Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Sigurður Árni Þórðarson

Aldrei aftur Útey

FániHvað gera unglingar og ungt fólk í sumarbúðum um mitt sumar? Tala saman, hlægja, ræða málin, njóta lífsins. Og svo er þetta tími upplifana, hrifningar og að verða ástfanginn.

Útey er á einu dásamlegasta svæði Noregs. Eplaakrarnir við Tyrivatnið eru sannarlega heillandi. Systir mín og fjölskylda býr í nágrenninu og bátalægi þeirra er rétt við Útey, sem Verkamannaflokkurinn á. Systir mín fer með gesti sína á þetta svæði unaðar og dásemda. Þegar ég var við bryggjuna í Útey hugsaði ég um hvað svona eyja væri góður vettvangur fyrir lífsmótun fólks framtíðar.

Svo varð heimsendir í þesari paradís, sem djöfull læddist inn í. Þegar sprengjan sprakk í Oslo héldu flestir, að óður múslimi hefði unnið hryllingsverkið. En hið illa kom ekki að utan heldur að innan. Hinn illi var ekki aðkomumaður heldur innfæddur.

Forsætisráðherra Noregs endurómaði amerískan talshátt og sagði verknaðinn vera heigulsverk. Það er rangt því sprenging og fjöldamorð er fremur æði haturs.

Að baki djöfulskapnum er ótti, sem beinist að öllu því sem er öðru vísi: Ótti við aðrar lífsskoðanir, litarhætti, öðru vísi menningu og fólk. Ótti elur af sér hatur og hatur gengur alltaf í lið með dauðanum. Ofbeldið á sér því stefnu, berst gegn opnu samfélagi umhyggju og samhjálpar. Illvirkin eru atlaga gegn framtíð, sem umfaðmar ríkidæmi margra kynþátta og samvinnu menningar, átrúnaðar og fjölbreytileika. Hinn norski fjöldamorðingi er ekki ruglaður byssukall, heldur maður sem fyrirlítur öðru vísi fólk og hatar fjöbreytileika. Hann reynir að fyrirbyggja, að ólíkt fólk með mismunandi trú og sið geti búið saman í friði og jafnvel orðið ástfangið hvert af öðru.

Sprengingin í Oslo og fjöldamorðin vega að gildum, trú, menningu og stefnu norrænna þjóða. Við eru öll Norðmenn þessa sorgardaga. Eigum við að leyfa höggbylgjunni frá Oslo að hræða eða skothríðinni í Útey að beygja okkur? Nei. Mæður og feður, sem gáfu börnum sínum gildi, elsku og framtíð, fóru til að sækja lík barna sinna. Glæpur var unnin á þeim, norsku þjóðinni en líka okkur - öllum. Hatrið réðst gegn ástinni. Látum ekki ungt fólk deyja til einskis, heldur heiðrum þau með því að treysta samfélagsfriðinn. Mætum ótta með trausti. Hvikum ekki frá uppeldi fólks til menningarlegrar og trúarlegrar fjölbreytni. Ræðum opinskátt eðli hatursins. Leyfum lífinu að lifa. Til forna var sagt: Aldrei aftur Masada. Gegn hatri nútíma: Aldrei aftur Útey.

Um höfundinn8 viðbrögð við “Aldrei aftur Útey”

 1. Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifar:

  Vel mælt og réttilega. Þetta er hverju orði sannara. Þarna var unnið óskiljanlegt grimmdarverk, sem er ofar mannlegum huga að nema og skilja, og ráðist að því helgasta, sem við eigum. Því miður hefði þetta getað gerst hvar sem er annars staðar, jafnvel hér á landi. Þess vegna er svo mikilvægt, að kirkjan fái að breiða út siðferðis- og fagnaðarboðskap Jesú Krists um kærleika og frið milli manna, eins og Páll postuli útlagði hann, og láti rödd sína heyrast sem víðast, en láti ekki raddir vantrúarinnar og raddir, sem tala eins og Siðmennt gerir, þagga niðrí sér nokkru sinni. Fólk verður að sýna og sanna, að það geti lifað saman í Guðs friði alls staðar og í öryggi fyrir svona brengluðu fólki, eins og illvirkjann þennan, sem þolir ekkert það, sem til lýðræðis og mannúðar telst.

 2. Sigríður Guðmarsdóttir skrifar:

  Góðan daginn,
  Anders= djöfull, Útey = Paradís. Hatur ræðst gegn ástinni.

  Grein þín, kæri nafni, er full af apókalýptískum orðaforða þar sem búið er að heimfæra hið góða og vonda upp á atburðina í Útey og þar sem línur hins illa og góða eru skýrar og greinilegar. (Að einhverju leyti á þetta líka við um mína eigin Úteyjarprédikun hér á vefnum sem ég er að hugsa um og gagnrýna í sömu andrá og ég skoða greinina þína).

  Ég held að að slíkar uppstillingar á Útey sem Paradís og ABB sem djöflinum með eplið þarfnist guðfræðílegrar yfirlegu. Það er með allmiklum rétti hægt að líta á atburðina á föstudag sem hatursglæp (hate crime). En gerir það gildin sem hatursglæpirnir beinast gegn endilega “góð”? Geta þau gildi kallast “ástin”? Getur ungliðahreyfing norska verkamannaflokksins kallast “ástin”? Er fjölhyggjan algóð? Þetta eru spurningar sem samsömun Úteyjar og Paradísar kalla fram hjá mér. Hvers konar tákn verður táknið Útey? Þú ert reyndar þegar búinn að gera Útey að Masada.

  Anders Behring Breivik taldi fjölhyggjuna vera rót allrar illsku. Við þurfum einhvern veginn að geta afbyggt þessar hugmyndir án þess að stökkva inn í andhverfu þeirra.

  Doktorsmóðir mín, Catherine Keller, skrifaði bókina “Apocalypse Now and Then: A Feminist Guide to the End of the World” 1999 þar sem hún rekur apokalýptískan orðaforða í vestrænum arfi. Hún greinir að apókalýpsu, and-apokalýpsu (þar sem reynt er að bæla niður þennan orðaforða) og ný-apokalýpsu (þar sem þessi orðaforði er notaður fullum fetum í nútímanum). Greinin þín með frumspekilegum stefjum andstæðum haturs og ástar, paradísar og djöfuls gæti auðveldlega flokkast undir nýapókalýpsu. CK telur að ekki sé hægt að bæla niður þessa orðnotkun, hún sé of samgróin vestrænum hugmyndum. Hún vill heldur ekki nýta sér nýapókalypsuna, en leggur til “counter apokalypse”, þ.e. aðferð sem fer humátt á eftir apókalýptískum orðaforða og afbyggir hana jafnóðum, bendir á það ofbeldi sem felst í þessum orðaforða og hversu mikilvægt það sé að vera næmur á ólík valdahlutföll þeirra sem nýta sér hann.

  Ég set þetta fram meira sem upphaf samræðu en gagnrýni, því að ég held að við þurfum á því að halda á næstunni að gera skýran greinarmun á hatursorðfæri og heilbrigðri gagnrýni.

  Kveðja, Sigríður

 3. Sigurður Árni Þórðarson skrifar:

  Þakka viðbrögð. Þakka snjallar ábendingar þínar nafna, Sigríður. Nei, Útey var hvorki né verður paradís og verkamannaflokkurinn var hvorki né verður messíasarsamfélag, nema apokalypsan verði með nýstárlegum hætti! And-apokalýtíska nálgunin minnir á aufhebung Hegels - viðbragð sem ekki læsir flokka og skapar andstæður heldur opinberar fordóma og forsendur og efnir til samtals og nýrrar sýnar - færir mál og ferla áfram. Gerðu svo vel og nefndu dæmi um nefningar og afbyggjandi málfar í Úteyjar-samhengi?

 4. Sigríður Guðmarsdóttir skrifar:

  Ég held að slík afbygging sé rétt að eiga sér stað. Afbygging byggir á texta og hinn samfélagslegi texti Úteyjar er rétt að verða til meðan menn lesa gapandi hugaróra Anders á 1500 síður og reyna að skilja það sem hefur gerst. Nú er tími til að lesa, skrifa og greina og þess gerist mikil þörf á næstu vikum.

  Það er gott að við skulum nú eiga úrval úr ritsafni Hönnuh Arendt á íslensku, gefið út 2010. Ég tek undir með Henning Mankell sem í góðri grein benti á grein Arendt um Eichmann. Það er eitthvað verulega banalt við þessa tegund illsku og það hjálpar held ég að skrúfa þetta banalítet í sundur.

  Og svo er ég búin að hugsa mikið um hugleiðingar Ágústínusar Unde malum? í Borgríki Guðs í dag. Þar stillir hann hinu illa og góða ekki upp sem díalektískum andstæðum, heldur er hið illa hörgulsjúkdómur hins góða.

  Bestu kv. Sigríður

 5. Matti skrifar:

  Afsakið ágæta fólk.

  Finnst ykkur ekkert athugavert við fyrstu athugasemdina?

 6. Sigríður Guðmarsdóttir skrifar:

  Ég er sammála Guðbjörgu Snót um að mikilvægt sé að fólk geti lifað saman í friði, hvort sem það skilgreinir þann frið sem Guðs frið eða veraldlegan. En ég set spurningamerki við ýmislegt í svarinu.

  Í fyrsta lagi er kirkjan valdamikið afl í íslensku þjóðfélagi og umræða um þöggun á því ekki við. Í öðru lagi hef ég ekki séð neinar röksemdir fyrir því hvers vegna slíkir atburðir ættu alveg eins að hafa getað gerst hér á landi. Til þess þyrftum við að hafa það í hendi hverjar forsendurnar voru í Noregi og þær liggja ekki fyrir ennþá til að gera samanburð hér á landi. Í þriðja lagi tel ég hæpið að setja boðskap kristinnar trúar fram sem eina svarið við þjóðernishyggju Anders Behring Breivik. Þetta fjallar ekki um okkur þessi góðu og hin þessi vondu. Allar stefnur, jafnt atheismi og hin kristna þurfa á gagnrýni að halda og að valdaorðræða þar innanborðs sé skoðuð. Í fjórða lagi tel ég það vægast sagt ósmekklegt að blanda í sama pistlinum saman ólíkum hlutum eins og umræðu um trúarbrögð að hætti Siðmenntar og Vantrúar og hinum hræðilegu atburðum í Osló og Útey. Gætum að því sem við segjum og því samhengi sem við setjum það fram. Það er nóg að Eyjan og AMX hafi fundið andskotann hvort í öðru. Slíkt karp hjálpar ekki til við að greina þá atburði sem hér hafa átt sér stað og pistill Sigurðar Árna gefur heldur ekki tilefni til þess.

  Eftir því sem ég kemst næst eftir lestur manifestós ABB, er að hann er í stríði við módernismann allan, ekki bara múslima og marxista, heldur femínista, guðleysingja og hófsamar og sjálfsgagnrýnar kirkjustefnur. Ég held Matti að okkar líkar, þú og ég og Sigurður Árni og margir fleiri sem yfirleitt eru á öndverðum meiði í umræðum um samband ríkis og kirkju og fleira slíkt séu í hópi þeirra sem ABB vildi burtu úr sinni “kristnu” Evrópu.

  Kveðja, Sigríður

 7. Matti skrifar:

  Takk fyrir svarið Sigríður. Ég er algjörlega sammála.

 8. sigurður Árni Þórðarson skrifar:

  Amen.

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3823.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar