Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Bjarni Karlsson

Breivik og siður stálsins

Breivik hinn norski kom ekki sem þruma úr heiðskíru lofti. Hann er afkvæmi menningar. Eitraður ávöxtur í okkar eigin garði sem við verðum að taka ábyrgð á. Hér er innlegg í þá umræðu:

I
Sr. Bjarni KarlssonÍ starfi mínu sem prestur hef átt ótal samtöl við foreldra nýfæddra skírnarbarna. Það er sérstakt andrúmsloft sem umleikur nýbakaða foreldra; þakklæti, undrun og stundum þreyta. Stundum hafa setið rauðeygir og vansvefta foreldrar inni á skrifstofunni minni og talið hefur þá gjarnan borist að óþroskuðum magaopum nýbura sem valda kveisu og gráti með tilheyrandi andvökum.

Allir sem einhverntíman hafa verið í sveit og kynnst dýralífi vita að ungviði í dýraríkinu fæðist reiðubúið. Þegar kýrin, kindin eða hryssan hefur karað afkvæmi sitt er það óðara staðið á fætur og farið að leita að spena. Ungar hænunnar, gæsarinnar og andarinnar fylgja móðurinni sjálfkrafa í halarófu um leið og þeir koma úr egginu en mannsbarnið getur ekki haldið höfði og fær enga björg sér veitt.

Hvers vegna skyldi þetta vera svona? Líkast til er það rétt sem vísindamenn hafa bent á að það er svo flókið að tilheyra menningu með tungumáli og margvíslegum siðum að mannsbörnin þurfa höfuð sem er svo stórt í hlutfalli við búkinn að eigi barn að geta fæðst af móður sinni verður fæðingin að eiga sér stað löngu áður en líkaminn er í raun tilbúinn til leiks. Og þegar barnið er fætt tekur við langur ferill við umönnun og uppeldi. Þegar mín kynslóð var sextán ára var maður kominn í fullorðinna manna tölu. Þau sem nú eru farin að reskjast voru orðin fullorðið fólk strax eftir fermingu. Í dag er það tvítugsaldurinn sem markar þessi tímamót því að samfélagið er svo flókið og það er að svo mörgu að gæta. Að eignast barn er nú orðið að tuttugu ára skudbindingu við uppeldi. Þá má rifja upp að hinn góðkunni vísindamaður og kennari Örnólfur Thorlacius hefur haldið því fram að þegar menningin kom til sögunnar hafi náttúran búið til afa og ömmur. Þetta telur hann sjást af því að eina tegundin sem hafi tíðhavörf sé maðurinn því það dugi ekki ein kynslóð til þess að miðla upplýsingum og gildum til hinna ungu. Okkur sem erum komin í afa- og ömmuhlutverkið þykir þetta ekki slæm kenning.

En hvað er menning? Hvað er svona margþætt og flókið við að vera manneskja. Það er ekki svo flókið að rækta korn og kartöflur, veiða fisk og fugl. Það er ekki endilega heldur svo flókið að koma brúklegu þaki yfir höfuð og vinna spjarir utan á kroppinn. Hið flókna í mannlífinu er það að geta gert þetta allt í sátt. Að mega vinna fyrir sér í friði, halda heimili þar sem eining ríkir og geta deilt gæðum í góðum viðskiptum við menn og náttúru. Það er flókið ferli.

II
Kristin hefð talar í sögum og myndum til þess að útskýra lífið og benda á farsæl gildi. Helgimyndir fjalla um merkingu og tilgang, þær fjalla um hin flóknu ferli menningarinnar. Eitt myndskeiðið sem milljónir manna um allan heim eiga í sínu helgimyndasafni er Jesús á asnanum ríðandi í átt að múrum Jerúsalemborgar. Jesús á asnanum á aðra hönd, vígmúr hersetinnar borgar á hina. Myndin fjallar um vald og ólíka meðhöndlun þess. Hér kemur konungurinn ríðandi fola undan áburðargrip umkringdur syngjandi fylgjendum sínum vopnuðum pálmagreinum. Álengdar sitja hermenn Rómarveldis á stríðfákum eða standa þöglir með spjót í höndum. Hér er dregin upp mynd af andstæðum. Hér mætist hið syngjandi og hið þögla vald hinn fagnandi siður og siður stálsins.

Hefur þú gengið í sigurvímu út úr bíói eftir að hetjan sem barist hafði við ofurefli hræðilegs óvinar var búinn að sigra og allt það besta sem þú vonaðir hafði ræst? Hvað er það sem hetjan þarf alltaf að leggja í sölurnar? Hún hættir lífi sínu undantekningarlaust, líður alltaf miklar þjáningar en sparar sig þó hvergi, neyðist auk þess til þess að standa utan við lög og reglur og vinna grimmilega á andstæðingnum sem að lokum fellur. Iðulega sameinast einhverskonar fjölskylda í lokin, jafnvel er þar barn í spilinu og það besta er ef bangsinn þess finnst og barnið sameinast með bangsanum í faðmlagi karlhetjunnar og konunnar sem hann elskar áður en stafirnir renna af stað niður tjalið. Þá er staðið á fætur, poppkornið dustað af skálmunum og haldið af stað út í Reykvíska nóttina ögn sannfærðari en áður í þeirri trú að réttlætið muni alltaf að lokum sigra. Svona er trúboð stálsins. Það hefur ótvírætt skemmtanagildi, það höfðar til djúpra tilfinninga og hvata og á sér stað án þess að við séum meðvituð um að við erum þátttakendur í stærsta trúfélagi veraldar, trúfélagi stálsins.

Hetjan á asnanum er annars konar og skemmtunin er ekki meiri en svo að ábyrgir menn koma og biðja Jesú að segja fólkinu að hætta þessu og þegja. „Ég segi ykkur, ef þeir þegja munu steinarnir hrópa.“ ansar hann og brandarinn er ekki í hálfkvist við orðhnyttni Clint Eastwood. (Lúk. 19.40)

Siður stálsins er sá að stríð tryggir frið og öryggi fæst með yfirburðum. Í veröld hins þögla valds er reglan fundin með óreiðunni. Hetjan neyðist til ofbeldisverka sem leiða af sér sigur og gleði.

Hinn fagnandi siður er annar. Hetjan á asnanum, hetjan á krossinum og í jötunni nálgast verkefni lífsbaráttunnar út frá annari tilgátu. Vinnutilgáta frelsarans Jesú í glímunni við veruleikann er sú að reglan búi í eðli hlutanna. Þess vegna þarf hann ekki að hefja sig upp yfir mannlífið á nokkurn hátt og neyðist ekki til að standa utan við lög og rétt með ofbeldi, öllu heldur samsamar hann sig fólki með mjög róttækum hætti, velur sér engin sportleg farartæki en lætur asnann duga og segir bara: „Ég kalla yður ekki framar þjóna því þjónninn veit ekki hvað húsbóndi hans gerir. En ég kalla yður vini.” (Jóh. 15.15) Kristinn siður áætlar að lífið sé í sjálfu sér gott og að yfirráð og ofbeldi sé ómerkileg aðferð.

III
Sá sem trúir því að reglan búi í eðli hlutanna getur ekki á sama tíma treyst því sem trúboðar stálsins meina, að óreiða fæði af sér reglu. Merkir fræðimenn hafa bent á að trúin á óreiðuna og ofbeldið sem forsendu reglu og friðar eigi sér eldri sögu en trúin á hina góðu sköpun. Tólfhundruð og fimmtíu árum fyrir komu Krists stóð menning í miklum blóma í hinni fornu Mesópótamíu og til eru heimildir um guðinn Mardúk sem var guð borgarinnar Babýlóníu og hafði unnið sér það helst til frægðar að sigra formóður sína gyðjuna Tíamat gegn þeim skilmálum að hann fengi yfirráð yfir öllum öðrum guðum. Tíamat var í raun ægilegt sæskrímsli og er Mardúk hafði banað henni með miklum og hroðalegum tilþrifum þá strekkti hann út á henni skrápinn, teygði hann á alla enda og kanta, og skapaði heiminn úr líki kvenskrímslisins. Þannig varð veröldin til úr húð hinnar gjörsigruðu drekagyðju. Þessi goðsögn hefur verið nefnd Babýlónska goðsögnin og sagnfræðingar, heimspekingar og guðfræðingar hafa rakið stef þessarar sögu í þekktum helgisögnum frá mörgum löndum sem allar eiga það sameiginlegt að karlguð frá himni berst við kvenskrímsli úr sjó og er hann hefur unnið á henni með fræknum fantabrögðum er hræið notað til þess að skapa úr því heiminn. Þannig er tjáð sú trú að veröldin og öll hennar gæði eigi uppruna sinn í einum hrikalegum ofbeldissigri. Hið illa kemur þá á undan hinu góða og hið góða á hið illa að forsendu sinni.

Fræðimenn hafa keppst við að benda á þá staðreynd að Babýlónska goðsögnin lifir góðu lífi í veröldinni og á sér margfalt fleiri fylgjendur en kristnin nokkurn tíman. Þegar við göngum í gleðivímu út úr bíóhúsinu þá er það þessi trú og hin áhrifaríka skemmtilega boðun hennar sem hefur hrifið okkur. Goðsögnin var endurtekin, sagan af ofbeldishetjunni var flutt þannig að hún hrærði við helgum tilfinningum okkar og við glöddumst í okkar mannlegu sál og eignuðumst enn og aftur sameiginlega trúarreynslu með hinum þögla fjölda. Börnin okkar eru skilvíslega vígð inn í samfélag trúarinnar á Mardúk frá blautu barnsbeini í gegnum teiknimyndasögurnar sem flest allar flytja þessa sömu goðsögn í lítt breyttri mynd og kenna þeim að trúa því sem skrifað stendur að fyrst kemur vel heppnað ofbeldi og svo kemur hið góða líf.

Helgisögn Biblíunnar gengur þvert á helgisögn Babýlóníu. Þar er fyrst hið góða líf. Góður Guð skapar góðan heim með orðinu einu en illskan er lífinu óeðlileg og birtist sem furðulegt fyrirbæri, – talandi höggormur! „Í upphafi skapaði Guð himinn og jörð. Jörðin var þá auð og tóm og myrkur grúfði yfir djúpinu en andi Guðs sveif yfir vötnunum. Þá sagði Guð: ‘verði ljós.’ Og það varð ljós. Guð sá að ljósið var gott…” (1. Mós. 1-4)

IV
Við menn erum stórhöfðarnir í sköpunarverkinu. Við fæðumst máttvana og varnarlaus með þetta mikla höfuð vegna þess að sáttin er flókið ferli. Yfirburðir hins fagnandi siðar yfir sið stálsins eru fólgnir í vitneskjunni um eðli veraldarinnar. Hinn fagnandi siður og hið syngjandi vald lýtur barninu sem fæðist og horfir fram á veginn í von. Hinn fagnandi og syngjandi siður bíður barnsins í jötunni sem spámaðurinn Jesaja lýsti svo: „Hann mun dæma meðal lýðanna og skera úr málum margra þjóða. Og þær munu smíða plógjárn úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum sínum. Engin þjóð skal sverð reiða að annarri þjóð og ekki skulu þær temja sér hernað framar.” (Jesaja 2:4)

Hryllingurinn í Útey og Ósló dregur upp gamlar átakalínur með ýktum og sjúklegum hætti. Ódæðismaðurinn er útfært afkvæmi þeirrar sannfæringar að fyrst komi vel heppnað ofbeldi ofurhetjunnar og í kjölfarið verði jafnvægi, kosmos. Við þurfum að vera meðvituð um uppruna hugmynda okkar og það hvernig við ræktum þær í menningunni. Ég er þeirrar skoðunar að kristin menning eigi í sér fólgnar lausnir og vegvísa sem veröld okkar þurfi á að halda.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Breivik og siður stálsins”

 1. Fanney Halla Pálsdóttir skrifar:

  Ágæti Bjarni

  Mér finnst yndislegt þegar ég sé að enn eru þó nokkrir með formlega menntun hér á landi sem þekkja og skilja orðið maður og hafðu þökk fyrir að leggja rækt við það og tryggja áframhaldandi þekkingu á því. Því maður er „tvífætt og tvíhent spendýr, hið eina sem hefur lært að tala, búa til verkfæri og vinna með þeim (um bæði kyn tegundarinnar)(Homo sapiens)“ (Orðabók Menningarsjóðs).

  Ég tel eins og þú að okkar kristna trú er samofinn okkar lífi og menningu, í raun hluti af okkar lífi og menningu og hefur verið svo í þúsund ár. Við íslensk þjóð þekkjum orðið menning en þeir sem leggja vilja niður okkar menningu hafa yfirhöndina í skilgreiningu þar og því orðið menning nú notað um viðamiklar byggingar sem hýsa listviðburði sem og fjárframlög auðmanna til að reisa slíkar byggingar sem og halda listviðburði þar.

  Menning er allt sem maðurinn geri vel. Menning er hvernig við önnumst um börnin okkar, menning er hvernig við umgöngumst aðra og hvernig við förum að því að sjá okkur farborða. Menning er það að gera allt vel sem við gerum og virða okkar mál. Ef við skiljum ekki tunguna þá ber að hopa og sinna einfaldari störfum og láta þá sem meiri þekkingu og skilning hafa fá valdatækin.

  Þó hef ég þann veikleika að njóta kvikmynda eins og þú lýsir sem sið stálsins. Tilfinningar mannsins eru túlkaðar í listum og bókmenntir okkar styrkur. Tel ég kvikmyndir einnig tilheyra því tjáningarformi. Hef ég séð margar myndir eins og t.d. þær sem leikarinn Bruce Willis leikur mikið í og hef þekkingu af og betri skilning enda eru þær myndir afar vel gerðar, góðir leikarar, myndatökumenn, ljósamenn, förðunarfræðingar, búningahönnuðir, tæknimenn og aðrir þeir er koma að gerð slíkra mynda.

  Þegar kom að því að hægt var að birta myndir, nöfn og e-h upplýsingar um e-h fórnarlambanna í Osló og Útey þá var ég afar þakklát. Ég geri mér grein fyrir að minn hugur vegur ekkert og sársauki og kvöl eftirlifenda sem og samfélags sem missir börnin sín í blóma lífsins er það mikill að engin orð fá lýst. Hins vegar þegar aðstandendur og vinir höfðu fengið upplýsingar um þá sorg sem þau nú þurfa að búa við þá fengum við hin sem þökkum það að börnin okkar voru ekki þar á meðal að leggja okkar góða hug fórnarlömbum og eftirlifendum til sem og þeim sem síðar gætu lent í slíku. Þegar þekking á íslensku og sögu okkar samþætt okkar kristnu menningu (okkar andlega lagabálki) var grunnurinn og þurfti ekki formlega menntun þar til, þá eðlilega var gerður greinarmunur á frumlagi og andlagi viðfangsefnisins sem og hlutanna eðli. Nú er meiri áhersla á persónulega túlkun og ekki alltaf ljóst hver er hvor á stundum og þá helst þegar byggst hefur upp góð tilfinning og samhugur fórnarlömbum til handa (eða þegar ótti og óhugur er við e-h þá er ekki ljóst hver er hvor oft á tíðum og fer slíkt ómeðvitað inn í þjóðarsálina) sem og hugur í viðleitni til að tryggja varnir öðrum til handa sem síðar gætu lent í slíku. Til mótvægis hef ég hlustað nú, á vef RUV, á góðan hug Gerðar G. Bjarnklind, í Óskastundinni hennar frá 29. júlí sl., til handa ofangreindum fórnarlömbum og eftirlifendum og sérstaklega það lag er hún lék þá á eftir með hennar góða hug.

  Eitt af því sem markaðslögmálið (þegar það fór yfir mörk markaðarins) gerði var að setja samkeppni í öll samskipti. Við erum á öndverðum meiði varðandi kvikmyndir en hefur það engin áhrif á áhuga minn á efninu hér fyrir ofan og virði jafn mikið sem og virði ég skoðanir þínar á slíkum myndum. Við þurfum að leggja mikið í til að ýta markaðslögmálinu út af okkar sviði og inn fyrir sín mörk og þitt tillegg hér vel þegið. Þá getum við átt von á því að veita öllum öfgaöflum a.m.k. eitthvað aðhald, hægri, vinstri sem og stjórnleysis öfgaöflum sem herja hér á.

  Góðar kveðjur,
  Fanney Halla Pálsdóttir

 2. Fanney Halla Pálsdóttir skrifar:

  Ágæti Bjarni

  Minn eini opinberi vettvangur þar sem ég hef getað komið minni vinnu og viðhorfum á framfæri er hér á vef ykkar tru.is og hef ég verið þakklát fyrir það. Í meira en áratug hef ég leitast við að koma minni vinnu í formlegan farveg en þau kerfi sem stjórnað hafa hér í á annan áratug verða alltaf fyrri til. Því hefur mín eina vörn verið að skrá niður þannig að menn sjái á eftir að betur hefði verið farið með gát og mín vinna virt. Tölvupóstar eru einnig ágæt aðferð við að skrá og dagsetja og hef ég notað hann en er ekki á opinberum vettvangi og því þröngur hópur sem þar getur lagt sitt til. Ég er barin niður í hvert sinn þegar ég leitast við að fá menn til að taka á vanda sem steðjar að og látin vera aðhlátursefni og stærri biti skorin af kökunni til handa þeim konum sem hug hafa á að standa í að atast í mér, mér til háðungar. Menn taldir meiri af. Það hefur steðjað mikil vá að okkar vestræna samfélagi og þá ekki síst fyrir okkar eigið gáleysi. Ég reyndar hef stundað lítt það gáleysi en tilbúin í sátt og samvinnu og að axla þá ábyrgð sem af gáleysinu hefur hlotist og leggja mína vinnu til heilinda. Því mun mér þykja miður ef þið ætlið að loka fyrir umsagnir hér á vefnum. Hins vegar ef svo verður þá vil ég nota tækifærið og þakka ykkur af heilum hug fyrir að hafa haft þennan aðgang opinn og virt það sem þar kemur fram.

  Góðar kveður,
  Fanney Halla Pálsdóttir

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3044.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar