Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Skyldar færslurLeita

Sigrún Pálína Ingvarsdóttir

Sátt

Við erum saman komin hérna í dag vegna atburðar sem gerðist 1978. Það var að sumarkvöldi sem ung kona kom hlaupandi út úr kirkju í Reykjavík. Hún var skelfingu lostin og horfði með örvæntingu út í nóttina og hrópaði:

Sigrún Pálína Ingvarsdóttir„Guð minn góður hvað gerðist, ég verð að gera „eitthvað“,“
og í næstu andrá leit hún niður og sagði
„Nei ekki presturinn minn líka, núna get ég engum treyst.“
Skömmin heltók hana.

Í dag stend ég hérna og eftir daginn í dag er 33ja ára baráttu minni lokið. Já, ég gerði „eitthvað“ og þetta „eitthvað“ bar árangur.

Sannleikurinn er sagður, heyrður og skömminni skilað.
Því sem rænt var frá mér þetta sumarkvöld hefur mér tekist að eignast aftur.
Ég náði reisninni, virðingunni, örygginu, kærleikanum og ekki síst gleðinni og trúnni á Guð.

Í dag 2011 erum við konurnar búnar að fá uppreisn æru og getum stoltar gengið um götur Íslands án þessa að verða uppnefndar.

Leiðin var oft grýtt og erfið og kostaði marga svo mikið.
Líf okkar breyttust og á vígvellinum flugu spjót haturs og reiðinnar með öllum ljótu orðunum sem gátu sært en ekki deytt, en í raun máttu spjótin sín einskis gegn sannleikanum sem sagður var í kærleika.
Þau féllu máttlaus til jarðar. Þar óx illgresið sem liðaðist um jarðveginn og varð mörgum fjötur um fót.

Illgresið náði samt aldrei djúpum rótum. Núna þarf að reita og sá fræjum svo upp geti vaxið fallegt, sterkt tré sem ber ávöxt, ávöxt reynslunar, sem ekki má falla í gryfju gleymskunnar. Tré kærleikans, vonarinnar, og trúarinnar.

Fólkið í landinu verður að fá að koma og njóta ávaxtanna og finna skjól og öryggi undir trénu.

• • •

Í dag erum við samankomin til að leita sátta.
Undanfarnar vikur hafa verið mér dýrmætar í sáttaferlinu.
Ég hef haft einlæg og heiðarleg samskipti við nefndina sem hefur meðal annars orðið til þess að ég get staðið hérna.

Ég er sátt við að ég hef staðið við sannleikann og aldrei vikið af leið.
Sátt við að kirkjan sem samfélag er búin að viðurkenna mistök sín.
Sátt við fortíðina.
Sátt við að treysta fólkinu sem elskar kirkjuna til að leiða hana til heilbrigðis.
Sátt við að nú er nóg komið og að ég ætli að snúa andliti mínu til framtíðar, já ég ætla heim þar sem ég get snúið mér að yndislegu fjölskyldunni minni og mínu dýrmæta starfi.

Starfinu mínu, þar sem ég og öll mín reynsla hefur tilgang, því hún nýtist mér í að skilja, vita, finna, kenna, leiða og gefa trú, von og kærleika.

• • •

Heimkoman

Ég er á leiðinni heim.
Já, á leiðinni heim til þín,
því þar á ég heima

Ég tek þig í fangið
því þig vil ég geyma.
Ég horfi í augun þín
því þau eru augun mín
sem sannleikann geyma.

Núna ætla ég að hugga þig,
vernda þig og geyma.
Hönd mín leiðir þig
því núna skaltu hvíla þig
saman erum við heima.

Þú fórst mér burtu frá
til að tala og segja.
Þú þráðir sannleikann
og þú vildir bara hreinleikann.
Þú fórst og gafst kærleikann
æ, hvað er gott að núna ertu heima.

Þú neitaðir að þegja,
þöggunin efldi þig
og þú talaðir meira.
Núna finn ég hreinleikann og kærleikann,
núna erum saman heima.
11. júlí 2011

• • •

Sannleikurinn er sagður og þeir sem ekki vilja kannast við hann taka ábyrgð honum, verða að eiga það við sjálfa sig og Guð.

Þegar að ég lít til baka er ég af einlægni og þakklát fyrir þetta verkefni mitt.
Í gegnum það hef ég eignast ómetanlega reynslu, sem hefur gert mig að þeirri manneskju sem ég er í dag.

Ég hef uppgvötvað að ég á dýrmæta vini og ómetanlega fjölskyldu.
Ég valdi mér þessa baráttu, en þeim var kastað út í hana með öllum sínum hörmungum og sigrum.

Börnin mín hafa staðið allan þennan tíma við hlið mér með óbilandi trú á mömmu sína, svo styðjandi og sterk.

Maðurinn minn fékk aldeilis konu með ÖLLU, ekki bara börn og barnabörn, heldur eitt stærsta baráttumál okkar tíma.
Sterkur stóð hann þarna stoltur og umvafði mig með kærleika sínum. Hann efaðist aldrei um getu mína né vék af velli.

Börnin hans Alla og elskulega tengdamóðir mín sem stutt hefur mig og styrkt, þrátt fyrir að þessi barátta mín hafi kostað þau að sjá á eftir föður sínum og syni til útlanda.

• • •

Æskuvinkona mín hún Guðrún Alda og maðurinn hennar Sigurður Þór hafa staðið við hlið mína síðan 1996.
Þau hafa þjáðst og hafa þurft að taka sinn skerf af eineltinu.
Þrátt fyrir það hafa þau aldrei hlíft sér, nei, þvert á móti börðust þau við hlið mína án þess að hika né víkja.

Ásta vinkona sem að hefur styrkt mig í trúnni og grátið og hlegið með mér.
Magnea Björg móðursystir mín og vinkona, móðursystir mín hún Hildur, bróðir minn hann Óskar og Guðrún mágkona og hún Anna Fía mín og fleiri, allt er þetta fólk sem hefur fylgt mér og tekið þátt í bæði sorgum og gleði með mér.
Þeim á ég miklar þakkir skildar og mér munu hvorki endast orð né aldur til að endurgjalda þeim.

Því segi ég bara: „Takk fyrir mig.“

• • •

Það eru 12 ár síðan að ég spurði þig, Bjarni (séra Bjarni Karlsson) hvort að þú vildir vera presturinn minn.
Ég beið með hjartslætti eftir svari og ég bjóst við að sjá flótta í augum þínum en í stað þess brostir þú, horfðir á mig og sagðir:
„Já Sigrún Pálína, það vil ég með stolti vera.“
Þú hefur svo sannarlega uppfyllt það hlutverk þitt. Þú opnaðir kirkjuna þína fyrir mér og studdir mig í öllum mínum uppátækjum t.d. kærleiks og ljósahittingnum eða að heimsækja gluggalausa herbergið til að tendra þar ljós.
Trú þín á sannleikann og á verkefni mínu gaf mér oft styrk til að halda áfram.
Takk fyrir að vilja vera með mér á þessu ferðalagi og takk fyrir að vera með mér í græðslunni líka.
En ég var ekki ein, við vorum tvær konur sem lögðum af stað í þetta ferðalag. Það var hún Dagbjört líka og seinna kom Stefanía til að styðja frásögn okkar.
Þeim er ég endalaust þakklát og elsku Stefanía sem þurftir ekki að koma fram en gerðir það samt af því að þú þoldir ekki að sjá meðferðina sem við Dagbjört fengum.
Við erum búnar að bindast æfilöngum og dýrmætum vináttuböndum.

• • •

Í dag erum við orðnar 7 talsins sem hafa komið fram með upplifun okkar í þessu hræðilega máli.
Ég fékk því miður staðfest það sem ég óttaðist allra mest, það að við værum fleiri og þeim og Guðrúnu Ebbu vil ég þakka fyrir þann styrk og kjark sem þær hafa sýnt.

Elsku Sigríður, þakka þér fyrir að hafa hlustað á bréfið mitt banka í skápnum og takk fyrir kjark þinn og þína sterku réttlætiskennd.
Án þess er ég hrædd um að allt þetta hefði tekið lengri tíma og við ekki staðið hér í dag.

• • •

Kæru kirkjunnar menn og konur, fyrir ykkur liggur nú stórt verkefni. Núna þegar að við konurnar höfum fengið uppreisn æru
verður næsta skref að verða æra kirkjunnar.
Að reita illgresið og byggja upp trausta kirkju sem hefur hagsmuni fólksins fyrst og fremst fyrir brjósti.
Kirkjan verður að verða heil og okkur verður að vera óhætt innan veggja hennar.

• • •

Í tilefni baráttu minnar ætla ég að færa ykkur þennan stein sem er táknrænn fyrir öll þessi ár. Hann er hrjúfur og auðvelt að meiða sig á honum en jafnframt er hann fallegur og mosinn er tákn þess að það sé að byrja að gróa um heilt.
Í þessum steini er sú ábyrgð sem ég hef borið og vil ég núna afhenda ykkur hann sem tákn um að ábyrgðin er ykkar. Ábyrgðin á Biskupsmálinu og þeim afleiðingum sem það hafði og hefur enn fyrir svo marga.
Steinninn á að minna okkur á að við megum aldrei gleyma, heldur verðum við að læra af mistökunum og nýta reynsluna til að byggja upp framtíðina.
Steinninn er áfram hrjúfur og kaldur eins og raunveruleiki Biskupsmálsins er, en mosinn grær samt á honum.

Á steininn er letrað

Biskupsmálið 1978-2011

Ég hef barist góðu baráttunni, hef fullnað skeiðið, hef varðveitt trúna.
Og nú er mér geymdur sveigur réttlætisins sem Drottinn,
hinn réttláti dómari, mun gefa mér á þeim degi.
Og ekki einungis mér heldur og öllum sem
þráð hafa endurkomu hans. (2.Tím 4:7-8)

Sannleikurinn getur verið sár
en hann sigrar alltaf að lokum
og mun gera okkur frjáls.

Reykjavík 22.07. 2011
Með kærleikskveðju og Guð veri með ykkur
Sigrún Pálína Ingvarsdóttir

Flutt í Grensáskirkju, 22. júlí 2011.

Um höfundinnAllur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4088.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar