Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Út með fordómana!

Kristín ÞórunnNú eru nýliðnir í dásemd og dýrðarveðri Hinsegin dagar í Reykjavík. Hátíðin var að venju fjölbreytt og fjölþætt og áhersla lögð á að lyfta upp veruleika og reynsluheimi samkynhneigðra. Eftir því sem árin líða hafa dagarnir orðið að fjölskylduhátíð. Hápunktur þeirra, gleðigangan, einkennst af mikilli þátttöku fólks á öllum aldri sem fagnar fjölbreytileikanum og gleðinni sem samkynhneigðir færa samfélaginu.

Söngdívan og mannréttindafrömuðurinn Páll Óskar gerði þessa breiðu skírskotun Hinsegin daga að umtalsefni í viðtali við fréttastofu RUV um helgina. Þar sagði hann að Hinsegin dagar væru löngu vaxnir upp úr því að snúast bara um mannréttindabaráttu samkynhneigðra:

„Þetta er hátíð fyrir alla þá sem láta sig lágmarks mannréttindi einhverju varða. Alla þá sem eru orðnir leiðir á hatrinu og níðinu - inni á internetinu, öllum ógeðslegu kommentunum sem hægt er að segja um alla minnihlutahópa.“

Ummæli Páls Óskars hittu í mark og vöktu mikla athygli vegna þess að hann setur fingurinn á mein í samfélaginu okkar sem setur of mikið mark sitt á opinbera umræðu. Grímuklædd og grímulaus óvild og níð um einstaklinga og hópa fer ekki fram hjá neinum sem fylgist með umræðunni og þau sem blanda sér í samtalið um samfélagið eiga oft á hættu að verða fyrir því sem Páll Óskar lýsir.

Í kjölfar voðaverka Anders Breiviks í Noregi í síðasta mánuði verður brýning Páls Óskars um að láta ekki blint hatur og óvild taka yfir í samskiptum enn mikilvægari. Þetta á við um netsamskipti sem allar aðrar tegundir af opinberri umræðu. Daður við fordóma á ekki heima í opnu og lýðræðislegu samfélagi.

Þess vegna klikkti Páll Óskar út með þessari góðu niðurstöðu: „Við megum ekki sofna á verðinum.“

Út með fordómana!

Ps. Einnig vakti það sem Páll Óskar sagði um hvíta, hægri sinnaða, straight karlmenn í jakkafötum sem eru stundum með Biblíuna í annarri hendi og byssuna í hinni mikla athygli. Margir stöldruðu við það hvort þessi ummæli afhjúpuðu fordóma gagnvart þeim hópi sem þarna er lýst.

Dæmið sem Páll Óskar tekur þjónar þeim tilgangi að skilgreina hóp sem er „normal“ þ.e.a.s. ekki einhver tiltekinn minnihlutahópur. En það inniheldur líka skarpa krítík á það þegar ákveðin gerð kristindóms er notuð til að berja á þeim sem eru öðruvísi í samfélaginu.

Gerir Páll Óskar sig sekan um fordóma með ummælum sínum um hvíta, hægri sinnaða, gagnkynhneigða karlmenn? Hvað segir hann nákvæmlega? Annars vegar bendir hann á að þessir karlar séu í góðri stöðu í samfélaginu. Eru það fordómar? Hins vegar gagnrýnir hann herskáa bókstafstrúarmenn sem nota Biblíuna til að berja á minnihlutahópum.

Um höfundinn14 viðbrögð við “Út með fordómana!”

 1. Kristinn Jens Sigurþórsson skrifar:

  Verð að vera ósammála þér nafna; Páli Óskari tókst nefnilega með ummælum sínum að afhjúpa eitthvað í eigin brjósti sem báru öll merki fordóma. Sennilega var það samt ekki ætlunin hjá honum og óvíst er að hann hefði þá væri á hann gengið, en eigi að síður gerðist það, að það sem helst hann varast vann varð þó að koma yfir hann.

 2. Sigurjón Þórðarson skrifar:

  Boðskapur pistilsins er þá í stuttu máli Kristín, að með illu skal illt út reka.

 3. Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifar:

  Sæll nafni og takk fyrir komment.

  Auðvitað setur Hallgrímur puttann á púlsinn í þessu sem öðru :-)

  Ég er þó á því að þú lesir of mikið í það sem Palli sagði. Hann tiltók hóp í samfélaginu sem að hans mati verður ekki fyrir fordómum vegna þess að þeir eru skilgreindir sem “normal”.

  Aðalatriðið hér sem má ekki falla í skuggann er hvatningin um að sofna ekki á verðinum þegar samskipti í samfélaginu eru annars vegar og láta ekki fjandskapsöflin, hvaðan sem þau koma, ná yfirhöndinni.

 4. Guðný Hallgrímsdóttir skrifar:

  Hjartans þakkir elsku Kristín mín fyrir frábæran pistil. Ég er algjörlega sammála þér … og svo auðvitað Palla :)

 5. Kristinn Jens Sigurþórsson skrifar:

  Þetta er alrangt hjá þér. Hópurinn sem tiltekinn var er ekki og hefur aldrei verið skilgreindur “normal” í okkar samfélagi; ég veit hisn vegar ekki með Texas.

  Kjarni málsins er að Páli Óskari tókst að draga upp mynd af steríótýpu og afmarka hana frá öllum öðrum. Þannig kom hann þeim skilaboðum á framfæri að til væri fólk sem væri öðruvísi en annað og síst betra ef ekki verra.

  Þá má í þessu sambandi ekki heldur horfa framhjá því, að þeir (þau?) sem hann uppteiknaði þarna hafa yfirleitt verið álitnir harðir andstæðingar samkynhneigðar og alls þess sem Páll Óskar stendur fyrir. Páll Óskar var því í rauninni að tala (niður?) til andstæðinga sinna. Það eru hins vegar breyttir tímar og Páll Óskar stendur uppi sem “sigurvegarinn” og er það ekki sigurvegaranna að skrifa söguna??? Og mér sýnist þú ætla að hjálpa honum við það.

  Það er allavega klárt að svona tal eins og hann viðhafði er ekki til þess fallið að eyða tortryggni eða fordómum.

 6. Kristinn Jens Sigurþórsson skrifar:

  Jæaja, þá er það komið á hreint. “Sigurvegarinn” er ekki haldinn fordómum, hann er bara að setja öðrum mörk af marka má þessa frétt hérna: http://www.dv.is/frettir/2011/8/8/pall-oskar-segist-ekki-haldinn-fordomum/
  Og hvers vegna ætti hann ekki að gera það? Er sigurvegarinn ekki alltaf sá sem veit og kann, skilur og getur?

 7. Svavar Knútur skrifar:

  Ég verð að vera fullkomnlega ósammála þér kæri Kristinn Jens, þó í fullum kærleika.
  Það eru því miður hvítir miðaldra karlmenn, gagnkynhneigðir (allavegana að eigin sögn) og vel stæðir, sem halda um alla helstu tauma samfélagsins. Hverjir særðu saman gegn Sævari Cieselski? Hverjir dæmdu Stjórnlagaþingið ógilt? Hverjir semja um “ábyrga nýtingu á auðlindum þjóðarinnar?” Ég hef fengið glósur frá mönnum, hvítum, gagnkynhneigðum og miðaldra, um að ég sé ógildur í umræðunni, því ég sé nú bara tónlistarmaður og eigi bara að halda mig við gítarinn. Það þykir nefnilega ekki fínt í sumum hópum og ekki jakkafatað að vera trúbador. Svona gengur þessi útskúfun, einokun og þjöppun samfélagslegra valda fyrir sig.

  En auðvitað er erfitt að vera hvítur, gagnkynhneigður karlmaður og vita það að maður tilheyrir í raun yfirhópi þessa hóps og er þess vegna partur af honum að vissu leyti. Það er hundfúlt að vera settur í hóp með nauðgurum, ofbeldismönnum, valdaníðingum og öðrum sem sýsla með fólkið í samfélaginu. En í okkar samfélagi er þetta svona. Í Úganda eru þessir menn svartir, en allt hitt gildir. Og sé nánar gáð, þá halda hvítir, miðaldra, hægrisinnaðir trúboðar um taumana á hommahatrinu þar líka.

  En í fullum kærleik segi ég, vel mælt Kristín og ég skil angist þína Kristinn, við tilheyrum þessum hópi víst og þurfum að bera syndir bræðra okkar.

 8. Kristrún Arnarsdóttir skrifar:

  Ég held að almennt sé samkennd mikil þessa daganna með hommum og lesbíum

  Ég þykist finna fyrir því að samkennd sé hinsvegar ekki sérstaklega mikil með femenistum, og ég held að það séu góðar ástæður fyrir því

  Femenistar eiga til að brennimerkja alla gagnrýni á sinn málflutning sem “kvennfyrirlitningu” og tel ég það vera á köflum útúrsnúning

  Ég er sammála femenistum þegar kemur að því að hækka eigi dóma vegna kynferðisafbrota

