Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Olav Fykse Tveit

Hugleiðing um harmleikinn í Noregi

Ég var í sumarfríi síðari hluta júlí og varði því með fjölskyldu minni, fyrrum samstarfsfólki og öðrum vinum í heimalandi mínu, Noregi. Svo vildi til að för mín lá til Osló 22. júlí. Þegar ég var að yfirgefa borgina heyrði ég hinar hræðilegu fréttir um fjöldamorðin í borginni og í sumarbúðunum á Útey.

Olav Fykse TveitLíkt og margir Norðmenn þekkti ég sum fjórnarlömbin og harmi slegnar fjölskyldur þeirra. Meðal þeirra sem voru myrtir í Útey var sonur norsks embættismanns sem hafði heimsótt mig aðeins nokkrum mánuðum fyrr á skrifstofu Alkirkjuráðsins í Genf. Líkt og margir Norðmenn þá á ég ennþá erfitt með að meðtaka að þetta hafi raunverulega gerst.

Maðurinn sem hefur játað á sig þetta blóðbað heldur því fram að hann hafi verið að verja „kristna menningu“. Hann álítur að ólíkir „menningarheimar“ hljóti að „takast á“. Þetta er glæpsamlega rangt hjá honum.

Kirkjur í Noregi sendu sameiginlegt hirðisbréf vegna harmleiksins 22. júlí og sýna þar hver hin raunverulega kristna menning og hin kristnu gildi eru. Þær vinna með og sýna fulltrúum annarra trúarbragða samhygð. Fólkið í Noregi hefur sýnt, að friðsamlegt andsvar við ofbeldi er öflugasta og hugrakkasta svar sem hægt er að veita.

Ofarlega í huga mér er mynd af kristnum presti og múslimskum imam sem standa hlið við hlið við jarðarför eins hinna ungu fórnarlamba ofbeldisins. Þessari mynd hefur verið sjónvarpað og hún hefur birst í alþjóðlegum fjölmiðlum. Hún hefur næstum orðið tákn þeirrar staðfestu að byggja sjálfbært, umhyggjusamt og opið samfélag saman. Fjöldi fólks, víða að úr heiminum, hefur sagt mér frá þeirri gríðarlegu hvatningu sem það upplifði vegna jákvæðra viðbragðra norska samfélagsins við hryðjuverkunum, þrátt fyrir þann sársauka sem þau valda.

Við erum, sem kristin kirkja, skuldbundin til að vinna saman að réttlátum friði. Það þýðir að vinna að opnum samfélögum þar sem fólk í öllum hópum samfélagsins er meðhöndlað sem einstaklingar með skyldur og réttindi og þar sem óréttmæt og syndug hegðun er fordæmd. Við þurfum að huga að samvisku okkar - um það hvað við segjum og hvað við segjum ekki - og halda áfram samræðunni við nágranna okkar.

Á tímum sem þessum erum við kölluð til að íhuga þetta grundvallandi gildi kristninnar: Boðið um að elska náunga okkar. Við sjáum hve mikilvægt það er á tímum sársauka og dauða. Við sjáum þörfina á gagnkvæmu faðmlagi; faðmlagi ástar og virðingar í samfélaginu. Við sjáum hve mikið við þörfnumst boðorðsins um að elska þegar við horfumst hreinskilnislega í augu við þá miklu áskorun sem felst í breytingum á samfélagsmynstri vegna innflytjenda og vaxandi fjöltrúarlegs samfélags.

Hinn mannlegi harmleikur 22. júlí er mikilvæg viðvörun fyrir okkur öll.

Steinunn Arnþrúður Björnsdóttir þýddi.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3139.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar