Trúin og lífið
Lífið og tilveran

Eftir sama höfund

Skyldar færslurLeita

Pétur Pétursson

Að hlaupast undan merkjum

Um trú og kirkjuskipan í nýju stjórnarskrárdrögunum

Grundvallarlög ríkisins geta alls ekki verið eins og afurð sönglagakeppni, ekki vinsælda- eða auglýsingaplagg. Þar er eðli málins samkvæmt fengist við grundvöll og forsendur sem önnur lagasetning og reglugerðir byggja á og þess vegna verður stjórnarskrá að vera vitnisburður um sögulegt samhengi og almenn viðmið, bæði hvað varðar umgjörð og innihald.

Tillögur stjórnarskrárnefndar eru að flestu leyti góðar og ljóst er að fagrar hugsjónir, góður vilji og almannahagsmunir hafa svifið yfir vötnum hennar. Niðurstaðan varðandi trú og kirkjumál ríkisins hanga þó í lausu lofti – eru málamiðlun sem tekur ekki á viðfangsefninu.

Staðreyndin er sú að grundvöllur siðar, mannréttinda, trúfrelsis og mannhelgis er sú frjálslynda, umburðarlynda og þjóðlega kristni sem þreifst hér í landinu alla öldina sem leið með stjórnarskrárbundnum stuðningi ríkisins. 17. greinin í nýju stjórnarskrártillögunum gerir trú í raun réttilega hátt undir höfði með því að taka það greinilega fram að það sé réttur þegnanna að iðka trú - það er sem sagt viðurkennt að jákvætt trúfrelsi, frelsi til trúar, sé velferðarmál sem skiptir samfélagið máli og þess vegna verður ríkið að eiga sér umgjörð um trúriðkun þegnanna – og trúleysi eða hlutleysi þegar því er að skipta - og það verður að eiga sér innihald einnig.

Órjúfanlegur hluti af þeim trúarlega veruleika sem hér er tæpt á er sá mikilvægi réttur einstaklingana að standa utan allra trúfélaga. Trúin er persónulegt mál, en umgjörð hennar og innihlald er samt sem áður veruleiki sem skiptir samfélagið miklu máli. Þetta kann að virðast þverstæða en er það ekki ef betur er að gáð. Sá umburðarlyndi og frjálslyndi kristindómur sem óx saman við þjóðlífið í upphafi 20.aldar gerði sér grein fyrir því grundvallaratriði að trúin er persónulegt mál og að það er ekki hægt að þvinga hana upp á fólk og að öll fræðsla og uppeldi verður að taka mið af forsendum einstaklingana. Mannhelgi og virðing fyrir einstaklingnum er grundvallaratriði í þeirri trú sem Jesús Kristur boðaði. Hann sagði t.d.:

„Leyfið börnum að koma til mín“, en ekki: „Sendið börnin til mín.“ M.a.
þess vegna er það svo mikilvægt að fólk geti staðið utan trúfélaga og breytt um trúfélagsaðild. Þann rétt og þær lífsskoðanir sem þar um ræðir ber samfélaginu – þ.e. ríkinu líka að styðja og vernda. Það er velferðarmál sem snertir bæði einstaklinga og þjóðfélagið.

Þetta grundallaratriði var í raun viðurkennt með fyrstu stjórnarskránni 1874 þegar kveðið var á um nýja kirkjuskipan ríkisins um leið og trúfrelsi var í lög leitt. Samkvæmt grein 19 mætti halda að kirkjuskipan ríkisins hangi í lausu lofti, sé án sögulegra forsendna og innihalds. Þar er sagt að Alþingi „megi kveða á um kirkjuskipanina“ og þá verður spurt á hvaða forsendum má alþingi gert það? Hér er verið að tippla á tánum. Staðreyndin er sú að Alþingi ber skylda til þess að setja lög um kirkjuskipanina og getur alls ekki skotið sér undan því. Rétturinn til lífs, réttur barna, virðing fyrir fjölbreyttni mannlífsins og trúfrelsi á Íslandi hvílir á kristinni trú eins og hún var boðuð og útfærð af leiðtogum aldamótakynslóðarinnar í kirkju- og skólamálum. Þetta fólk skilaði Íslandi inn í nútímann og við minnumst þess á hátíðastundum og afmælum, en við skulum líka gera það þegar við setjum okkur nýja og nútímalega stjórnarskrá. Þegar ég segi þetta veit ég vel að í öðrum trúarbrögðum er margt sem er hliðstætt þessum grundvallargildum, en þau koma saman á sérstakan hátt í því samhengi og samfélagi sem hér hefur þróast í hundrað ár. Þetta er sú umgjörð og innihald sem nýja stjórnarskráin okkar verður að koma orðum að, annars er verið að hlaupast undan merkjum og hætta við hálfkarað verk.

Um höfundinn2 viðbrögð við “Að hlaupast undan merkjum”

 1. Guðbjörg Snót Jónsdóttir skrifar:

  Þakka þér fyrir þessa athyglisverðu athugasemd. Þetta er hverju orði sannara. Ég var nú að vonast til þess, að þeir prestar, sem sátu stjórnlagaþingið myndu halda vörð um þjóðkirkjuna og trúmálakaflann í stjórnarskránni, og forða því, að yrðu gerðar miklar breytingar þar á, en ég verð að segja alveg eins og er, að ég hef orðið fyrir miklum vonbrigðum með það, sem út úr þeirri vinnu hefur komið og er ósátt við niðurstöður ráðsins í þessum efnum. Þetta verður að laga og má ekki fara svona óbreytt í gegn, og leyfa Siðmennt og öðrum að ráða ríkjum í trúmálum hér á landi í framtíðinni. Hér verður að vera þjóðkirkja að mínu mati, þó að einhverjir myndu nú segja, að ég hljómaði gamaldags að segja slíkt. Ég á erfitt með að sætta mig við að vera ekki í þjóðkirkju lengur, ef kaflinn verður samþykktur eins og hann er í dag.

 2. Pétur Pétursson skrifar:

  Bréf frá Hauki Ágústssyni guðfræðingi og kennara á Akureyri
  Blessður, Pétur.
  Ég þakka þér það, að þú skulir hafa sent mér greinina til yfirlestrar. Mér finnst hún góð það sem hún nær, en þykir, að hún hefði mátt vera afdráttalausari um þann sögulega, menningarlega og málfarslega grundvöll, sem íslensk kristni og þá íslensk kirkja hefur í aldanna rás verið íslenskri þjóð.. Við stöndum í nútíðnni í ómælanlegri þakkarskuld við kirkjunnar menn og þá líka kirkjuna sem stofnum jafnt hana sem hún var fyrir siðskipti sem eftir þau. Án klaustra og ritlærðra manna ættum
  við ekki menningarminjar okkar. Án útgáfu manna, s.s. herra Guðbrands, hvorki læsum við né töluðum íslensku, heldur hefðum menningarminjarnar í þýðingum, hefðu þær varðveitst, sem ekki er með nokkru móti víst, og værum þá í sporum t.d. Norðmanna,sem hafa þjóðarsögu sína að fornu í Heimskringlu, en geta ekki notið hennar á því máli, sem hún er rituð á, hvað við getum - enn og aftur - vegna þess starfs, sem kirkjunnar menn, kristninnar þjónar, hafa unnið þjóðinmi fram á okkar daga.
  Í raun þykir mér óhætt að taka svo djúpt í árinni, að án þess starfs, sem unnið var af kirkjunnar mönnum í klaustrum, á biskupsstólum, í almennu hjelgihaldi og miklu víðar ættum við ekki nú á dögum væntanlega meira en svo tilkall til þess að kallast sjálfstæð þjóð, þar sem við hefðum allt eins líklega glatað tungu okkar, sértækri menningu okkar og um leið möguleika okkar til sjálfstæðis.

  Staða þjóðkirkjunnar nú á dögum er höll. Þar hafa, frá mínum sjónarhjóli, valdið mestu um misvitrir menn, sem um stjórnvöl hafa haldið. Því hefur ímynd kirkjunnar skaddast nokkuð hin síðari árin. Við kringumstæður sem þær, sem ég tel nú vera uppi, er ekki staður né stund til hálfvelgju eða undansláttar í málfylgju. Hinn raunsanni grundvöllur menningar okkar og tilveru sem sjálfstæðrar þjóðar, sem stolt viðurkennir arf sinn og uppruna, er i veði. Sýna þarf fram á hann af röggsemd og með rökum. Ég tel, að fullur hljómgrunnur sé fyrir þann málflutning á meðal almennings í landinu. Þann hljómbotn þarf að virkja, vekja hann til enduróms og láta hann lyfta þjóðlífinu og göfga það, efla mönnum hug og traust; byggja á því bjargi, sem þjóðin hefur í sögu sinni átt styrkast og - að ég tel - menn almennt vita, ef þeir skoða, þó einungis sé í skyndisýn, feril þessarar þjóðar, að hefur verið hennar helsta stoð og stytta í ÖLLU TILLITI í því “lífsstríði alda”, sem háð hefur verið öld af öld í þessu landi.

  Með bestu kveðju.
  Haukur Ágústsson

Allur réttur áskilinn © 2000-2006 Þjóðkirkjan. Flettingar 3842.


Pistlar
Postilla
Almanak
Spurningar