  En ég er ekki sammála þeim þegar þær (sumar, ekki allar) ýja að því að dómskerfið sé ósanngjarnt vegna þess að ákærandi þurfi að sanna mál sitt - þ.e. femenistar eiga það til að túlka sönnunarbyrði ákæranda sem svo að verið sé að leggja ábyrgð brotsins á brotaþola - það tel ég vera útúrsnúning

  Einnig tel ég femenista hafa farið of langt í skilgreiningum á nauðgun - að nauðgun sé bara nauðgun og engann stigsmun sé þar að finna. það er stigsmunur á morðum for crying outloud - og að sjálfsögðu er stigsmunur á kynlífi þar sem t.d kærasti stoppar ekki strax og hann er beðinn um það, versus kynferðsileg árás ókunnugs manns útá götu. (ekki að ég geri lítið úr fyrra dæminu - en seinna er öllu verra og hvorki blaðamenn né dómarar eiga að höndla fyrrnefndan brotamann eins og þann síðarnefnda)

  Síðan er þriðja atriðið sem hefur skilið að femenista og hinn steríótýpiska karlamann þ.e hugmyndafræði “hanns” (sem reyndar margar konur aðhyllast ekki síður) og það er skilgreiningin á klámi og hlutgerning kvenna sem “kvennhatur” - engum dettur í hug að þegar kona talar um sætan strák sem hunk (of meat) að þá sé hlutgeringu og karlhatur að ræða en þegar einhver er kölluð skinka þá er það hatursfullt og niðrandi (vissulega stundum - en ekki alltaf - context skiptir alltaf máli). Ég held að þetta sé oft óþarfa viðkvæmni og orðhengilsháttur

  Hvað varðar klám þá eiga femenistar til að tala um allt klám sem einhverskonar mansal, og tala mikið um “klámiðnað” á sama tíma og klám á netinu er að megninu til orðið heimatilbúið og ókeypis. (ath ég er að tala um klám - ekki vændi, og þó mörgum fynnist erfitt að aðgreina þetta þá held ég að það sé ekki endilega svo - klámstjarna fær borgað fyrir að sýna kynlíf með einum manni - vændiskona fær borgað fyrir hvert skipti sem hún sefur hjá manni (það er augljóst hvort starfið er erfiðara, hættulegara og meira niðurlægjandi))

  Ég er ekki að hafna því að þarna úti séu Tony Sopranó-ar sem fari ílla með konur, en það þýðir ekki að allt klám sé þar með ofbeldi og niðrandi fyrir konur - ekki frekar en hægt er að fullyrða að allar verksmiðjur í kína séu sweat-shops - huglægt mat hlýtur að koma þarna einhverstaðar inní.

  Ég hafna því að allt klám sé ofbeldi og niðrandi fyrir konur eins og ég hafna því að allar hryllingsmyndir séu drasl (þó 95% af þeim séu það að mínu mati)

  Það eru líka ekki margir karlmenn sem ég veit um sem líta á klám sem eitthvað gourmet dót - þetta er yfirleitt guilty pleasure hjá þeim (þessvegna er erfitt fyrir nokkurn mann að vera eitthvað voða harður stuðningsmaður kláms - og þessvegna þegar maður heyrir svoleiðis afstöðu er það yfirleitt einhver einfeldingur sem talar)

  Ef það væri mikil og sjálfsréttlætingarfull barátta male-ista um að guilty-pleasure kvenna (kjaftasögur) væru farnar farm yfir öll velsæmismörk - þá held ég að konur myndu halda fasst í málfrelsi sitt þrátt fyrir að vera ekki endilega stoltar af hvíslinu og pískrinu sem fer fram í gegnum símkerfi landsins (og ég er ekki að segja að karlar kjafti ekki líka (rétt eins og fullt að konum horfa á klám) en símreikningur kvenna er margfalldur á við flestra karla af einhverri ástæðu)

  Ég held að þessir tveir hópar (femenistar og steríótýpískur hvítur karlmaður í jakkafötum) eigi erfitt með að skilja hvorn annan vegna þess að báðir aðilar eiga það til að ofur-einfalda þetta gríðarlega flókna mál sem samanstendur af casual samskiptum kynjanna ásamt því hvað teljist sómasamleg vinna (og guð má vita að skilgreiningin á sómasamlegri vinnu er mannréttindabarátta sem er langt því frá að konur hafi einar þurft að berjast um)

  Það gleymist oft að þessi steríótýpíski karl “the man” sem er að halda öllum niðri er langt því frá að vera bara karlmenn - og að flestir karlmenn eru í mjög svipaðri stöðu og konur hvað varðar að finna sér sómasamlega atvinnu (miðað við mentunarstig þessara hópa lítur út fyrir að karlmenn næstu kynslóða séu í meiri hættu á að verða second class citizen) (munurinn á launum er messtur í efri þrepum - þar sem klikkuðustu karlanir ná einhverja hluta vegna meira framm en frekustu konurnar)

  Í klámiðnaðnum fá konur fimmfallt borgað á við karlmenn og töluvert fleiri “störf” í boði fyrir þær - en í her-iðnaðnum fá karlmenn líklegast borgað margfallt meira en konur og fleiri “störf” í boði fyrir þá þar

  Bæði störf sem fæstir ísl foreldrar vildu að sonur eða dóttir myndu fara í

  En allir hermenn eiga mömmu - og allar vændiskonur eiga Pabba

 9. Kristinn Jens Sigurþórsson skrifar:

  Þakka þér fyrir þetta Svavar Knútur. Þér tókst nefnilega að kveða það í kútinn sem Páll Óskar hélt fram, en hann sagði að það væri engu líkara en að sá eini sem fengi að vera í friði fyrir öllu hatrinu og níðinu inni á internetinu væri “hvítur “straight” karlmaður í jakkafötum, hægri sinnaður og á peninga.” En miðað við þína framsetningu þá sé ég ekki betur en að þessi sami hvíti streitari í jakkafötunum fái þar líka sinn skerf af hatri og níði.

  Málið er nefnilega það, að það fá allir sinn skerf af hatri og níði á innternetinu, og það hvort sem þeir eiga það skilið eða ekki.

  Það var þess vegna ekki klókt af Páli Óskari, sem ég ber mikla virðingu fyrir sem listamanni og mannréttingafrömuði, að draga upp þá mynd sem hann gerði á sama tíma og hann sagðist vera að vinna gegn fordómum og fyrirlitningu.

 10. Árni Svanur skrifar:

  Páll Óskar svarar þessu sjálfur í viðtali við DV í dag. Þar segir:

  Páll Óskar segir það af og frá að hann sé haldinn fordómum. „Ég er að setja þeim mörk, svona tal verður ekki liðið. Það er ekki það sama og fordómar. Fordómar eru ótti við eitthvað sem þú þekkir ekki. Fordæming er eitthvað sem þú dæmir fyrirfram án þess að vita um hvað þú ert að tala.“ Páll Óskar hefur hins vegar, að eigin sögn, verið í reiptogi við þennan hvíta karlmann alveg frá því að hann var átta ára gamall og veit því hvað hann er að tala um. „Ég er ekki með fordóma gagnvart hvítum karlmönnum, ég er að setja þeim mörk og það er munur þar á,“ segir Páll Óskar.

  http://www.dv.is/frettir/2011/8/8/pall-oskar-segist-ekki-haldinn-fordomum/

 11. Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifar:

  Takk fyrir lífleg og góð komment bræður og systur.

  Gott að draga saman á þeim nótum sem við erum sammála um, að hatur og níð á hvorki heima á netinu né annars staðar.

 12. Kjartan Valgarðsson skrifar:

  Skemmtileg umræða.
  Mér er hins vegar alveg hulið hvað hörundslitur kemur þessu máli við. Við fyrstu sýn virðist þetta gripið á lofti úr bandarískri umræðu, þar eru hvítir karlmenn demógrafískur hópur. Það eru þeir hins vegar ekki á Íslandi. Þú afmarkar ekki hóp með einkenni sem einkennir þá alla, er það? Á Íslandi hefur “hvítir karlmenn” sömu merkingu og “karlmenn.”

 13. Guðmundur St Ragnarsson skrifar:

  Nú þegar samkynhneigðir hafa (réttilega) náð fram sínum eðlilegum og sjálfsögðum réttindum (forsætisráðherrann er samkynhneigður og réttindi samkynhneigðra á Íslandi sennilega þau bestu í heimi). Hvað gerist þá? Er stund hefndarinnar runninn upp? Verja kirkjunnar menn pólitískan rétttrúnað? Ef bloggsíður landsins eru skoðaðar gaumgæfilega kemur í ljós mikið hatur gagvart kristnum og Gyðingum hér á landi. Gyðingahatur á Íslandi er orðið ótrúlegt og prestar hérlendir þora ekki að láta í sér heyra um viðkvæm málefni frekar en fyrri daginn. Pólitísk rétthugsun á vinstri vængnum og skotveiðileyfi gefin út á aðrar skoðanir.

  Ekki vera hvítur
  Ekki vera hægrisinnaður
  Ekki eiga peninga
  Ekki trúa á Guð
  Ekki vera í jakkafötum

  AMEN?

 14. Kjartan Valgarðsson skrifar:

  Guðmundur,
  hvar sérðu merki um gyðingahatur?

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 5652.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar