Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Kristín Þórunn Tómasdóttir

Ég á mér draum um kirkju

Kristín Þórunn

Í nýju viðtali við breska dagblaðið The Guardian segir Rowan Williams erkibiskup af Kantaraborg: „Ég hef séð kirkjuna - og hún virkar!“

Hvað ætli kallinn eigi nú við með þessari yrðingu? Hvað er kirkjan og hvernig vitum við að hún virkar?

Ég er nýkomin úr ferð um slóðir Marteins Lúthers og Katrínar frá Bóra. Margt upplifist á þeim slóðum og sagan verður áþreifanleg. Ekki síst er mér hugsað til framlags siðbótarinnar til kirkjunnar og þeirrar skapandi guðfræði sem fæddi siðbótina af sér.

Í siðbótararfinum mætir okkur sprengikraftur kirkjunnar - kirkjunnar sem samfélags kristinna karla og kvenna sem nærast á orði Guðs og leyfa því að móta líf sitt til góðra verka í heiminum. Það er kirkja sem virkar.

Fjársjóðir kirkjunnar

Eitt af því sem Lúther lagði til atlögu við hjá kirkjustofnun miðalda var hugmyndin um aflát og fyrirgefningu synda fyrir tiltekna hegðun. Kirkjustofnunin nærði hugmyndina um að fjársjóðir kirkjunnar fælist í góðum verkum og heilagleika Krists og dýrlinganna og að hún hefði umboð til að leysa þennan fjársjóð út í smáskömmtun gegn greiðslum og öðrum verkum.

Siðbótin sneri þessu við. Fjársjóður kirkjunnar er trúin sem er gefin fyrir náð Guðs. Þar kemur engin kirkjustofnun við sögu. Við lifum í náð - hún stendur okkur ekki aðeins til boða heldur hefur hún þegar verið veitt.

Á síðustu öld orðaði guðfræðingurinn Paul Tillich þetta þannig að kjarni fagnaðarerindisins snúist um það eitt að „taka það til sín að Guð hefur tekið þig gildan“, að Guð sé náðugur Guð sem hefur leitað og fundið manneskjuna áður en manneskjunni dettur í hug að leita Guðs.

Náðin er lykill að frelsi mannsins, frelsi undan ótta og angist, undan sektarkennd og syndavitund, undan því sem íþyngir okkur. Þetta er höfuðstef í guðfræði Marteins Lúthers og á jafnt við í dag sem á 16. öldinni.

Ég á mér draum um kirkju

Ég á mér draum um kirkju sem virkar. Kirkju sem bregst ekki heldur bregst við þeirri köllun sinni að láta reyna á málstað Jesú í samfélaginu okkar. Að láta reyna á vonina, umhyggjuna og trúna.

Þegar kirkjan hefur vindinn í fangið reynir á innviði hennar. Það eru ekki húsin eða jarðeignirnar, ekki embættin eða launagreiðslurnar. Það er boðskapurinn sem hún flytur. Ef kirkjan lifir í samræmi við boðskapinn, á hann greiða leið að hjarta mannsins.

Þá er kirkjan á réttri leið.

Um höfundinn9 viðbrögð við “Ég á mér draum um kirkju”

 1. Margrét Guðjónsdóttir skrifar:

  Heyr heyr Svo sannarlega sammála!

 2. Sigrún Óskarsdóttir skrifar:

  Takk fyrir vekjandi pistil,ég deili þessum draumi með þér Kristín Þórunn. Boðskapurinn sem okkur er trúað fyrir er magnaður og við eigum að láta hann berast frá hjarta til hjarta.

 3. Pétur Björgvin Þorsteinsson skrifar:

  Takk fyrir þetta innlegg í umræðuna. Ég velti því stundum fyrir mér hvort verið geti að siðbreytingin hafi aldrei náði hingað upp á Frón - þ.e. aðeins í orði en ekki á borði? Og því sé svona komið fyrir okkur í dag. Ég spyr semsagt hvort við eigum eftir að uppgötva hvað felist í siðbreytingunni?

 4. Guðmundur Pálsson læknir skrifar:

  Ég er kaþólskur maður. Ég fyllist undrun að heyra þessa drauma um veraldarmennina Martein Lúter og Tillich í stað umfjöllunar um Jesúm Krist, postulana, heilaga menn, kirkjufeður og aðra menn og konur sem dóu fyrir trúna og skildu kjarna tilverunnar.

  Látum vera þó lúterskir lofsyngi ekki kaþólskan sið en á þetta Lúters-tal erindi við hina Íslensku kirkju á okkar öld? Er þetta kjarni málsins? Eða er verið að dásama aðra óþekkt og blekkingu sem koma skal í nafni “réttindabaráttu” innan krikjunnar? Þreytast menn aldrei á þessu. Og hvar eru varnarmenn trúarinnar?

  Vel getur verið að bylting Lúters hafi verið skynsamlega á sínum tíma en það var á 16. öld og liðinn allnokkur tími.

  Mér er ekki kunnugt um að þessir menn ML og PT virkir í bænalífi sannkristins fólks. Eða kafa venjulegir sannkristnir menn í hugsanir þessarra fræðimanna til að skilja Krist?

  Það er eins og höfundur geri sér ekki grein fyrir því að trúin þarf að vera hrein svo maðurinn virkilega skilji hvað erindi Krists fjallar um í kjarna sínum. Gildrurnar eru margar, svo margt er að varast sem leiðir hugann út í bláinn, að aðskiljanlegum mannanna setningum og alls kyns hagsmunum og pólitík. Það er mjög freistandi en ekki farsæl leið. Og hún endar út í móa.

  Kristnir menn þekkja alltaf hvern annan og fagna hver öðrum en þeir þekkja líka strax þá áttavilltu- sem hafa aðra drauma og dreyma mest um sjálfan sig.

 5. Þórður Guðmundsson skrifar:

  Það er gott að geta átt sér draum og fleiri en einn til að búa við. Ég á mér einnig draum um góða kirkju, kirkju sem hlustar og er til staðar, sem er virk og fagnar mér þegar ég kem. Sá draumur getur allt eins orðið að veruleika á hverjum degi með jákvæðu hugarfari okkar allra.

  Lykillinn að náðinni, veistu það að ég er ekki alveg sammála þar nema að kafa þurfi dýpra en sem nemur textanum. Ég vil ekki frelsi frá ótta, ekki frá sektarkennd, né heldur syndavitund. Ótti er góður eins lengi og hann stjórnar ekki lífi manns. Heilbrigður ótti hjálpar mér til þess að gæta mín gagnvart illum örlögum. Sektarkennd segir mér að ég hafi gert eitthvað sem er ekki rétt, sem einmitt tilheyrir samviskunni. Án hennar tel ég mig vera fjarri Guði. En samviskan á mig samt ekki, drottnar ekki yfir mér og einmitt þannig upplifi ég ákveðið frelsi.

  Náðin er ný á hverjum degi og hún segir mér að Guð minn sé með í för.

  Gangi þér vel í leik og starfi Kristín Þórunn.

 6. Pétur Björgvin Þorsteinsson skrifar:

  Leyfi mér á þessum vettvangi að segja: Takk Guðmundur fyrir þarfa áminningu. Vissulega eigum við fyrst og fremst að horfa til Jesú Krists og fylgja honum. Sú vísa verður aldrei of oft kveðin. Guð gefi okkur öllum gæfu, visku og þor til að ganga fram veginn í nafn Jesú Krists frá Nasaret, minnug þess að Hann á að vaxa, við eigum að minnka.

 7. Guðmundur Pálsson læknir skrifar:

  Þakka þér fyrir þín orð Pétur Björgvin. Ég vil einnig taka undir með Þórði Guðmundssyni sem vill ekki frelsi frá skynsamlegum ótta, ekki frá sektarkennd né heldur syndavitund, (svo vel orðað, því vitundin um syndina er mönnum svo oft hulin)

  Einn serbneskur munkur Arsenius held ég hann heiti, sagði eitthvað á þá leið að vegurinn væri sem kunnugt er þröngur. Hann liggur þangað, sagði hann og benti: Til að villast ekki þarf tvo veggi sinn til hvorrar handar á veginum til stuðnings. Veggurinn vinstra megin heitir: MUNDU AÐ ÞÚ MUNT DEYJA en sá hægra megin ber nafnið ÓTTASTU! ÓTTAST ÞÚ GUÐ. Nokkuð dramatískt en skemmtilegt og vekjandi.

 8. Kristín Þórunn Tómasdóttir skrifar:

  Takk fyrir skemmtileg og vekjandi viðbrögð!

  Innviðir kirkjunnar er boðskapur Jesú Krists. Hann er kletturinn okkar. Lúther, Tillich, Arsenius, postularnir, Móðir Teresa og allir heilagir benda á hann og eru fyrirmyndir okkar í trúarlífinu.

  Ég er hugsi yfir því hvað við heyrum oft í Biblíunni “óttast þú eigi”. Heilbrigð skynsemi kennir okkur að það eru hlutir sem ber að óttast. En óttinn sem grunnafstaða til lífsins og annarra, kreppir og fjötrar.

  Þess vegna ríkir óttinn ekki í guðsríkinu.

  Lifið heil!

 9. Guðmundur Pálsson læknir skrifar:

  Þetta er áreiðanlega rétt hjá þér Kristín. Mundu bara að Guðsóttinn rekur burt allan veraldarótta. Þannig virkar þetta. Ég er ekki viss um að þú gerir þennan greinarmun í textanum þínum.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 4252.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar