Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigrún Óskarsdóttir

Dagar til að fagna og vera glöð

Laugardagurinn síðasti var gleðidagur. Þúsundir Íslendinga á öllum aldri glöddust yfir fjölbreytni og fegurð mannlífsins. Við hjónin nutum dagsins í faðmi náttúrunnar og gengum á fjallið Skjaldbreiði. Fyrir 40 árum gekk ég með foreldrum mínum, systur og Ólafi Briem samkennara pabba á fjallið. Nú var leikurinn endurtekinn. Þetta var sannkölluð gleðifjallganga. Varla ský á himni og fjallasýnin stórkostleg.

Sigrún ÓskarsdóttirTæknifræðingurinn í hópnum var með flott tæki sem mældi hæðarmuninn og við stefndum á toppinn sem var 1060 metra hár samkvæmt bókinni. Þegar við vorum hálfnuð var stoppað. Íslenskt vatn, flatkaka með hangikjöti og súkkulaðirúsínur og svo var haldið áfram. Við dáðumst að útsýninu.

Hvílík fegurð!

Við vorum fjögur á göngu. Stundum gekk ég ein, hugsaði, bað og þakkaði Guði. Ég hugsaði til fólksins sem ég hef verið að þjóna í gleði og sorg og bað fyrir þeim. Einvera í ósnortinni náttúru kallar fram náin tengsl við Skaparann, þakklæti og undrun.

Allir sem gengið hafa á fjöll þekkja tilfinninguna þegar toppnum er náð. Skjaldbreiður kemur skemmtilega á óvart. Þetta virðist þægilegur hóll en leynir svo heldur betur á sér. Útsýnið til alla átta var fagurt í 1063 metra hæð samkvæmt nákvæmri mælingu. Hlöðufell, Þórisjökull, Botnsúlur, Ok og svo þessi mikli djúpi gígur á toppi fjallsins. Við fórum aðeins aðra leið til baka þar sem við kynntumst „fönnum Skjaldbreiðar“ og nutum þess að taka smá sprett í snjónum.

Við hjónakornin gengum saman hönd í hönd þennan síðasta spöl. Við fórum yfir viðburðaríka daga vikunnar og veltum fyrir okkar framtíðinni.

Dagar þegar við njótum sólar og fjallasýnar eru dýrmætir á lífsgöngunni. Þeir vekja með okkur tilfinningu fyrir hinu fagra og góða og segja við okkur: Þetta er heimurinn þinn, sem Guð gaf þér til að njóta.

Dagar þegar við njótum samfélags með ástvinum og félögum gera það sama.

Það eru dagarnir til að fagna og vera glöð.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3369.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar