hversu gott henni þætti að koma í helgihald kirkjunnar með barni sínu, hefði saknað þess síðan hún fylgdi sínu elsta barni í kirkjuna, en loksins núna hefði hún aftur afsökun til að mæta í kirkju. Mér fannst þetta mjög merkilegt að heyra, að hún þyrfti afsökun til að mæta í kirkju, en kannski er þetta einmitt það sem við glímum við í nútíma samfélagi.

Það hlýtur því að vera markmið okkar með öllu kirkjustarfi, ekki bara fermingarfræðslu, að gera starfið í kirkjunni, af hvaða toga sem það er, aðgengilegt fyrir alla meðlimi fjölskyldunnar, frá vöggu til grafar, svo þau öll sem fjölskylduna skipa finni sig heima í kirkjunni og njóti þar samfélags. Að fara í kirkju á ekki einungis að vera bundið ákveðnum viðburðum innan fjölskyldunnar heldur reglulegur þáttur heimilislífsins. Það er verðugt markmið að stefna að í samskiptum kirkju og þjóðar, að fólk finni sig velkomið innan kirkjunnar og finni þar fyrir andrúmsloft kærleika og góðs samfélags. Má vera að fyrsta skrefið í átt til þess sé tekið þegar barn ákveður að fermast. Má vera að það gerist fyrr, t.d. í barna- og æskulýðsstarfi kirkjunnar. Hver sem leiðin er þá hefur þátttakan í starfinu vonandi þau áhrif að fjölskyldan fái jákvæða reynslu af kirkju og kristni sem hvetur þau til áframhaldandi þátttöku.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2248.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar