Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Tómas Sveinsson

Guðsmaður í þoku

Jón og séra Jón

Hann stóð þarna í þokunni, guðsmaðurinn, sem bindur ekki bagga síns sömu hnútum og samferðamennirnir. Ekkert sást nema maðurinn og þokan. Margt býr í þokunni. Var hann ekki í tengslum við neitt eða var ekkert í tengslum við hann. Í slitnum og skítugum regnbuxum og stuttermabol að vitja fjár, axlaböndin slitin vinstra megin og bundin upp hægra megin. Þar sem hann stóð þarna og þokan byrgir sýn er hann þá í eilífðinni eða er ekkert á bak við trúna. Sér enginn vegi guðsmannsins, sér enginn fingur Guðs að verki í lífi þessa manns, sem er svo ljóst, að hann gengur frammi fyrir Guði hvert andartak lífsins. Hann segir með allri veru sinni: Drottinn Jesús Kristur, Guðs sonur, frelsari heimsins, miskunna þú mér. Engin kraftaverk? Honum eru veikindi sín ljós. Þokan er alsráðandi.

Hann var ásteytingarsteinn og hneykslunarhella í samfélaginu, var fyrir, þótti ekki standa sig í stykkinu. Frásögnin er falleg, það er aldrei hallað á guðsmanninn. Hann kemur til dyranna eins og hann er klæddur og skítugur, þar er engu bætt við, frásagan er svo undirstrikuð af stórbrotnu og fallegu umhverfi, sem vísar til samruna himins og jarðar, tíma og eilífðar, Guðs og manns. Hann er einlægur og auðmjúkur þolandi andstreymis, reynir að halda hlundindum staðarins til haga, gera hann aðlaðandi en draslið og óreiðan yfirþyrmandi, maður getur ekki varist hugsuninni illa lyktandi. Hann var sömuleiðis að verjast ásókn annarra í þessa heims gæði, sem hlunnindin veita og gerir staðinn eftirsóknarverðan í augum einhverra.

Stundirnar í kirkjunni ógleymanlegar. Um þær var farnið varfærnum höndum. Var þar óvart sýnd staða kirkjunnar í samtímanum. Biðin, sjálfhverfan, straumur lífsins rennur framhjá, afskiptaleysið. Guðsmaðurinn situr strokinn og fullskrýddur í forkirkjunni með hendur í skauti og bíður. Enginn kemur, hann messar yfir sjálfum sér, stundin er heilög, framkvæmdin góð sem og í hátíðarmessunni, sem úr voru sýndar nokkrar glefsur, fallegar og vandaðar. Einlægnin mikil og virðingin fyrir hinu heilaga. Messusókn var góð á hátíðinni um helmingur safnaðarins var mættur. Hins vegar voru viðbrögð kvikmyndahússgesta við atriðum úr messunni merkileg og sýna hversu víðsfjarri margir eru þeim veruleika sem messan er.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3123.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar