Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfundLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir og Árni Svanur Daníelsson

Þjóð, kirkja og traust

Árni og Kristín

Nú liggur fyrir útkoma út þjóðarpúlsi Capacent Gallup, þar sem spurt var um traust almennings til þjóðkirkjunnar og biskups Íslands. Svarið liggur fyrir: Of fáir treysta. Við sem störfum í þjóðkirkjunni höfum fylgst með því hvernig traustið til hennar sem stofnunar hefur dalað í skoðanakönnunum, oft í öfugu hlutfalli við það sem við reynum í samskiptunum í söfnuðunum okkar.

Það má ekki gleymast í þessari umræðu að þjóðkirkjan er fyrst og fremst fólkið sem tekur þátt í starfi safnaðanna um allt land, en ekki stofnun og skipulag, biskupar og prestar. Þjóðkirkjan er hreyfing karla og kvenna sem leyfa boðskap Jesú frá Nasaret að móta líf sitt til góðs fyrir heiminn. Hreyfing sem starfar um allt land.

Stofnunin þjóðkirkjan þarf að vita hvað veldur því að traust til hennar og æðsta embættismanns hennar er jafnlítið og raun ber vitni. Er skýringa að leita í almennri traustskreppu í samfélaginu? Er fólk sátt við hvernig tekið var við skýrslu rannsóknarnefndar kirkjuþings? Hefur kirkjan tekið nægilegt frumkvæði í uppbyggingunni eftir Hrunið? Hefur kirkjan staðið sig í jafnréttis- og umhverfismálum? Hvers vegna er afstaða þjóðarinnar til stofnunarinnar önnur en til starfsins í sóknarkirkjunni og nærsamfélaginu?

Hugtakið „aggiornamento“ hefur verið notað yfir það sem umbreytist úr gömlu í nýtt. Í samhengi þjóðkirkjunnar þýðir þetta að kirkjan uppfæri sig til dagsins í dag. Þannig getur boðskapur hennar um frelsi manneskjunnar og umhyggju Guðs hitt okkur í hjartastað og borið ávöxt.

Skoðanakannanir um traust til kirkjunnar segja okkur að slík uppfærsla sé nauðsynleg. Þótt okkur hugnist ekki niðurstöðurnar, leiðum við þær ekki hjá okkur. Skilaboðin eru skýr og kirkjan bregst við þeim.

Um höfundinn3 viðbrögð við “Þjóð, kirkja og traust”

 1. Baldur Garðarsson skrifar:

  Mín svör :
  Nei við fyrstu 4 spurningum.

 2. Guðmundur Pálsson læknir skrifar:

  Ég er kaþólskur maður og er annt um þjóðkirkjuna. Hér eru uppi á borðum hugmyndir um kirkjustjórnmál eins og vant er:
  Höfundar segja að skoðanakannanir sýni að kirkjan njóti ekki trausts. Nú vil ég spyrja höfunda. Í hverju gæti þessi aggiornamento/uppfærsla falist?

  Þarf nýjar áhverslur, að einhverju leiti nýjan skilning á guðsorði? Og hvaða skilning þá? Höfum við misskilið boðskapinn eða færst af leið undanfarið?
  Þarf að hreinsa út eins og sagt er og leiða nýtt fólk til valda? Etv. meiri grasrótarstarfsemi og lýðræði? Þarf fleyri konur til valda? Hefur þjóðkirkjuna skort frjálslyndi og umburðarlyndi ( já! ) og er hún jafnvel andvíg jafnrétti og verndun umhverfis?

 3. Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifar:

  Takk fyrir áhugaverðar spurningar Guðmundur Pálsson læknir.

  Mig langar að gera orð Karls biskups sem hann lét falla í Kastljósviðtali nú í sumar að mínum - þegar hann sagði eitthvað á þá leið að það að endurreisa traust til kirkjunnar væri ekki á valdi eins manns.

  Í þessu er mikill sannleikur. Kirkjan er samfélag og hún verður heil með því að allir fá pláss við veisluborð guðsþjónustunnar, að raddir allra fái að heyrast. Hér erum við sérstaklega brýnd til að taka þau með inn í hringinn sem hafa verið jaðarsett í sögunni. Og já, konur eru í þeim hópi.

  Kirkjan þarf á konum og körlum að halda, kirkjan þarf líka að vera öflugur talsmaður sköpunarinnar og umhverfisins.

  Uppfærslan er alltaf í gangi. Hún felst í því að við lesum og skiljum stað og stund þannig að kraftur fagnaðarerindisins sem leysir og frelsar manneskjuna ná hjörtum mannanna.

  Á þeirri leið erum við.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 2791.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar